Íslenska veðrið: Að nýta sér öll tiltæk ráð.

Veðrið er eilíft viðfangsefni í lífi þúsunda Íslendinga. Þótt maður sé búinn að fara þúsundir ferða á landi og í lofti um landið, koma alltaf nýjar og nýjar aðstæður og ný viðfangsefni.

Ég var að skemmta í gærkvöldi ásamt hörku átta manna hljómsveit Björgvins Halldórssonar á 450 manna jólahlaðborði í íþróttahúsinu á Ísafirði. Með hljómsveitinni sungu Friðrik Ómar og Matti Matt og allir í hljómsveitinn með, þegar svo bar undir.

Spáð var að hann ryki upp með suðaustanstormi og hríð í nótt. Það þýddi að útbúa þurft plan A, plan B og plan C til að komast suður til að æfa klukkan tvö í Hörpu fyrir afmælis- og jólatónleika Stórsveitar Reykjavíkur.

Plan A: Aka strax af stað á miðnætti og reyna að komast alla leið suður á sem skemmstum tíma áður en veðrið kæmist í hámark. Óvíst um hvort hægt yrði að komast yfir fjögur erfið svæði, Steingrímsfjarðarheiði, Þröskulda, Brattabrekkku og fyrir Hafnarfjall.

Plan B: Aka að Steingrímsfjarðarheiði og snúa við til Ísafjarðar ef hún væri ófær og treysta á flug frá Þingeyri eftir hádegi, sem var auðvitað tæpt eða ófært.

Plan C: Aka að Steingrímsfjarðarheiði, treysta á mokstur í hádeginu og sjá til hvort maður kæmist fyrir klukkan fjögur til Reykjavíkur. Kannski verða tepptur í Borgarnesi af því að það væri fárviðri undir Hafnarfjalli og reyna að aka um Geldingardraga.

Plan A gekk upp. Enginn annar bíll var á ferðinni í 360 kílómetra frá Ísafirði. Í þessari einsemd mátti ekkert klikka í hálkunni og snjónum og stórir hlutar leiðarinnar án símasambands.

Við Hafnarfjall voru hviðurnar komnar í 30 metra á sekúndu. Ég hinkraði í Borgarnesi þangað til rúta, sem ég hafði ekið fram úr rétt áður, fyrsti og eini bílinn sem ég varð var við á leiðinni frá Ísafirði, fór fram úr mér. Ég var nefnilega á minnstu gerð af Suzuki jeppa, sem er léttur og viðkvæmur fyrir vindi.

Þegar kom að Hafnarfjalli "hengdi" ég mig á hana, ók alveg upp við hægra afturhorn hennar í skjóli við hana, en vindurinn stóð frá vinstri af fjallinu. Ef hún fyki myndi ég sjá til þess að lenda ekki á henni og beygja upp í vindinn.

Efti skamma stund virtist rútubílstjórinn verða þess var hvað ég væri að hugsa og færði sig yfir á vinstri vegarhelming því við vorum einu tveir bílarnir sem voru á ferð. Hann vann það með þessu að hafa svigrúm ef hviða feykti honum til og allan veginn til að vinna sig úr því.

Ég vann það með þessu að vera í besta mögulega skjóli.

Rútan valt ansi mikið og feyktist til í sviptivindunum en fauk ekki og við sluppum.

Ég var þakklátur fyrir að rútubílstjórinn ákvað að halda áfram og hlakka til að fara inn í sveifluna hjá Stórsveitinni eftir stundarkorn.   


mbl.is 40 m/s undir Hafnarfjalli og Eyjafjöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Mjög fróðleg frásögn hvernig aðstæður eru rétt metnar af vönum ferðamanni. Sérstaklega finnst mér athyglisverð hvernig bílstjóri rútunnar hefur „lesið“ hugsun bílstjórans sem á eftir kom, þ.e. þinnar.

Bestu þakkir fyrir að fá að deila þessu.

Guðjón Sigþór Jensson, 3.12.2012 kl. 17:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband