5.12.2012 | 12:54
Dæmigert fyrir það hvernig fólk var afvegaleitt.
Stór hluti efniviðarins í spilaborg Hrunsins fólst í því að íslensk stjórnvöld og fjármálastofnanir lokkuðu fólk til þess að taka þátt í græðgisbólunni með því að búa til umhverfi þar sem allt var gert, sem hugsanlegt var, til að sveigja gjörðir fólks að því taka sem öflugastan þátt í dansinum um gullkálfinn sem reyndist vera tilbúningur að mestu leyti.
Með því að standa fyrir framkvæmdum við virkjanir og álver, sem voru meiri á örfáum árum en samtals í þrjátíu ár á undan var sett af stað þensluskrúfa, sem snerist æ hraðar.
Framsóknarflokkurinn lofaði fyrir kosningar 90% fjármögnun íbúða og í kjölfarið fór kapphlaup um lánveitingar á milli íbúðalánasjóðs og bankanna. Lög um verðtryggingu auðvelduðu fólki að fara út í íbúðakaup og neyslulán sem oft voru langt umfram getu, af því að lögin fólu í sér sívaxandi höfuðstól og greiðslubyrði, sem lántakandanum var meinað að sjá fyrir.
Lögin miðuðust við einhliða þjónkun við bankana sem tryggt var að þurfa ekki að taka hina minnstu áhættu heldur skyldi hún öll lenda á skuldaranum. Áhættan var þar að auki meiri en í öðrum löndum vegna eindæma getuleysis Íslendinga við að hafa stjórn á efnahagsmálum.
Ofan á þetta var skrúfuð upp þensla og lánafyllerí, sem hækkaði gengi krónunnar allt að 30 prósent yfir raunvirði með tilheyrandi kaupæði og fjárfestingatryllingi sem endaði síðan með óhjákvæmilegu hruni.
Þetta viðgekkst af því að fólkið hélt áfram í nógu miklum mæli að veita þessum stjórnmálamönnum brautargengi og lét vonir um gróða og miklar eignir stjórna sér.
Nú upplýsir Elvira Mendes að kollegar hennar, evrópskir sérfræðingar, trúi ekki sínum eigin augum eða eyrum þegar þeim eru kynnt þessi mál hér. Um sé að ræða siðleysi sem talin yrði alger lögleysa í öðrum Evrópulöndum.
Fróðlegt verður að sjá framhald þessa máls.
Mótsagnirnar eru margar. Margir þeirra, sem réttilega hafa bent á svipað og Elvira sýnir núna fram á, mega ekki heyra evrópskt samstarf nefnt og telja að allt illt komi þaðan. Þeir munu hugsanlega ekki verða ánægðir með það ef breytingar á þessu lánakerfi kemur úr þessari átt.
Aðrir, sem vilja aukið samstarf við ESB, eiga hins vegar erfitt með að sætt sig við breytingar á verðtryggingunni vegna hræðslu við afleiðingar þess að hróflað verði við henni.
Já, við lifum á skrautlegum tímum.
Þarf gagnsærri fjármögnunarleiðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er mikil einföldun á málinu Ómar. Bólan var farin af stað og Íbúðalánasjóður sat í raun eftir vegna þess að hans lán gátu bara ekki keppt við 100% fjármögnun bankana.
Um mitt ár 2004 voru hámarkslán Íbúðalánasjóðs hækkuð og vextir lækkaðir í 4,8% umfram verðtryggingu, en beðið var með að hreyfa við hlutfalli lána af kaupverði. En skömmu síðar hófu bankarnir innreið sína á húsnæðismarkaðinn.
Í ágúst 2004 bauð KB banki íbúðalán á 4,4% vöxtum umfram verðtryggingu. Lánað var fyrir allt að 80% af verðmati fasteignar á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri, en allt að 60% af verðmati annars staðar á landinu.
Ekkert hámark var á lánunum, fyrir utan þessi mörk, en þau skyldu þó aldrei vera hærri en brunabótamat. Aðrir bankar tóku fljótlega að bjóða slík lán og um tíma voru í boði lán fyrir allt að 100% kaupverðs.
Fyrir jól 2004 samþykkti Alþingi að leyfa Íbúðalánasjóði að lána fyrir allt að 90% kaupverðs. Jafnframt var tilkynnt að hámarkslán yrðu hækkuð í tæpar 15 milljónir króna um áramót og hafði hámarkið þá hækkað um nálægt 50% á fáum mánuðum.
Hlutdeild Íbúðalánasjóðs í nýjum fasteignalánum fór um tíma niður fyrir 20%.
Bankarnir lánuðu mest til húsnæðiskaupa á höfuðborgarsvæðinu en Íbúðalánasjóður var sterkari á landsbyggðinni. Rétt er að hafa hugfast að húsnæðisbólan var hér á landi að miklu leyti bundin við höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni – og Austurland á tímabili – en stórir hlutar landsins voru lítt snortnir.
Það má lesa meira um þetta í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands...
http://hhi.hi.is/sites/hhi.hi.is/files/C-Series/2010/C10_01.pdf
Eiður Ragnarsson, 5.12.2012 kl. 13:28
"Samkvæmt grófum útreikningum mínum, miðað við verðbólguspár, myndu óverðtryggðir vextir íbúðalána til skamms tíma verða 15-20%," segir Elvira Mendez.
Ef við verðum áfram með íslenska krónu myndu vextir hér því væntanlega hækka, ef verðtryggingin yrði aflögð.
Verði ykkur að góðu.
Þorsteinn Briem, 5.12.2012 kl. 14:12
Takk nafni.
Kveðja að austan.
Ómar Geirsson, 5.12.2012 kl. 15:13
Framsóknarflokkurinn bauð 110% lán en ekki 90% fyrir kosningar í aðdraganda hrunsins. Það mátti hver heilvita maður sjá í hvert stefndi. En þeim tókst að blekkja sem margir klóra sig í handarbökin nú eftir að hafa lent í skuldavefnum mikla.
Guðjón Sigþór Jensson, 5.12.2012 kl. 17:04
Og þetta; http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2012/12/05/minnkandi_likur_a_nyjum_alverum/
GB (IP-tala skráð) 5.12.2012 kl. 17:58
Jú jú, stóriðjuframkvæmdir störtuðu bólunni og Framsóknarmenn með sína snilli blésu duglega í hana. Allt skjalfest.
Hitt er annað, með verðtryggð lán, að eg barasta neita að trúa að fólkalmennt hafi ekki gert sér grein fyrir hvernig verðtrygging virkar. talsverð verðbólga var viðvarandi frá um 2000. Kemur þarna lægð 2003-2004 sirka en þar fyrir utan er hún nást alltaf um 5% eða meira. Eg bara neit að trúa því að íslendingar, þessi mentaða þjóð, hafi ekki vitað hvernig verðbólga virkar.
Nú, það kemur þarna verðbólguskot í Sjallahruninu - en það er ekkert mikið í sögulegu ljósi.
þetta er ekkert öðruvísi en td. Ungverjar sem tóku mikil erlend lán (meira en helmingur lána ungverja í evrum og frönkum) svo féll forintið ungverski gjaldmiðillinn - það var alveg í rammanum það sama sem gerðist og með ísl. verðtrygginguna. það var ekkert tekið fram í lánasamningi ungverja hve mikið forintið myndi falla o.þ.l. höfuðstóll að hækka. (ef menn höfðu ekki tekjur í evrum eða frönkum.) Eg hef ekkert heyrt um að þetta fall forintsins gerði það að verkum að ungversk lán væru ,,ólögleg" samkvæmt EU Neytendalögum. (Ungverjar hafa hinsvegar gripið til ýmissa ráðstafanna til að aðstoða lántakendur - en líklega ekki eins g vinstristjórnin á íslandi sem hefur knúið fjármálaöflin til að afskrifa tvöhundruð þúsund milljónir af skuldum heimilanna sem er heimsmet.)
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.12.2012 kl. 18:26
Og ps. það væri í raun alveg eins hægt að kæra bara íslenska verðbólgudrauginn til Sameinuðu þjóðanna.
Hitt er annað, að það er alveg punktur í því sem Elvíra segir. þ.e. að lánveitendur tryggja sig í raun verðbólgunni íslensku bæði í gegnum verðtrygginguna og vextina.
þarna ber að líta til að vaxtastig á íslandi hefur alltaf verið hátt. Án verðtryggingar yrðu breitilegir vextir himinháir. Með íslenska krónu verður aldrei vaxtastig eins og á td norðurlöndunum á kronunum þeirra. þarna spilar líka íslandsálagið inní og fl. og fl.
Verðtryggingin gerir það að verkum að það er í raun auðveldara eða eina raunhæfa leiðin fyrir efnaminna fólk að taka húsnæðislán svo vit sé í. það þarf að vera afar vel stæður til að taka verðbólguskot með breytilegum vöxtum. Og fastir vextir verða hérna alltaf háir og aðeins til skams tíma í einu. það mun enginn lána með lágum föstum vöxtum til lengri tíma. Alveg útilokað í fyrirsjánlegri framtíð.
En ég skil svo sem alveg hjá henni að þetta er ákv. prinsip sem hún vill láta reyna á gagnvart EU lögum og það er alveg punktur í því sem frólegt verður að sjá niðurstöðuna á.
Eg held það sé miklu íklegra að ísl. dómsstólar fáist til að hringla eitthvað í þessu. þar eru fordæmin af hringavitleysuhringli með lán. En þá verður að koma málinu til dómsstóla áður en Sjallar taka við einvöldum hérna því ísl. dómsstólar myndu aðallega fara að hringla í þessu til að koma höggi á núv. stjórnvöld auk þess að skapa lögfræðingum vinnu. Ef málinu verður ekki komið til dómsstóla fyrr en eftir að Sjallar taka við - þá er það vonlítið, að eg tel.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 5.12.2012 kl. 18:59
Sæll.
Í allri umræðu um hrunið skiptir megin máli að líta til þess hvaðan allt þetta fé kom? Af hverju var allt í einu hægt að lána svona mikið upp úr 2004 en það hafði ekki verið hægt fyrr?
Hvaðan komu allir peningarnir? Græðgi kemur málinu ekkert við!! Ég get t.d. verið gráðugasti maður heims en samt tiltölulega blankur!!
Helgi (IP-tala skráð) 9.12.2012 kl. 07:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.