Áfram allt fyrir helst ekki neitt.

Átroðningur sem ógnar mörgum helstu ferðamannastöðum landsins eykst jafn hratt og heildarstraumurinn vex, þetta um 20% á hverju ári, því að heildarhugsunarhátturinn er sá að taka inn sem mestar tekjur en eyða sem allra minnstu, helst engu, í að hafa stjórn á straumnum og finna nýja ferðamannastaði og ferðamannasvæði.

Víða á sambærilegum ferðamannasvæðum erlendis er margfalt meiri ferðamannastraumur en hér á landi og blasir við að hægt er að ráða við vandamálið ef vilji og fé eru fyrir hendi. Í staðinn er ástand margra þessara staða og svæða að verða þjóðarskömm.

Á hinn bóginn er líka hægt að kynna fjölmörg ný svæði, svo sem fossana miklu í efri hluta Þjórsár, sem eiga mikla möguleika.  Þannig væri hægt að dreifa álagi ferðamannanna.

En gallinn er sá að mörg af þessum svæðum og stöðum eru á aftökulista tuga virkjana og því um að gera að láta helst enga vita af þeim og eyða ekki krónu í að skapa aðgengi að þeim.

Oft eru það sömu aðilar sem segja að ferðamenn fari verr með landið en virkjanir aurugra miðlunarlóna, sem hafa sökkt eða eiga sökkva stórum og djúpum dölum og fylla þá af auri.   


mbl.is 619 þúsund ferðamenn hingað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Þú ert mikill náttúruverndarsinni, og telur þig þekkja þau mál betur en flestir íslendingar.

Mig langar að spyrja þig hvað þér finnst um að virkja sjáfarföllin?

Ég var stödd suður með sjó um síðustu helgi, rétt hjá Sandgerði. Þar var ölduhæðin gífurleg og ölduorkan óneitanlega mjög orkumikil.

Getur þú sagt mér hvers vegna þessi orka er ekki virkjuð?

Hvað ætli heiðarlegum og ó-flokksbundnum verkfræðingum finnist um þann möguleika að virkja sjáfarföllin? (Stjórnsýslan er vonandi ekki búðin að kaupa og klíkuflokks-kúga alla íslenska verkfræðinga)!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 5.12.2012 kl. 21:46

2 Smámynd: Sigurður Antonsson

Hower Dam virkjun dregur að sér milljón gesta árlega. Þar má sjá mikilfenglegt gljúfur og einstök mannanna verk. Virkjun frá 1936 og rómverska brú til Arizona sem var lokið var 2010. Rafmagnsframleiðslan dregst saman en ferðamannastraumurinn vex.

Ameríkanar bera mikla virðingu fyrir þessum hlutum og þarna ganga um þjóðgarðsverðir í einkennisbúningum. Fræða ferðamenn um sögu og náttúru. Hower var þeirra Einar Ben sem kom hlutunum á stað.

Árlega heimsækja yfir 3 milljónir ferðamanna Yosemiteþjóðgarðinn.

Með hóflegu gjaldi við innkomu, um 25 dollarar á fjölskyldubíl eru vegir og salernihús innan garðsins byggð. Öll aðstaða er til fyrirmyndar, en tjaldsvæði og þjónusta seld gegn viðbótargjaldi.

Sama mætti gera við Búrfell og Þjórsá. Þarna eru söguminjar frá landnámstíð og einstakir fossar sem kalla á athygli.

Með skipulagi er auðvelt að byggja upp ferðamannastaði. Innheimta gjald á hverjum stað og láta það ganga beint til framkvæmda en ekki í ríkissjóðshítina. Gera menn ábyrga fyrir rekstri og fjármunum eins og víða er gert. Óþarfi er að mikla allt fyrir sér og reka gesti sem boðið hefur verið til þátttöku á dyr. Samanber Núpo- skáldið.

Sigurður Antonsson, 5.12.2012 kl. 22:07

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Margfalt fleiri ferðamenn heimsækja friðlönd þjóðgarðanna í Bandaríkjunum en útivistarsvæðin við stíflurnar.

Hoover-stíflan og lónið þar fyrir innan voru reist þegar Bandaríkjamenn vantaði rafmagn og áveitur til eigin nota, rétt eins og að hér á landi voru reistar um 25 stærri virkjanir, allt frá Elliðaánum og Soginu til virkjananna milli Búrfells og Vatnsfells og Blönduvirkjunar og þá vorum við komnir með tvöfalt meiri raforkuframleiðslu en við þurftum til eigin nota.  En nú vilja menn ólmir halda áfram hér og hætta ekki fyrr en við framleiðum tíu sinnum meira en við þurfum til eigin nota.

Bandaríkjamenn hættu við að reisa tvær risavirkjanir í Koloradóánni á stærð við Kárahnjúkavirkjun fyrir ofan Hoover-virkjunina af því að þeir sáu að ekki væri rétt að virkja áfram stanslaust eins og gert hefur verið hér á landi og á að halda áfram að gera. 

Ómar Ragnarsson, 5.12.2012 kl. 23:40

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Hvað með að virkja sjávarföllin? Er sú hugmynd ekki svara og umræðu verð?

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 6.12.2012 kl. 00:21

5 identicon

Anna Sigríður,

Vissulega er umræða um sjávarfallavirkjanir góðra gjalda verð.

Hvernig slíkar virkjanir falla inn í rekstur raforkukerfa er snúið, og tæknileg útfærsla þeirra vefst fyrir stórveldum á borð við Breta og Frakka. Sjávarföll eru þar þó mun öflugri en finnast hér við land.

Sá böggull fylgir einnig skammrifi, að tvisvar á sólarhring er orkuframleiðsla engin, þ.e. við fallaskifti.

Sjávarfallavirkjanir verða varla gildur kostur hér á landi í náinni framtíð.

Þau álitamál sem eru uppi varðandi virkjanakosti og orkuflutning í dag, virðast líka duga okkur ágætlega;)

Línux (IP-tala skráð) 6.12.2012 kl. 00:50

6 identicon

Sjávarfallavirkjanir...

-Eru algerlega óraunhæfar þegar trygg forgangsraforka er seld á 30$ /MWh.

Anna, -þú ættir að spyrja þig spurningarinnar; -er ég tilbúin til þess að greiða tífalt hærra raforkuverð en ég greiði í dag og fá fyrir það ótrygga raforku?

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 6.12.2012 kl. 11:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband