10.12.2012 | 20:06
Fossar, faldir allt árið.
Sérstæðar veðurfarslegar aðstæður ráða því að illfært sé að Svartafossi þessa dagana. Hins vegar hefur þöggun ráðið því í áratugi að fjölmargir fallegir og stórir fossar á Íslandi hafa verið faldir í raun fyrir fólki, enda hefði uppgötvun þeirra sem ferðamannastaða gert erfiðara að virkja þá.
Þetta hefur verið og er bagalegt því að með auknum ferðamannastraumi væri gott að dreifa umferðinni betur en gert hefur verið.
Töfrafoss eða Kringilsárfoss var stærsti fossinn í óbyggðunum norðan Vatnajökuls og vestan Snæfells.
Aðgengi að honum var lélegt sem og að þremur fossum fyrir neðan hann í gilinu "Stuðlagátt" sem fékk ekki það nafn fyrr en búið var að ákveða að fórna þessum þremur fossum og hinu fagra gili vegna Kárahnjúkavirkjunar.
Í efri hluta Þjórsár eru þrír stórir fossar, hver ólíkur hinum, Gljúfurleitarfoss, Dynkur og Hvanngilja/Kjálkaversfoss. Dynkur var að mínum dómi flottasti stórfoss Íslands, en Kvíslaveita tekur allt að 40% vatnsmagns þessara fossa í burtu og Dynkur fer verst út úr því og verður nánast að aumingja líkt og Samson hinn sterki þegar tekið var af honum hárið.
Ef einhver sómatilfinning bærðist með ráðamönnum Landsvirkjunar ættu þeir að bæta eins og kostur er fyrir þessi hervirki á tvennan hátt.
Í fyrsta lagi að bæta aðgengi að þeim og upplýsingagjöf.
En einnig að veita upplýsingar um það hve mikið vatn er í fossunum og skipuleggja það nógu vel fyrirfram að hleypa á þá fullu vatni tímabundið til þess að ferðafólk geti farið að þeim í fullum skrúða.
Fyrir ofan bæinn Skaftárdal Skaftártungu eru fimm fallegir fossar í Skaftá, sem eru algerlega óþekktir, en mynda ásamt sérstæðu kvíslaneti árinnar mjög fallegt og óvenjulegt svæði.
Ekkert hefur verið gert til að auka aðgengi að þó ekki væri nema 2-3 þessara fossa en það myndi kosta lítið fé. Fyrir bragðið kemst virkjunaraðilinn upp með það að ljúga því til í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum að engir fossar séu í ánni og leyna því hve sérstætt og fallegt hraunkvíslanet Skaftár er.
Og af þessum sökum verður auðveldara að stúta þessu svæði fyrir Búlandsvirkjun.
Fáir koma að Axlarfossi í Hólmsá og meira að segja rútubílstjóri, sem hafði verið í akstri um óbyggðaleiðir í áratugi, vissi ekki um þennan fallega stuðlabergsfoss þegar ég var þar á ferð í fyrra.
Brytalækir, þar fyrir ofan, eru líka nær öllum ókunnir. Á meðan svo er verður auðveldara að eyðileggja þessar náttúruperlur á sama tíma að vegna vaxandi ferðamannastraums er nauðsynlegt að fjölga möguleikum til náttúruskoðunar.
En auðvitað hagnast virkjanafíklarnir á því tvennu að tortíma þessum náttúruverðmætum í sem mestum friði og fækka jafnfram möguleikunum fyrir ferðaþjónustuna til að dreifa ferðamannastraumnum með þeim afleiðinginum að hægt sé að benda á ferðaþjónustuna sem sökudólg gagnvart náttúru Íslands.
Illfært að Svartafossi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Já Ómar, Dynkur, minnstu ekki á hann ógrátandi
Og sammála er ég um fegurðina inn á Skaftárdal og í henni Hólmsá.
Vil svo bæta hér við nafnlausum og földum fossum í Syðri Ófæru.
Guðríður Adda Ragnarsdóttir (IP-tala skráð) 10.12.2012 kl. 20:35
Þegar ætlunin var að sökkva Eyjabökkum tók kunningi minn til máls á stórum fundi Ferðamálaráðs) fyrir nafnbreytingu). Hann hélt því fram að afskaplega fáir legðu leið sína þangað og því væri lítill skaði þótt þeir hyrfu. Ég gæti eflaust talið upp tuttugu staði eða fleiri sem afar fáir þekkja, hvað þá að menn heimsækja og allir eru þeir einstök náttúruundur. Slíkir staðir eru verðmæti. Staðreyndin er sú að land vantar verðmiða. Væri hann til myndi viðhorfið gjörbreytast og excelskjölin líka ... Talan á verðmiðanum mun hins vegar aldrei byggjast á því hversu margir ferðamenn berja staðinn augum.
S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 10.12.2012 kl. 23:08
Góðar tillögur, Landsvirkjun gæti stuðlað að nýrri ferðamennsku með því að gera vegi að fossunum í Þjórsá. Meðfram Þjóðrsá gæti verið vísir að þjóðgarði fossanna. Samt ekki að gera þjóðveg alveg að fossunum. Það má alltaf ganga síðasta spölinn. Að ganga upp með Skógará, upp með Jökulsá í Fljótsdal og ám í Borgarfirði er og verður ævintýri fyrir þá er geta tekið þátt í dagsgöngu. Á Photo.is má sjá fossana.
Minnist þess hve þjóðgarðsverðir við Hoovervirkjuna lögðu mikla áherslu á verndunargildið. Rafmagnsframleiðslan var ekki aðalatriðið heldur höfðu þeir áhyggjur af að vatnsrennslið í Colorado-ánni minnkaði stöðugt. Hefur ekki hækkað í áratug. Las Vegas fær sinn skammt og áveitur verða stærri. Sýnir hve aðstæður geta breyst skjótt. Engin goðgá er að auka rennslið við fossana í Þjórsá yfir sumarmánuði þegar það er í hámarki. Það gæti aukið hróður Landsvirkjunnar.
Sigurður Antonsson, 10.12.2012 kl. 23:50
B.N. (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 00:25
Þið talið um að ekkert mál sé að gera vegi að fáséðum fossum. Á sama tíma er almenna vegakerfið í fjársvelti, bæði til viðhalds og nýframkvæmda.
Það ýrði slæmt fyrir íbúa landsins ef "friðunarfíklarnir" fengju að forgangsraða í vegamálum.
Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2012 kl. 08:33
Það virðist ekki vera málið að gera línuvegi.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 09:43
Nú er komin fram aftur hugmynd um veg norður fyrir Vatnajökul sem myndi stytta leiðina um 250 km. Það byði upp á möguleika?
GB (IP-tala skráð) 11.12.2012 kl. 10:06
Enn er talað eins og það væri einhver lúxus og útgjöld að setja fé í að bæta aðgengi að ferðamannastöðum en á hinn bóginn ávinningur af virkjanavegum.
Búið er með síbylju að koma því inn að einungis sé um "nýtingu" og tekjur að ræða af virkjunum en ekki af ferðamannasvæðunum og talað um nýtingu versus verndun í stað þess að tala annað hvort um virkjanir versus verndun eða enn betra: Orkunýting versus verndarnýting.
Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 16:52
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.