Enn ein stórkostleg og ókeypis auglýsing fyrir Ísland.

Mezzoforte, sykurmolarnir, Björk, Sigur Rós, Magni, Of Monsters and Men, CCP, - nokkur nöfn íslenskra listamanna og hugvitsmanna sem hafa gert garðinn frægan og verið stórkostleg og ókeypis auglýsing fyrir Ísland.

Öll góðir fulltrúar fyrir það sem margir hafa nefnt í háðstóni "eitthvað annað" þótt hægt sé að meta framlag þessara Íslendinga til meiri fjár og gjaldeyrisöflunar en sem svarar launum allra starfsmanna álvera á Íslandi.


mbl.is „Stórkostleg hljómsveit frá Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Benedikt V. Warén

Kapalverksmiðja á Seyðisfjörð......að gera eitthvað annað.....nei takk!!

Í marga mánuði hefur verið unnið að  undirbúningi á að starta kapalverksmiðju á Seyðisfirði.  Viðsvegar um land leita menn logandi ljósi að tækifærum í ýmsum greinum til að skapa störf.  Ekki vantar lýðskrumið í ráðamönnum þjóðarinnar þegar á að "leggja fé í rannsóknarvinnu", svo framarlega að sérfræðingastóðið sé í landnámi Ingólfs Arnarssonar.

Frétt í ruv.is segir ma:
"Á vegum atvinnuþróunarfélaga um land allt er unnið að ýmsum nýsköpunarverkefnum sem ætlað er að skapa störf. Styrkir eru veittir og hvetja á fólk til að leggja alla krafta sína í verkefni. Í fjögur ár hefur verið unnið að einu slíku verkefni á Seyðisfirði en þangað stóð til að flytja álkaplaverksmiðju frá Noregi og vinna álvíra frá álverinu í Reyðarfirði í háspennustrengi."

Enn fremur segir í fréttinni að:
"Norskir eigendur verksmiðjunnar vildu flýja háan launakostnað í heimalandinu og ætluðu taka þátt í að flytja verksmiðjuna til Íslands. Þeir voru tilbúnir að leggja til tæki, þekkingu, markaðshlutdeild og eigið fé í fyrirtækið; allt að fjórðungshlut."

Síðan er vitnað í Sigfinn Mikaelsson sem stýrði verkefninu:
"Hann segir alla útreikninga hafa sýnt fram á arðbærni verkefnisins. Byggðastofnun hafi litist vel á en skort fé og kallað eftir pólitískri ákvörðun. „En hún fékkst ekki samþykkt þessi pólitíska ákvörðun.“"

Þarna má sjá svart á hvítu að það "að gera eitthvað annað" er í besta falli nothæft til að drepa málum á dreif og í versta falli nýtt til þess að drepa endanlega niður allt frumkvæði og heilbrigða hugsun á landsbyggðinni.  Forræðishyggja stjórnvalda og ráðamanna þjóðarinnar nær nýjum hæðum og á starfsstöðvum þessarra manna ríður heimskan ekki við einteyming. 

Ríkkisstjórnin svarar ekki og ekki er betur vitað að leitað hafi verið til Framtakssjóðs Íslands, án árangurs.  Sá sjóður er þó ávallt tilbúinn að skoða verkefni í Reykjavík og nágrenni.  Í reglum sjóðsins segir:

"Markmið FSÍ um samfélagslega ábyrgð
8. Stjórn FSÍ og starfsmenn hans eru meðvitaðir um þá ábyrgð sem fylgir því að ráðstafa fjármunum hluthafa FSÍ, sem eru almannafé, og taka jafnframt tillit til samfélagslegrar ábyrgðar í rekstri fyrirtækja.  FSÍ tekur ekki þátt í fjárfestingum sem orka tvímælis út frá almennum siðferðisreglum."

Hafa stjórnarmenn FTS haft 8. grein að leiðarljósi?  Til að einfalda þeim mönnum vinnuna ætti auk þess að standa: "Heimilisföng fjárfestinga skulu einskorðast við póstnúmer 101 - 201".

Framtakssjóður var ekki til þegar verið var að virkja við Kárahnjúkana, en það voru lífeyrissjóðirnir hins vegar sem standa nú að Framtakssjóði.  Hver var þáttur þeirra í Kárahnjúkavirkjun?  Enginn minnir mig.  Kárahnjúkavirkjun malar nú gull.

Lífeyrissjóðirnir hafa hins vegar sópað upp gjaldþrota fyrirtækjum og redda þeim með því að eyða í  þau almannafé.  Það vefst ekki fyrir stjórnendum að makka á þann hátt, svo framarlega að þau fyrirtæki séu heimilisföst í áðurnefndu landnámi.

Það styður best við það sem ég skrifa, að Framtakssjóður treysti sér ekki til að eiga í þessari kapalverksmiðju á Seyðisfirði, sem þó er með góða arðsemisspá og ekki í samkeppni við aðra sambærilega á Íslandi, en tóku Húsasmiðjuna upp á arma sína 100%, sem er tæknilega gjaldþrota og í bullandi samkeppni við aðra í sama geira.

Er ekki orðið morgunljóst að Íslenskir lífeyrissjóðir eru í reddingum sunnanlands í nafni Framtakssjóðs.  Geta menn því ekki komið einu sinni út úr skúmaskotunum og til dyranna eins og þeir eru klæddir og breytt nafninu í Framtakssjóður Reykjavíkur.

Benedikt V. Warén, 11.12.2012 kl. 17:51

2 Smámynd: Benedikt V. Warén

Lagarfljótsormurinn......siglingar á Lagarfljóti...nei takk. 

Ferðamálasjóður krafðist nauðungarsölu á þriðja ári.  Heimilisfang sjóðsins 101 Reykjavík.  Þar sannaðist hið fornkveðja. 

"Heggur sá er hlífa skyldi".

Siglingastofnun gerir slíkar kröfur, að ekki er rekstrargrundvöllur fyrir rekstri, þrátt fyrir að skipið var samþykkt í ESB landi með þann björgunarbúnað, sem þá fylgdu skipinu, þá skyldi um borð á fyrsta ári, björgunarbátar fyrir 1.5 x leyfður hámarks farþegafjöldi farþega um borð.  Bátarnir þurftu auk heldur að vera með vistir og vatn til þriggja vikna og neyðarsendi.  Björgunarvesti og flekar voru um borð, björgunarbúnaður sem viðurkenndur var í Svíþjóð, en það gilti ekki hér. 

Tæknileg skemmdarverk af hendi Siglingastofnunar.

Viðurkenndar flotbryggjur voru keyptar frá Svíþjóð í gegn um íslenskan heildsala sem seldi samskonar flotbryggjur í íslenskar hafnir.  Fjárfestingafélög treystu sér ekki að lána í bryggjurnar vegna þess að þær voru úti á landi.  Virtist þá engu skipta þó þær kæmu um langan veg til landsins og hægt var að flytja þær hvert á land sem var, jafnvel koma þeim fyrir á Laugaveginum, þar sem verð á steinsteypu var hvað hæst á landinu á þeim tíma.

Fjárhagslegt skemmdarverk hjá lánastofnunum.

Benedikt V. Warén, 11.12.2012 kl. 18:16

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fyrirbrigðið "íslensk möppudýr" eru jafn sprelllifandi nú og þegar Vilmundur Gylfason kom fram með þetta frábæra heiti. Alltof mörg möppudýr fá það á heilann og ganga enn lengra í skrifræði og kröfum en erlendis í stað þess að fá undanþágur frá reglum, sem þarflausar eru hér á landi vegna annarra aðstæðna.

Möppudýrið víggirðir skrifstofu sína með því að hlaða upp reglugerðum í varnarveggi og vígi, myndað af möppum og reglugerðum, sem þjóna tvenns konar tilgangi:

1. Að sýna fram á hvað möppudýrið er afkastamikið í að búa til reglur og ganga í augun á öðrum möppudýrum.

2. Að gera yfirmanni/mönnum ómögulegt að hagga við möppudýrinu, vegna þess að regluverkin eru orðin svo mörg og flókin og möppurnar svo margar að yfirmaðurinn/mennirnir afhjúpa "vanþekkingu" sína með því að reyna að gera einhverjar athugasemdir.

Ómar Ragnarsson, 12.12.2012 kl. 01:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband