13.12.2012 | 12:32
Endilega að læra ekkert af aðdraganda Hrunsins.
Ein af niðurstöðum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var sú, að losað hefði verið um eftirlit með efnahagslífinu og fjármálakerfinu á ýmsan hátt til þess að auðvelda innreið þess hömluleysis sem setti hér allt á annan endann.
Nú rísa upp menn sem alls ekki mega heyra það nefnt að neitt megi læra af þessu, heldur skuli haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist.
Eitt atriði þess að minnka eftirlit og óhlutdræga upplýsingagjöf var að hóta þeim ríkisstofnunum, sem þóttu komast að óþægilegum niðurstöðum, að þær yrðu einfaldlega lagðar niður ef þær mökkuðu ekki rétt.
Þannig var Þjóðhagsstofnun einfaldlega lögð niður á þeim forsendum að greiningardeildir bankanna gætu annað hlutverki hennar. Eins og við mátti búast voru þessar greiningardeildir auðsveipir þjónar eigenda sinna, kyndurum græðgisbólunnar þegar á þurfti að halda og fegruðu ástandið aldrei meira en þegar það var verst.
Skipulagsstofnun var hótað eftir úrskurð hennar um Káranhnjúkavirkjun með ummælum um að ekki ætti að sætta sig við það að "kontóristar úti í bæ" aðhefðust slíkt.
Í næsta úrskurði stofnunarinnar sást greinilega að hótunin hreif. Þá úrskurðaði stofnunin að það væri í góðu lagi og samræmi við sjálfbæra þróun að miðlunarlón Villinganesvirkjunar fylltist upp af auri og yrði ónýtt á 30 árum!
Það var ekki að ástæðulausu að stjórnlagaráð tók til greina rannsóknarskýrslu Alþingis og áherslur þjóðfundarins með því að stuðla að því í stjórnarskrárákvæði að vandað væri til verka varðandi afskipti Alþingis af nauðsynlegum eftirlitsstofnunum og verkefnum þeirra.
En nú rísa menn upp á afturfæturna vegna þeirrar ósvinnu að í nýrri stjórnarskrá megi breyta nokkru því sem getur haggað við því valdi sem óprúttnir valdhafar á sviði stjórnmála og efnahagslífs hafa beitt með þekktum afleiðingum.
Og eins og svo oft gerist hér á landi, er aðalatriði greinarinnar, sem þessi pistill er tengdur við, ekki efni 97. greinarinnar sem sagt er tilefni greinarinnar, heldur hverjir sömdu hana.
Greinarhöfundur tekur mig sem dæmi um það hve óhæft fólk hefði verið í stjórnlagaráði, fólk sem hefði með 97. greininni sýnt skort sinn á lagaþekkingu. Merkilegt að Einar skuli nú fyrst, meira en 16 mánuðum eftir að frumvarpið kom fram, upplýsa um að 97. greinin sé ótækt bull.
Og ef svo er, má furðu gegna að allir þeir lögspekingar sem lásu frumvarpið yfir skyldu ekki hafa séð það fyrir löngu.
Ekki er að spyrja að stéttahrokanum, sem birtist í þessari Morgunblaðsgrein og er í raun ekki aðeins beint gegn fulltrúum í stjórnlagaráði, heldur líka gegn þeim Alþingismönnum sem ekki eru útskrifaðir lögfræðingar, og voga sér samt að setja þjóðinni lög án þess að vera "innvígðir og innmúraðir".
Frumvarp um stjórnarskrá Íslands | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Grein Gunnars Helga Kristinssonar er skömm fyrir Háskóla Íslands.
Pólitískur rembingur margra meðlima fakulitets skólans gengur allt of langt. Jafnvel þótt menn hafi fengið stöðuna út á flokksskírteini, eiga þeir að sjá sóma sinn í því að sýna visst hlutleysi í há pólitískum málum.
Sjálfstæðisflokkurinn, a.k.a. Íhaldið,er á góðri leið með að gera Ísland að “Dorftrottel” Evrópu.
Þetta er mjög alvarlegt mál.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 13:39
Það er sorglegt að verða vitni að því hvernig ýmsir lögfræðingar fara hamförum gegn hugmyndum að nýrri stjórnarskrá á þeirri forsendu að það hafi ekki verið lögfræðingar sem sömdu plaggið. Vér einir vitum - heilkennið hrjáir slíka menn, ásamt tilheyrandi hroka. Þeir eru líka búnir að skipa sér í hóp efristéttarmanna og þeirra sem hafa vald og áhrif og vilja því verja kerfi sem tryggir núverandi yfirstétt áframhaldandi tök á samfélaginu. Íslenskir lögfræðingar eru margir afbragðsfólk en í þeirra hópi eru líka skelfilega margir lögtæknifræðinga sem sérhæfa sig í þrætubókarlistinni og spá oft minna í tilgang með lögum en það sem stendur í þeim. Nú sitjum við uppi með "girðingaleysi" í fjármálakerfinu svo segja má að gráu svæðin hafi stækkað gríðarlega og því endalaust hægt að þrasa um hvað má og hvað er bannað. Hvorki er skeytt um skömm eða heiður, siðferði er aukaatriði og þrætubókarlögvitringarnir njóta sín sem aldrei fyrr. Þá langar því kannski ekkert í skýrari línur.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 13:39
Var hrun fjármálakerfis veraldarinnar stjórnarskrá Íslands að kenna og á að koma í veg fyrir annað hrun með nýrri stjórnarskrá?
"Skipulagsstofnun var hótað eftir úrskurð hennar um Káranhnjúkavirkjun...."
Athugasemdum Skipulagsstofnunar í 20 liðum var sinnt með þeim hætti að ekki var lengur grundvöllur fyrir að gefa ekki leyfi fyrir framkvæmdunum.
21. maí 2003: Héraðsdómur Reykjavíkur sýknar íslenska ríkið og Landsvirkjun af kröfum Atla Gíslasonar, Guðmundar Páls Ólafssonar, Náttúruverndarsamtaka Íslands og Ólafs S. Andréssonar um að úrskurður umhverfisráðherra frá 20. desember 2001 skuli dæmdur ómerkur. Ógildingarkröfunni hafnað með afgerandi hætti.
23. janúar 2004: Hæstiréttur hafnar með afgerandi hætti kröfu um að úrskurður umhverfisráðherra, frá 20. desember 2001, verði ógiltur. Hæstiréttur staðfestir þar með dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 21. maí 2003.
Gunnar Th. Gunnarsson, 13.12.2012 kl. 13:50
Andstaðan við breytingar á stjórnarskránni er eins og vel skipulagður her. Napóleon hefði verið stoltur af uppstillingunni. Fyrst er att fram liðinu á þingi og þumbast gegn framrás lýðræðisaflanna. Síðan er kallað til riddaraliðið í formi Hæstarétts og nú skyldi orrustan unnin. En liðsmenn lýðræðisins voru fljótir að endurskipuleggja sig (stjórnlagaráð í stað þings) og þá var aftur kallað út þinglið og reynt að tefja framrásina. Þegar það dugar lítt er varalið kallað út úr háskólunum og stóru fallbyssurnar dregnar fram. Næst verður otað fram málaliðaflokkum sem munu reyna árásir úr launsátri.
Hjálmtýr V Heiðdal, 13.12.2012 kl. 13:51
Og kemur svo ekki greyið hann Hannes Hólmsteinn askvaðandi og skrifar:
“Allt rétt hjá Gunnari Helga”.
“Banality” er orðið sem kemur upp í huga manns við lestur skrifa þessara prófessora við HÍ.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 14:33
Losað um eftirlit.... Þjóðhagssofnun lögð niður.... Er eitthvað í nýrri stjórnarskrá sem kæmi í veg fyri slíkt?
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 13.12.2012 kl. 14:59
Það er alltaf að koma betur og betur í ljós að allskonar sprenglærðir kverúlantar eru að verða þjóðarmein á Íslandi. Ekkert er svo einfalt að þessir jeppar geti ekki gert úr því stórvandamál. Og af því að þú, Ómar minntist á greiningardeildir bankanna: Hvernig getur staðið á því að enn eru forsvarsmenn þeirra kallaðir til umsagna og álitsgjafar um ýmis mál. Eftir öll þau ósannindi sem þetta fólk bar á borð fyrir landslýð, viljandi eða vegna heimsku, get ég ekki ýmindað mér að margir taki mark á því sem þeir segja.
Þórir Kjartansson, 13.12.2012 kl. 15:31
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.