15.12.2012 | 14:20
Betri bílar = færri framleiddir bílar?
Samkeppnin er hörð á bílamarkaði heimsins. Árlega gefur þýska bílatímaritið Auto motor und sport út yfirlit yfir þá mismunandi gerðir bíla, sem framleiddir eru í heiminum, og tegundirnar eru núna orðnar á fjórða þúsund.
Samkeppnin beinist líka að því að bílar endist sem lengst, samanber sjö ára ábyrgð á Kia-bílum, og að öðru jöfnu leiðir það til betri endingar og þar með minni sölu á nýjum bílum.
Þegar litið er yfir öll þessi býsn af bílgerðum vaknar spurningin um þann eilífa hagvöxt sem þarf að birtast í því að framleiða sífellt fleiri bíla og að æ fjölbreyttara tagi. Er hinn eilífi vöxtur mögulegur og er það ekki varasamt að gera vöxtinn að slíku meginatriði að engin úrræði séu skoðuð varðandi viðbrögð við því að vöxturinn hætti?
Viðskiptavinirnir eru líka harður húsbóndi og er Danmörk gott dæmi um það, en þar er afar hörð samkeppni í flokki minnstu og ódýrustu bílanna.
Síðustu árin hefur mest seldi bíll í Danmörku ævinlega verið nýjasta útspilið. Í hitteðfyrra var það Suzuki Alto, síðan kom Chevrolet Spark og velti honum úr sessi og nú eru það þríburarnir frá Volkswagen samsteypunni, sem tróna á toppnum.
Þetta þýðir að þeir framleiðendur sem ekki hafa það allra nýjasta í höndunum geta átt það á hættu að tapa slagnum og þar með fjármunum.
Í kringum 1960 voru Bandaríkjamenn komnir á það stig að framleiða bíla, sem ekki var gert ráð fyrir að entust meira en 2-3 ár og má nefna Ford Falcon sem dæmi.
Hann var afar einfaldur og ódýr og gat þess vegna fallið undir þennan flokk.
Þetta dugði sæmilega um sinn en varð til þess að gæðum hrakaði, þannig að innreið japanskra og evrópskra bíla, sem entust betur, varð auðveldari fyrir bragðið.
Á okkar tíð væri það alveg vonlaust að framleiða bíla sem ekki entust eða væru með háa bilanatíðni.
Spurningin er því hvort bílaframleiðsla sé að komast á nokkur konar endastöð hvað varðar kröfuna um hinn óendanlega vöxt framleiðslu og úrvals.
Í bil má undanskilja Indland og Kína en hve lengi?
Minnsta bílasala í Evrópu í 19 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.