Ekki einu sinni gott fyrir sjálfviljuga.

Frásögn Hildar Loftsdóttur af reynslunni af því að hafa verið hent 100 ár aftur í tímann er athyglisverð.

Þetta var svona í lagi tilbreyting í fyrstu en varð síðan illbærilegt.

Til eru dæmi um Íslendinga sem hafa gert þetta, svo sem Gísla á Uppsölum, sem þó er ekki alveg marktækur vegna einveru sinnar, en fyrir meira en 100 árum var það eins óvanalegt og það er í dag.

Hins vegar voru bræðurnir á Guðmundarstöðum í Vopnafirði dæmi um menn sem sjálfviljugir fóru næstum öld aftur í tímann, neituðu sér um rafmagn, nútíma tækni við búskap og bjuggu í gömlu bæ, sem var að miklu leyti torfbær.

Eldri bróðirinn, Stefán, hafði forystu um þetta uppátæki, sem varaði alla ævi þeirra auk fóstursystur þeirra, sem fórnaði ævi sinni fyrir þetta.

Stefán hafði verið settur á vegum hreppsins til mennta í M.A. eins og tíðkaðist á hans tíð um gáfaða og efnilega unglinga í Vopnafirði. En Stefán lenti í vandræðum, ástarsorg og lauk aldrei stúdentsprófinu.

Bugaður af skömm dró hann sig og þau Sighvat og Jóhönnu út úr nútímanum og setti klukkuna á 1910 með mynd af konungi Íslendinga og Dana, Friðriki  8, uppi á veggnum og annað eftir því.

Notaði raunar úrelta ljái frá öldinni á undan, tók aldrei lán né sléttaði tún. En það var samt fylgst vel með tímanum á bænum í gegnum rafhlöðudrifin sjónvarpstæki og útvarpstæki.

Ég gerði um þetta þátt 1976 sem er meðal þeirra þátta sem nú er að fá í nýrri úrvalsútgáfu af Stiklum, þar sem fá má í einu fjögurra diska albúmi 18 af 39 þáttum frá öllum landshornum.

Einstaka atriði í lífinu á Guðmundarstöðum voru skemmtileg og áhyggjuleysið af því að skulda aldrei neinum neitt var jákvætt.

En að flestu öðru leyti voru örlög og lif þessa fólks harmleikur, einkum Jóhönnu, og sýnir það, að algert afturhvarf til fortíðar er ekki gæfulegt þótt sitthvað megi laga í nútímalífi til að skafa af því helstu vankanta.


mbl.is Hent 100 ár aftur í tímann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert rafmagn var komið í Hlíð í Skíðadal þegar ég kom þangað fyrst og ekki kannast ég við að það hafi verið "illbærilegt" fyrir nokkurn mann, enda þótt betra hafi þótt að hafa rafmagn en nota olíulampa og elda á gasi.

Því síður að ég sé orðinn aldargamall, en móðurafi minn lifði öldum saman, fæddist í torfkofa í Svarfaðardal árið 1899 og dó árið 2000, en þá fór hann í fyrsta skipti á sjúkrahús.

Og ekki þótti bróður mínum "illbærilegt" að vera í sveit á Guðmundarstöðum en hann sést snúa heyi í þessum Stikluþætti.

Þorsteinn Briem, 17.12.2012 kl. 15:03

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Já, kannski hef ég tekið of sterkt til orða. En bróðir þinn var í sveit á Guðmundarstöðum á sumrin en ekki veturna.

Líf Jóhönnu get ég hins vegar ekki séð að hafi verið gott. Þegar ég spurði hana hvort hún færi nokkurn tíma af bæ var svarið neikvætt. Ég spurði hvað væri það skemmtilegasta sem hún gæti hugsað sér.

"Það er að raka úti á túninu í góðu veðri" svaraði hún.

Veturinn eftir kom ég að Guðmundarstöðum og sá hrífu standa upp við torfvegginn, sem hafði staðið þar á sama stað sumarið á undan og spurði Stefán hvaða hrífa þetta væri og af hverju hún væri þarna enn á sama stað.

"Jóhanna á þessa hrifu", svaraði Stefán, "og við snertum ekkert sem Jóhanna á."

"Notaði hún hana ekkert í fyrrasumar?" spurði ég.

"Nei, hún hefur ekki komið út á tún í mörg ár" svaraði Stefán.

Ég á erfitt með að sjá bærileikann í tilveru Jóhönnu, sem stritaði frá morgni til kvölds án nokkurra frídaga við sín erfiðu húsverk, án nokkurra nútíma áhalda, reyna að halda bænum hreinum, nudda við fataþvott og sauma og standa í raun undir lífi fólksins á bænum og gat ekki einu sinni veitt sér þá einföldu og einu ánægju í lífinu að komast út á tún til að raka með hrífunni sinni.  

Ómar Ragnarsson, 18.12.2012 kl. 00:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband