Frábær bíll, en "jepp"-lingur hæpið heiti.

Gleðileg jól!

Það er hátíðlegt blíðuveður á suðvestanverðu landinu á þessum fagra jóladegi, þótt jólalegra hefði kannski verið að jörö væri hvít.

En búist er við hríðarveðri víðast á landinu seinna í vikunni og þá getur verið gott að vera á fjórdrifnum bíl.

Í tengdri frétt mbl.is er greint frá vali Total 4x4 Magizine á besta fjórdrifna bílnum.  

 Honda CR-V á vafalítið skilið að vera valinn besti fjórdrifi billinn, enda afar haganlega hannaður. hljóðlátur, þægilegur og traustur bíll.

Hann er einn af sífjölgandi gerða af bílum, sem kallaðir eru "jepp"lingar en er þó hæpið að orðhlutinn "jepp" í orðinu jepplingur eigi við hvað varðar marga þessara bíla, svo lágt er orðið undir þessa bíla á síðustu árum.

Með tímanum hefur það ráðið miklu um hönnun þeirra, að örfá prósent eigendanna beita þeim nokkurn tíma á torfærum eða ófullkomnum vegum eða slóðum og útlitið að miklu leyti stöðu- eða tískutákn auk þess að fjórdrifið kemur sér vel í hálku.

Athyglisvert er hve margir af þessum nýju bílum eru boðnir með framdrifi eingöngu, þannig að salan á framdrifnum bílum af sumum gerðunum, eins og Skoda Yeti og Nissan Juke, er mun meiri en á fjórdrifnum bílum af sömu gerð.

Þótt á pappírnum sé hægt að segja að 17 til 18 sentimetrar séu undir lægsta punkt á næsta flötum undirvagni, síga þessir bílar niður þegar þeir eru hlaðnir, og þá verður veghæðin allt niður í 12-13 sentimetrar og torfærueiginleikarnir orðnir jafnvel minni en á óhlöðnum venjulegum fólksbílum.

IMG_5907Myndin, sem hér sést, er tekin í kvikmyndtökuferðalagi vegna myndarinnar "Akstur í óbyggðum" inn í Innstadal í sunnanverðum Hengli. Þar sést þegar grannt er skoðað, að nýjasti fjórdrifsbílinn er með minni veghæð en hinir bílarnir og gildir svipað um marga af nýjustu "jepp"lingunum.

Þetta sést betur með því að stækka myndina með því að smella í tvígang.

Þetta þarf fólk að taka með í reikninginn þegar það velur sér bíla en jafnframt má benda á, að sumir fjölfarnir vegaslóðar á Íslandi, eins og til dæmis Landmannaleið, eru færar öllum bílum, ef ekið er á þeim með lagni.


mbl.is Honda CR-V besti fjórdrifni bíllinn 2012
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hvað þýðir "fjórdrifinn"?

Ég skil vel fjórhjóladrifinn, skýrt og gegnsætt auðskilið orð.

En - "fjórdrifinn"?

Þórhallur Jósepsson (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 13:42

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Heyrði einu sinni einn af yfirmönnum Mitsubishi tala um þeirra fjórhjóladrifnu bíla. Hann staðhæfði að 95% þeirra væri aldrei ekið viljandi út fyrir alfaraleið. Hygg það sé nokkuð rétt áætlað. Hitti einu sinni á leið í Tindfjöll mann á Dodge Durango sem kunni ekki að setja þann trölljeppa í framdrifið og bað mig að hjálpa sér. Ég var „bara“ á Honda CR-V sem stóð sig fullvel í þeim jeppaleik, man ekki að ég ræki hann nokkru sinni niður. 

Sigurður Hreiðar, 25.12.2012 kl. 14:53

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Elsta gerðin af CR-V var ekki eins lágur og næsta kynslóð, sem var með bensíntank, sem var hræðilega lágur, þannig að aftan frá var eins og bíllinn væri með "kúkinn í annarri skálminni", - afsakið orðbragðið.

Orðið "fjórdrif" er notað í grein mbl.is og er styttra en fjórhjóladrif. Líst best á heitin "aldrif" og "aldrifsbíll" sem þýðingu á "allwheel-drive".

Ómar Ragnarsson, 25.12.2012 kl. 15:53

4 identicon

Illa trúi ég því að Þórhallur Jósepsson hafi ekki skilið orðið „fjórdrifinn“, en kannski fellur það honum ekki.  Um smekk er ekki hægt að deila.  En að orð þurfi að vera gegnsæ til að vera nothæf er fremur vafasamt.  Hvað er „gegnsætt“ orð?  Hvernig er t.d. orðið „spegill“ gegnsætt? Eða „köttur“?  Eða „darga“?

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 17:48

5 identicon

Jú, Þorvaldur, rétt er að ég veit vel við hvað er átt með fjórdrifi. Það er líka rétt hjá þér að mér fellur ekki þetta orð, sem ég held að sé til komið fyrir eitthvað hugsunarleysi.

Eitt sinn var nóg að tala um bíla með framdrifi. Þeir voru þá með drifi að framan, auk afturdrifsins sem var hefðbundið. Stundum þurfti að hafa meira við, sérstaklega ef bílar voru með fleiri en tvær hásingar, þá var talað um drif á öllum, jafnvel drif á öllum hjólum!

Svo fór það að verða algengara að bílar hefðu bara framdrif. Þá kom hinn fjórhjóladrifni Subaru og gerði byltingu. Þá kom hugtakið 4WD til sögunnar og svo fóru menn að auka fjölbreytnina í því mað því að auðkenna bíla (aðallega amersíska minnir mig) sem All Wheel Drive, eða Drif á Öllum ekki satt? En, hér fóru einhverjir að tala um aldrif í þessu samhengi, ég hef aldrei reyndar skilið hvers vegna, fyrirgefðu Ómar.

Sumt við bíla er aldeilis órökrétt í málinu, annað fullkomlega rökrétt. Fjórhjóladrif er fullkomlega rökrétt, fjórdrif er hvað? Fjögur drif? Sumt er í málvitundinni alveg rökrétt en stenst samt engar málfræðikröfur. Einu sinni, fyrir sirka 20 árum, reyndi Mogginn að koma réttri málfræði í dyrafjölda bíla og fór að tala um fernra og tvennra dyra bíla. Sú tilraun dó drottni sínum, enda höfðu Íslendingar þá ævinlega rætt um fjögra eða tveggja dyra bíla, allt frá því bílar fengu dyr.

Önnur tilraun til séríslensku um bíla höktir enn fyrir þrákelkni Moggans, Finnbogi heitinn Eyjólfsson reyndi að íslenska helstu grunngerðir fólksbíla sem á útlensku (alþjóðsku?) hétu t.d. sedan og station, með því að kalla þær stallbak og langbak. Ég hef aldrei heyrt þetta notað í máli manna.

Ég held að tilraunir, eins og fjórdrifið (enn er Mogginn á ferð), til að breyta málinu ofanfrá dugi ekki og lifi ekki. Það sem almenningur notar lifir. 

Þórhallur Jósepsson (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 20:58

6 identicon

Ef ekki dugir að „breyta málinu ofanfrá“ verðum við að varpa ótrúlega mörgum orðum fyrir róða; orðum sem einmitt komu í málið „ofanfrá“.  Þar má til taka þyrla, þota, blöndungur, landhelgi, veira, sporbaugur, ljósvaki .... (og nú gæti ég haldið áfram ansi lengi).  Öll eiga þessi orð, og ótalmörg önnur, það sameiginlegt að einhverjum datt þau fyrstum í hug og kom þeim á framfæri.  Þeim var tekið opnum örmum og urðu að alþjóðareign.  Önnur urðu ekki svo lánsöm, svosem flatbaka (sem ekki vantar þó „gagnsæið“) og granastökk (sem ég bjó til). 

Það er misskilningur að ágæti orðs felist í uppruna þess og að orð sé hótinu verra ef það kemur úr smiðju Moggamanna en einhversstaðar annarsstaðar að.  Ég held reyndar að „fjórdrif“ sé prýðilegt orð og ekki sakar að það er mun gagnsærra en t.d. „köttur“.  Svo skulum við sjá hvort það nær fótfestu í málinu og því ræður hvorugur okkar, jafnvel þótt við hefðum óbrigðulan smekk.

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 25.12.2012 kl. 21:43

7 identicon

Er ekki "aldrif" komið til eftir að fjórhjóladrifnir bílar urðu sítengdir í fjórhjóladrifinu og þá væntanlega með einhversskonar mismunadrif mill fram og aftur drifrásar?

Einfaldari fjórhjóladrifsbílar eru t.d. eins og Mússó sem ég átti á sínum tíma (bifvélavirkjanum mínum til mikillar hrellingar fyrir mína hönd) afturdrifinn, en hægt að tengja í framdrif svona þegar á þufti að halda og maður nenti út til að tengja driflokurnar. Lötum bílstjórum með litla jeppadellu (eins og mér) hentar ágætlega "aldrifsbíll" eins og Jeep Cherokee þ.e. ef hann hefði nú ekki tekið upp á þeim leiða ósið að spitta sig sjálfur í tíma og ótíma en það er auðvitað önnur saga.

  Annars vil ég nota tækifærið Ómar og þakka þér fyrir ágætt blogg á árinu. Ég vil ganga svo langt að útnefna þig besta bloggarann.   Enginn er fullkominn enda ekki um það spurt.  En frjóleiki hugsunarinnar og fjölbreytileiki í bloggi verður manni oft til ánægu við lesturinn, ekki spillir fyrir dass af hugsjónaeldi hvað varðar náttúruverndina.    Svo má líka með tilvísun í Gísla frá Uppsölum nefna að hin sanna gleði felst í uppbyggilegri umræðu en sú hin falska í neikvæðni og niðurrifi sem er hverfandi þáttur í þínum pistlum.  

Þess óska að ei rætist spár

um ótíð og hverskonar fár

en gaman ómælt

gott og farsælt

gefist oss komandi ár

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 13:49

8 identicon

ps.  Fyrir mér komst hið ógagnsæja orð "dass" ("Dash") inn í tungumálið þegar Magnús (gleðigjafinn Laddi) sagði frá gömlu merinni sinni hvað hún hefði verið góð með dass af coriander. :-)

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 26.12.2012 kl. 13:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband