Minni hús og meiri gleði?

Sú var tíð að íþróttahús á Íslandi máttu ekki vera stærri en svo að hægt væri að iðka þar glímu eða í mesta lagi körfubolta.

Kannski var það ein ástæða þess að körfubolti ruddi sér snemma til rúms úti á landi og að bæjarfélög eins og Stykkishólmur og Sauðárkrókur eignuðust snemma góða körfuboltahefð. Svipað virðist nú vera að gerast í Afríku.  

Körfubolti og glíma, það hentaði vel fyrir íslensku íþróttahúsin, enda var þáverandi íþróttafulltrúi ríkisins, Þorsteinn Einarsson, glímumaður góður.

Ég var þá ungur og fannst Þorsteinn oft vera dálítið gamaldags og forneskjulegur í tali og hugsunum þótt því væri ekki að neita að hann talaði afar fallegt mál og flutti það vel.

En einu sinni kom hann mér á óvart. Það var þegar hér reið yfir svo mikil trimm-alda að meira að segja útvarpsráð vildi láta víkja burtu svonefndum "keppnisíþróttum" af því að þær væru svo siðlausar.

Áttu íþróttaþættir helst að sýna fólk í skokki og svonefndum "almenningsíþróttum", rétt eins og knattspyrna, vinsælasta íþróttagrein heims, væri ekki almenningsíþrótt.

Á fundi einum fjölmennum þar sem umræðan stóð um þetta fór svo, að Þorsteini fannst nóg komið, því að hann kvaddi sér hljóðs og sagði hátt og skorinort nokkurn veginn þetta:

"Gott fólk. Nú skulum við staldra við og líta til fornmanna og íþrótta þeirra, því að eftir því, sem þeir gerðu, eigum við að fara, læra af þeim og hafa til fyrirmyndar."

Ég fölnaði og hélt að nú myndi steinrunnin forneskja hellast yfir okkur. En Þorsteinn kom mér á óvart þegar hann hélt áfram:

"Lesið þið fornsögurnar og íhugið hvað íþróttir fornmanna áttu sameiginlegt, samanber ljóðið: Tafl em ek ör at efla / íþróttir kann ek níu.. og svo framvegis? Ég skal segja ykkur hvað allar þessar níu íþróttir áttu sameiginlegt: Það var leikurinn, það var leikurinn, ánægjan við að takast á og etja kappi. Ég þekki engin dæmi þess úr fornsögum að greint hafi verið frá skokki manna eins og Gunnars á Hlíðarenda, Grettis eða Gísla Súrssonar um holt og móa. Nei, þar, sem þeir voru við íþróttir og létu að sér kveða, stóðu yfir leikar. "

Það sló þögn á samkomuna og féll tal manna niður.

Á tíma Þorsteins voru fjárráð knöpp og þjóðin á byrjunarstigi varðandi húsakost fyrír íþróttir. Brýnna var að minni hús risu á sem flestum stöðum en fá stór hús á fáum stöðum að mati Þorsteins.

Sonur hans var arkitekt að nafni Jes og var eðlilegt að hann legði sig eftir að teikna húsin sem voru föður hans svo mikilvæg í hugsjónabaráttu hans fyrir eflingu íþrótta sem víðast um allt land.

Sumum fannst grunsamlegt hvað Jes teiknaði mörg íþróttahús og var gantast með það að faðir hans ætti þátt í því með því að gera skilyrði um hvort tveggja, hvort hús yrði reist og hver teiknaði það, með því að svara málaleitunum um íþróttahús svona: "Það er annaðhvort yes (Jes) or no."

En mér þótti alltaf vænt um þennan vörpulega og glæsilega mann, sem hafði hugsanlega verið afreksmaður á tímum Gunnars á Hlíðarenda, og ég skildi hann vel. Og atvikið þegar hann tók af skarið á fundinum stóra var efirminnilegt.  

Þá minnti hann ekki aðeins á Gunnar á Hlíðarenda heldur líka á Snorra goða og Einar Þveræing.


mbl.is Afríka framtíð körfuboltans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Vinstrimenn hafa sumir hverjir litið illu auga á keppnisíþróttir. Þeir vilja nefnilega að allir séu jafnir. Þeim er illa við að gera meira en lágmarkskröfur kveða á um og þess vegna vilja þeir helst vinna hjá ríkinu. Þeir telja jafnframt að best sé að ríkið sjái um sem flest í atvinnumálum. Ríkisvæðing er þeirra ær og kýr en einkavæðing er djöfulleg. Þar ríkir samkeppni og pressa að gera sitt besta og jafnvel aðeins betur ef þarf. Það er ekki í eðli þeirra.

Gunnar Th. Gunnarsson, 27.12.2012 kl. 04:42

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ég hélt að keppnisharkan í íþróttum hefði hvergi verið meiri en í kommúnistaríkjunum, til að mynda í Austur-Evrópu, Sovétríkjunum og Kína.

Og ekki vantaði nú keppnina á öllum sviðum á milli Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

En Ómar Ragnarsson hefur hvorki keppt í hlaupum né rallýi, enda er hann ekki kommúnisti.

Jafnaðarmenn um allan heim hafa að sjálfsögðu aldrei keppt á nokkru sviði við nokkurn mann, hvorki í íþróttum né öðru, og þeir hafa allir þegið laun frá ríkinu og sveitarfélögunum.

Þar má til dæmis nefna Davíð Oddsson og Hannes Hólmstein Gissurarson.

Þorsteinn Briem, 27.12.2012 kl. 06:48

3 identicon

Hef aldrei kunnað að meta íþróttir sem byggjast á slagsmálum; glíma, box, handbolti, american football etc.

Vil sjá menn takast á við rúm og tíma, við tímarúmið og þyngdarkraftinn; frjálsar, skíðaíþróttin, sund etc, etc, etc.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 09:38

4 identicon

Gunnar!  Þú hefur sem sagt aldrei heyrt talað um Aleksei Grigorievítsj Stakhanoff? 

Þorvaldur S (IP-tala skráð) 27.12.2012 kl. 18:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband