Það var hlegið að Japönum, - en ekki lengi.

Japan var gjörsigrað land 1945 og stærstu borgir landsins í enn meiri rústum en borgir Þýskalands.

Báðar þjóðirnar voru á botni niðurlægingarinnar. Framundan var talin vera yfirburðaöld Bandaríkjanna á öllum sviðum.

Um 1950 stóð bandaríski bílaframleiðandinn Preston Tucker frammi fyrir dómstóli. Hann hafði dirfst að setja af stað framleiðslu á stórkostlegum bíl, hlöðnum tækninýjungum, en tafist og auk þess fengið á sig málaferli og þingrannsókn, sem runnin voru undan rifjum stóru bílaframleiðendanna og þingmanna ríkja, þar sem bandarísk bílaframleiðsla var hvað öflugust.

Tucker tókst að verjast en það var búið að stöðva hann. ´

Í lok réttarhaldanna sagði Tucker að nú væri illa komið fyrir landi frelsis og réttlætis og ef svo færi fram sem horfði myndu bílaframleiðendur Japana og Þjóðverja standa uppi með pálmann í höndunum í framtíðinni.

Í dómssalnum glumdi við almennur hlátur, svo fráleit þótti þessi fullyrðing, enda hinar sigruðu þjóðir enn í eymd og volæði.

Áratug síðar hafði "þýska efnahagsundrið" fætt af sér Volkswagen sem varð vinsælasti bíll allra tíma og 30 árum síðar voru Japanir á hraðferð að bruna fram úr Bandaríkjamönnum í bílaframleiðslu og í áttina að því að eiga mest seldu bílgerðirnar í Bandaríkjunum sjálfum.

Enginn skyldi vanmeta Kínverja.

Fyrir 25 árum þótti það fjarstæða að Suður-Kórea gæti orðið eitt af helstu bílaframleiðslulöndum heims á grundvelli gríðarlegs útflutnings.

Kína er þegar komið í allra fremstu röð í bílaframleiðslu á grundvelli fjölmenns heimamarkaðar, en bíðum bara og sjáum hvað gerist þegar guli risinn færir út kvíarnar á heimsmarkaðnum þar sem þeir eiga enn eftir að hasla sér völl.

Kínverjar og Taivanar hafa þegar brotist til forystu á vélhjólamarkaðnum og gætu alveg eins gert svipað á bílamarkaðnum.  


mbl.is Qoros GQ3 gegn Focus og Golf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

Þeir þrír stóru voru undir verndarvæng ríkisins. Þannig þurftu þeir ekkert að keppa við útlendingana, bara hvern annan.

Það virðist alltaf enda eins.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.12.2012 kl. 17:27

2 identicon

Ef þú meinar "Bjölluna" þá var sú komin á bláprent og götuna 1938. Fór svo í framleiðslu fljótlega eftir stríð eftir skringileg kynni af breska bjúrókratíinu og hernum.
Það var því ekki endilega neitt þýskt efnahagsundur sem fæddi af sér VolksWagen. Og Japanir, - þeir voru jú líka á réttum stað og tíma með sparneytna bíla þegar olíuverðið hoppaði um eða uppúr 1973, - ekki rétt?

Jón Logi (IP-tala skráð) 28.12.2012 kl. 19:24

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég átti við það að uppgangur Bjöllunnar og þýska efnahagsundrið gerðust á sama tíma, en ekki var þar með sagt að orsakasamband væri á milli þessara tveggja fyrirbæra að öðru leyti en því að milljónir Þjóðverja gátu keypt bílinn og aðra þýska bíla, sem ekki hefðu selst svona vel heima ef landið hefði haldið áfram að vera í öskustó.

Ómar Ragnarsson, 29.12.2012 kl. 01:06

4 identicon

Hefði "bjallan" selst eins vel, ef Þýskaland hefði verið vel stætt ríki (eins og USA) en einmitt ekki hálfgerð öskustó???
Og Japanir, - hefð þeirra fyrir léttleika nær aftur í aldir. Léttleikinn kom sér vel þegar bensínverðið rauk upp, - þeir voru á réttum tíma á meðan dauðþyrstar stór-blikkbeljur Bandaríkjanna voru það ekki.
Í dag er þetta meira á svipuðum nótum.

Jón Logi (IP-tala skráð) 29.12.2012 kl. 10:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband