Óviðjafnanlegur íþróttaviðburður fyrir hálfri öld.

Mikið væri nú gaman ef til væru lifandi myndir af mörgum af mestu íþróttaafrekum fyrri tíma hér á landi.

Einn þeirra gerðist fyrir réttri hálfri öld í litla ÍR-húsinu sem stóð á horni Túngötu og Hofsvallagötu.

Keppnin í hástökkinu í þessu næstum því dúkkuhúsi var einhver ógleymanlegasta stund sem ég minnist úr íþróttakeppni.

Húsið var svo lítið að í keppni í hástökki þurfti Jón Þ. Ólafsson að passa sig á því að detta ekki niður í tröppur og hrapa út um dyrnar suðvesturhorni hússins.

Atrennan gat ekki orðið nema þriggja skrefa atrenna vegna plássleysis. Þess ber að geta að atrenna í hástökki er kannski fleiri stutt skref í sjálfu sér, en í byrjun hennar tók Jón nokkur stutt skref til þess að koma sér af stað og átti þá aðeins rými fyrir þrjú raunveruleg atrennuskref.

Á æfingu á undan lék Jón það eftir heimmethafanum Brumel að stökkva upp og snerta körfuboltahringinn með stóru tánni!

Jón hafði svo mikla yfirburði að hann varð að bíða meðan aðrir hástökkvarar voru að klára sínar hæðir, sem voru 30-40 sentemetrum lægri.

Þegar þeirri keppni hinna var að ljúka tók Jón eina upphitunaratrennu og hljóp yfir 1,85 eins og í grindahlaupi !

Hann var sennilega í mesta banastuði en hann varð nokkurn tíma á glæsiferli sínum. Samt ekki nema 21. árs.

Síðan komu stökkin hans og þegar hann fór yfir 2,11 ætlaði þakið að rifna af litla ÍR-húsinu, enda stökk Jón aldrei hærra á ferlinum, hvorki utan húss né innan.

Þetta var Norðurlandamet og annar besti árangur í heiminum innan húss þetta ár!

Ég efast um að nokkurn tíma muni annað eins gerast í íþróttum innan húss hér á landi.


mbl.is Innlendur íþróttaannáll í myndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband