Hægt að lækna lofthræðslu.

Stundum er sagt að það sem er óþekkt valdi oft mestum ótta. Ég hélt þegar ég var ungur að engin leið væri að læknast af lofthræðslu. Man hve hræddur ég var þegar ég þurfti að ganga eftir Steinahjallagötunni í snarbröttu austanverðu Hvammsfjalli fyrir ofan bæinn, þar sem ég var í sveit.

En haustið 1957 uppgötvaði ég það að það er hægt að lækna lofthræðslu með ákveðinni þjálfun og aga, sem stundum getur tekið drjúgan tíma.

Þegar ég var sautján ára ákvað ég að fara út í það að verða félagi í byggingarsamvinnufélagi sem byggði fyrstu tólf hæða blokkina í við Austurbrún.

Ég vann á kvöldin og um helgar með skólanum og eins og ég gat á sumrin og taldi mig hafa verið heppinn að lenda fljótlega í járnabindingunum, því að það fannst mér skemmtilegt starf, - það þurfti að lesa teikningar og vinna eftir þeim og ná upp þjálfun, sem byggðist á lagni og hraða.

En einn stór galli var á þessari vinnu sem kom í ljós þegar á fyrstu hæð. Það var sá hluti vinnunnar sem fólst í því að ganga eftir tommu breiðum veggjamótunum þar sem maður var eins og á tveimur örmjóum jafnvægisslám fyrir fimleikafólk.

Ekkert mátti út af bregða og í fyrstu var sem þetta myndi verða mér um megn, svo lofthræddur var ég.

Einhvern veginn tókst mér að komast í gegnum þetta en kveið að sjálfsögðu mjög fyrir því að þurfa að gera þetta á annarri hæðinni í tvöfalt meiri hæð frá jörðu en á þeirri fyrstu, - bjóst við að það yrði tvöfalt skelfilegra.

Svo kom fyrsti dagur þessarar jafnvægisgöngu á annarri hæði og víst var þetta erfitt, en þó ekki það miklu erfiðara en á fyrstu hæðinni, að þetta slampaðist.

Á þriðju hæðinni kom það á óvart, að þótt ég væri enn skjálfandi á beinunum við þetta, var það ekki lengur eins skelfilegt og það hafði verið á tveimur neðstu hæðunum. Það var eins og ég væri byrjaður að venjast þessu í stað þess að gefast upp með aukinni hæð, eins og ég hafði verið að búa mig undir að gera.

Skemmst er frá að segja að með hverri nýrri hæð fór hræðslan smám saman minnkandi þótt horft væri sífellt niður úr meiri og meiri hæð.

Gagnstætt því sem ég hafði óttast, hélt hræðslan áfram að minnka eftir því sem ofar dró, og á efstu hæðunum var þetta orðið ekkert mál, svo lítið mál að óttaleysið var farið að verða varasamt.

Það var jú, þrátt fyrir allt, orðið 30 metra fall niður ef manni skrikaði fótur á tommu breiðum mótafjölunum sem maður stundum hljóp eftir ! 

Þess má geta að hættulegusu staðirnir voru hornin, því að vinnupallarnir náðu ekki fyrir þau og þar var lóðbeint gat alla leið niður á jörðina, ef manni urðu á mistök þar.

Á tveimur efstu hæðunum var þessi yfirstigna raun orðin að slíkri nautn, að mann sárlangaði til þess að prófa að stökkva út af steypumótunum og sjá hvort maður drægi út í stóran sandbing sem var 35 metrum neðar !

Síðar í starfi mínu kom það sér vel að hafa þjálfað sig í að vinna bug á lofthræðslunni, til dæmis í þau tvö skipti sem ég fór í fréttaferðir upp í meira en 400 metra hátt mastur á Gufuskálum eða þurfti að klöngrast í þverhníptum fuglabjörgum eða snarbrauttum fjöllum.

En ég hef tekið eftir því að ef langur tími líður á milli þess sem maður tekst á við slík verkefni, minnkar getan til að yfirvinna lofthræðsluna. Það þarf að halda sér í þjálfun við það eins og flest annað.

En niðurstaða mín er sem sagt sú að það er hægt að lækna lofthræðslu.


mbl.is Ekki vinna fyrir lofthrædda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband