2.1.2013 | 01:39
Tímamótasönghópur.
Um leið og ég óska Þóri Baldurssyni til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu fyrir list sína og störf fylgja því líka hamingjuóskir til hinna stórvina minna úr Savannatríóinu, Björns Björnssonar og Troels Bendtsen.
Savannatróið markaði tímamót á tónlistar- og skemmtanasviðinu hér á landi þegar það kom fram á nýjársdag fyrir hálfri öld.
Þótt erlend tríó af svipaðri gerð hefðu verið vinsæl hér á landi um nokkurra ára skeið, og er þar kannski helst að nefna Kingston tríóið, var Savanna tríóið hið fyrsta af þessu tagi hér á landi og sló svo sannarlega í gegn frá fyrsta degi.
Fjórum árum fyrr hafði skemmtanabransinn verið að mestu svipaður og hann hafði verið um áratuga skeið, byggður að miklu leyti á danskri revíuhefð.
Fyrsta skarðið í þetta form hjó tikoma Baldurs búktalara og Konna, brúðu hans, en þrátt fyrir það þvar uppistaðan í skemmtiatriðum gamanvísnasöngvarar í stíl Bjarna Björnssonar, svo sem Alfreð Andrésson, Brynjólfur Jóhannesson, Soffía Karlsdóttir, Árni Tryggvason, Gestur Þorgrímsson og Hjálmar Gíslason, eftirhermur þar sem Karl Guðmundsson var einna aðsópsmestur og síðan var nokkuð um samtalsþætti leikara eða leikkvenna.
Á skemmtunum var eitt sem var klassískt og hefur haldið velli, en það var óperusöngfólk sem oft söng á fyrri hluta skemmtana en síðan voru önnur atriði af léttari toga síðar.
Yfirleitt fluttu þessir listamenn texta eftir snjalla handritshöfunda en voru um leið nokkuð háðir þeim.
Um áramótin 1958 /1959 urðu nokkurs konar kynslóðaskipti þegar inn á þetta svið stormuðu með látum tvö atriði í alveg nýjum stíl.
Annars vegar voru það þeir Gunnar Eyjólfsson og Bessi Bjarnason með alveg nýja útfærslu af tveggja manna tali, sem byggðist á nýjasta forminu í þeim efnum, sem Gunnar hafði séð og heyrt í starfi sínu erlendis sem flugþjónn og héldu þeir uppteknum hætti í meira en áratug.
Áramótin eiga svipaðan sess í mínum huga og huga Savnnatríósins því að á gamlárskvöld 1958 tróð ég fyrst upp utan skóla sem launaður skemmtikraftur og hafði níu mánuðum seinna komið fram á skemmtunum um allt land og tekið þátt í því ásamt Gunnari og Bessa að innleiða alveg nýjan stíl.
Ég var með allt frumsamið, vafið innan í uppistand á milli grínsöngva með alveg nýju lagavali rokkkynslóðarinnar og nýjum og öðruvísi viðfangsefnum í eftirhermum.
Þetta var mikil breyting, ekki síst vegna þess að áður höfðu sömu lögin oft verið notuð aftur og aftur árum saman.
Savannatríóið tók skemmtanabransann með þvílíku trompi 1963 að segja má að með því hafi endanlega orðið umskipti á skemmtanabransanum og léttmeti af gamla stílnum horfið.
Allir voru þeir Savannastrákar listamenn fram í fingurgóma eins og komið hefur fram á ferli þeirra síðar, þótt leiðir skildu í lok áratugarins og nýir öfugir sporgöngumenn, enn langlífari á sviðinu, Ríótríóið, tók við.
Þess má geta, að fjórði maðurinn, kontrabassaleikarinn Gunnar Sigurðsson, lék með þeim án þess að syngja.
Savanna tríóið lagði fljótlega mikla rækt við íslenska þjóðlagatónlist og lög eftir Þóri Baldursson auk laga úr fleiri áttum en vestan úr Ameríku, og þeir tóku upp árangursríka og gefandi samvinnu við snilldarskáldið Sigurð Þórarinsson.
Að þessu leyti lögðu þeir fram dýrmætan skerf til íslenskrar menningar þegar þess þurfi mest við í ólgusjó rokks og Bítla, og það var ekki tilviljun að þeir spiluðu og sungu á fyrsta útsendingarkvöldi Sjónvarpsins.
Fljótlega eftir stofnun Savannatríóins geystust Hljómar fram á sviðið og á aðeins fimm árum hafði orðið einhver mesta bylting, sem orðið hefur í skemmtunum hér á landi.
Troels söng með Þremur á palli síðar við firna góðan orðstír, Björn Björnsson varð yfirmaður leikmyndadeildar Sjónvarpsins og hefur unnið merk starf við uppsetning safna og margt fleira, en Þórir hefur alla tíð unnið gríðarlega mikilvægt starf á sviði tónlistar og er því vel að viðurkenningu kominn eins og áður sagði.
50 ára afmæli og riddarakross | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.