MANNRÉTTINDI ÆSKU OG ELLI

Þessa dagana tek ég þátt í æfingum á söngleik um ástir og elli og vona að hann veki umhugsun um mannréttindi í okkar ríka þjóðfélagi miðað við mannréttindi hjá fátækum og "frumstæðum" þjóðum. Það datt út úr mér í Kryddsíld á gamlársdag að við hefðum tilhneigingu til að gera þrennt að afgangsstærðum: Æskuna, ellina og náttúruna og þetta hefur leitað meira á hugann við það að taka þátt í þessum söngleik.

Við vesturlandabúar fordæmum réttilega mannréttindaleysi kvenna í múslimaríkjum og fátækum ríkjum Asíu og Afríku. En hver eru mannréttindi æsku og elli í þessum ríkjum? Þetta bar á góma í samtali mínu við Ósk Vilhjálmsdóttur nýlega og þá benti hún mér á að hjá þessum þjóðum eru það talin grundvallamannrréttindi barna að dvelja undir forsjá foreldra og síðan réttur foreldranna þegar þeir eldast að hin uppkomnu börn þeirra sjái um þau.

Aðstoð kynslóðanna við hvora aðra eru gagnkvæm. Foreldrar annast börnin og síðan snýst þetta við. Í þessum löndum er það talin hin mesta hneisa ef þessi réttindi barna og gamalmenna eru ekki virt. Það væri ekki talin góð latína í þessum löndum að börnum og gamalmennum væri vísað að heiman og þeim hrúgað inn á stofnanir.

Ósk sagði mér frá rúmlega níræðum manni sem væri vel ern en að hann og ágætlega rólfærir jafnaldrar hans á elliheimilinu væru fyrir löngu búnir að klára öll umræðuefni frá fyrri tíð. Þeim leiddist lífið í þessu "verndaða" umhverfi þar sem ys og þys þjóðlífsins, ærsl og kæti ungviðisins, færi að mestu framhjá þeim.

Það minnir mig á lífið í sveitinni þegar ég var strákur. Allir á bænum tóku þátt í störfum og samveru hins daglega lífs. Úti á túni rökuðu og rifjuðu hey saman ungir og aldnir og blönduðu geði. Þetta samlíf tryggði það að alltaf væri eitthvað nýtt að gerast sem gerði hvern dag ólíkan öðrum hjá öllum aldurshópum. Þegar amma eða afi voru orðin léleg til útiverka sáu þau um hluta af uppeldi barnabarnanna á heimilinu.

Auðvitað lifir fólk lengur en áður og að því kemur að það getur ekki verið inni á venjulegu heimili vegna sjúkdóma og hrumleika. En sú spurning vaknar samt hvort okkar ríka og tæknivædda tölvuþjóðfélag eigi virkilega enga aðra lausn en þá sem myndi vera talin skömm hjá fátækustu þjóðum heims.

  

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Stefán Stefánsson

Þetta er þörf umræða hjá þér Ómar og það ætti að vera eitt stærsta málið í kosningunum í vor að bæta kjör aldraðra.

Stefán Stefánsson, 20.2.2007 kl. 00:53

2 Smámynd: Vilborg Traustadóttir

Tek undir þetta.  Það á ekki að setja alla á einhverja "bása" og missa þannig heilu kaflana úr litrófi aldursskalans.  Inn á stofnanir.  Þó þær séu nauðsynlegar með.  Amma kenndi mér að lesa, með eldspítu við línurnar í bókinni "Ísafold fer í síld".  Kannski skildi ég illa innihaldið en ég lærði að lesa og það vel.  Amma naut þess að kenna okkur.  Hún var yndisleg hún amma.  Var á DAS en kom alltaf í sveitina á sumrin, sem betur fer.  Gekk í öll störf sem hún gat og verkstýrði okkur krökkunum ásamt foreldrum okkar. Og við kynntumst ömmu sem starfsfélaga, kennara og jafningja.  Allir sem einn unnu að sama markmiði. 

Vilborg Traustadóttir, 20.2.2007 kl. 10:28

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Skemmtileg upprifjun á fyrri tíma og þörf áminning. Maður getur nú ekki annað en staldrað við þetta svo umhugsunarverð er þessi aðgreining kynslóðanna og algera afskiptaleysi.

Þá er spurningin, hvernig færum við kynslóðirnar aftur nær hvor annarri? 

Haukur Nikulásson, 20.2.2007 kl. 11:01

4 identicon

Sæll Ómar

 Góður pistill.  Lausnin er hinsvegar fjarri því auðfundin, því miður.  Það er nefnilega þannig að "hvað ungur nemur, gamall temur". Ég er hræddur um að þessi gamla viskar sé sjaldnast við líð nú til dags nema þá kannski til sveita hér á landi.  Við erum nefnilega öll sek um það að flýta okkur of mikið, reynum að taka sprettinn í lífsgæðakapphlaupinu og erum búin að gleyma því að lífið snýst ekki bara um okkur sjálf, heldur líka alla hina sem í kringum okkur eru.

Kv.

Snæþór Halldórsson (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 12:06

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég tek undir með þér Ómar í þessum vangaveltum. Ég held að þetta sé fylgikvilli vestrænna þjóðfélaga. Við höfum ekki tíma fyrir börnin okkar og við höfum heldur ekki tíma fyrir foreldra okkar. VIÐ erum svo upptekin. En upptekin við hvað? Jú, við vinnum mikið, en fyrir hvað? Til þess að borga neysluskuldir okkar. Við förum nefnilega framúr okkur í góðærinu. Launin sem við vinnum okkur inn í dag fara í að borga það sem við keyptum okkur í fyrradag. Samt eru flestir á kafi í einhverju "activity" utan vinnutíma, fól gefur sér tíma í áhugamálin, sem er að sjálfsögðu holt og gott, en fólk þarf líka að huga að forgangsröðinni. Þessum hugsanhætti þarf að breyta.

Stundum heyrist gagnrýni á grunnskólakerfið, að það standi sig ekki á hinum ýmsu sviðum. Þó að grunnskóli sé að einhverju leyti uppeldisstofnin þá hvílir uppeldið fyrst og fremst á foreldrunum. Í skólunum á ekki að þurfa að kenna börnum grunnatriði í umgengni við aðra, kenna kurteysi, aga, borðsiði, vinnusemi o.s.frv. Grunnurinn á að koma frá heimilunum. Hlutverk skólanna er frekar að skerpa á og minna á en því miður koma krakkar í grunnskóla sem þarf að sinna hvað þetta varðar frá byrjunarreit. Sumir virðast líta á skólana sem geymslustaði. Það er auðvitað firra.

Það er sorglegt þegargömlu fólki er stíjað í sundur á ævikvöldi sínu. Þetta er eitthvað sem verður bara að laga. En á sama hátt og með börnin, þá berum við börn foreldra okkar líka ábyrgð. Finna ekki flestir í hjarta sínu að við gætum gert eitthvað betur sjálf? Getur fólk sagt einlæglega að það sé fegið að losna við "þau gömlu" í geymsluna, á endastöðina?

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2007 kl. 13:59

6 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Í Króatíu tíðkast það enn að "eldri" fjöldskyldumeðlimir séu á heimilinu og þeir njóta mikillar virðingar...en þar er "heilbrigðiskerfið" varla existerandi!...en er það hér á Ísalandinu góða nema íorði en ekki á borði?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.2.2007 kl. 22:05

7 Smámynd: Bryndís Guðmundsdóttir  (Binna)

Það er gott að minna á þetta Ómar. Þega ég var að alast upp þá var það einungis í sveitunum sem að ég rek minni til að börn hafi tekið við af foreldrum sínum og þau áfram búið hjá þeim fram í andlátið.  Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi séð þetta annarstaðar.  Ábyrgðin er tvímælalaust okkar. Það getur engin fríað sig af ábyrgð sinna nánustu þegar kemur að því að láta þeim líða sem best á efri árum. Enda held ég að svo geri engin, allavega vill ég ekki trúa að svo sé.

En samt sem áður er það nokkuð ljóst að tíminn virðist vera af skornum skammti hjá nútíma fólki. Allir vilja eiga sem mest og það krefst mikilar vinnu, og í öllu amstrinu þá bara gleymist oft á tíðum þeir sem að eru á stofnunum svo og að eyða tíma með börnum sínum. Þetta virðist haldast í hendur.

Hversu miklum tíma ætli fólk eyði með sínum nánustu sem að eru á stofnunum?

Var sá tími meiri áður en að það fór á stofnun?

Sjálf hef ég unnið á elli og hjúkrunarheimili og fengið aðeins innsýn í þetta. Ég held að við verðum að passa okkur að gleyma því ekki að röðin komi að okkur, og hvað myndum við vilja sjálf þegar við verðum komin á BESTA aldur.

Allavega held ég að flestir vilji búa sem lengst heima, eða bara búa heima allt þar til við færum yfir á annan stað. Hvernig er hægt að snúa þessar þróun við?

Bryndís Guðmundsdóttir (Binna), 21.2.2007 kl. 10:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband