13.1.2013 | 21:41
Var í Versló og brilleraði í hringnum.
Tvívegis hefur það gerst að ég hef verið kallaður til til að dæma og lýsa léttri hnefaleikakeppni í Verslunarskóla Íslands, skóla Sveinbjörns Hávarssonar píanóleikara, eða réttara sagt hnefanóleikara, því að hann æfir bæði hnefaleika og píanóleik.
Í annað skiptið sem ég var kvaddur að hringnum í Versló, fór fram afar eftirminnilegur bardagi.
Annar keppandinn hafði greinilega fengist eitthvað við íþróttina, mjög Tyson-legur, samanrekinn og vöðvaður, en hinn keppandinn var dökkhærður langur og grannur sláni, sem ekki virtist til stórræða.
Um leið og flautan gall réðist hinn íslenski Tyson á slánann af gríðarlegum ákafa, sló og sló án afláts með þungum höggum, sem buldu á slánanum, handleggjum hans og skrokki.
Nokkur högganna rötuðu líka að höfði hans, en bitu ekkert sérstaklega þar, því að sláninn var nokkuð laginn við að bera hendur sínar og handleggi fyrir höggin, reyna að hörfa undan sókninni til beggja handa og forðast það sem virtist óhjákvæmilegt, að vera ofurliði borinn.
Eftir að bardaginn hafði verið alger einstefna sem gæti ekki endað nema á einn veg,jafnvel þótt sláninn væri furðu laginn við að stíga í réttar áttir á réttum tíma á undanhaldi sínu, gerðist það síðan, að þegar ófarir og tap virtust blasa við slánanum, sem varla hafði slegið eitt einasta högg, fór hann allt í einu að lauma inn einu og einu gagnhöggi sem öll voru svo vel tímasett, hnitmiðuð og hittu svo vel, að sá styttri riðaði við, enda búinn að eyða gríðarlegri orku í stórsókn sína og hljóp oftast á þessu óvæntu gagnhögg.
Á örskammri stundu snerist bardaginn við þegar kubburinn höggharði vankaðist æ meira við að taka á sig eitraðar stungur slánans og allt í einu stóð sláninn uppi sem sigurvegari yfir blóðgðuðum andstæðingi sínum sem var algerlega búinn að vera og beið einhvern óvæntasta ósigur, sem ég man eftir í þessari íþróttagrein.
Ég tilkynnti nú úrslit bardagans og lyfti hendi þessa kornunga, algerlega óþekkta og efnilega hnefaleikara: "Bardaganum er lokið og sigurvegarinn er ... Ásgeir Örn Hallgrímsson."
Mér gafst stutt tækifæri til að ræða við drenginn og segja honum það álit mitt að hann væri greinilega fæddur íþróttamaður og gæti hugsanlega náð langt í hverri þeirri íþróttagrein, sem hann vildi stunda.
Hann valdi handboltann og mér hafði ratast satt á munn.
Sveinbjörn er hnefanóleikari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.