"Meira en félag".

Bandaríkjamenn hafa hugsanlega þjóða minnstan áhuga á knattspyrnu eða eigum við að segja: hafa ekki eins óskaplega mikinn áhuga á knattspyrnu og aðrar þjóðir.

Það þarf því nokkuð til að "60 mínútur" geri pistil um knattspyrnufélag og knattspyrnumenn. 

En þetta má sjá í nýjum þætti þar sem var góð og skemmtileg umfjöllun um Barcelona, besta knattspyrnulið heims með besta knattspyrnumann heims innanborðs, fjórða árið í röð. 

Lykilorðið í starfsemi og tilveru knattspyrnufélagsins er kjörorðið "meira en félag" og það kom vel fram í pistlinum þar sem meðal annars var minnst á hve mikinn þátt þetta knattspyrnufélag á í vaxandi sjálfstæðisbaráttu Katalóníu. 

Sú barátta fer enn friðsamlega fram og hugsanlega er það eina leiðin til þess að markmiðið náist, það er að segja ef yfirgnæfandi stuðningur er við það hjá Katalóníumönnum sjálfum. 

Baskar hafa prófað hryðjuverkaleiðina og hún hefur ekki skilað þeim neinu. 

En kjörorðið "meira en félag" á við á mörgum fleiri sviðum.

Uppeldis- og menntamiðstöð Barcelona er einstök og 17 af 25 manna hópnum, sem er hryggjarstykkið í þessu frábæra knattspyrnuliði, hefur hlotið uppeldi sitt og víðtæka menntun í þessum skóla, sem ekki aðeins á að skila afburða knattspyrnumönnum, heldur vel menntuðum og siðferðilega sterkum einstaklingum. 


mbl.is Messi skoraði eitt og lagði upp tvö
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Baskar yrðu nú ekki hrifnir ef eingöngu Katalónar fengju sjálfstæði frá Spáni.

Af hverju þessi rígur á milli Real og Barca?

Þorsteinn Briem, 14.1.2013 kl. 01:58

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Af hverju er rígur á milli KR-inga og Valsara? Af hverju var rígur á milli Ólsara og Sandara?

Íslendingar og Danir voru eitt sinn hlutar af einu og sama ríkinu. Af hverju var rígur á milli Íslendinga og Dana? 

Ómar Ragnarsson, 14.1.2013 kl. 16:38

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hversu marga KR-inga hefur þú drepið, Ómar Ragnarsson?

Þorsteinn Briem, 14.1.2013 kl. 17:35

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Franco var alla tíð mikill Madridar og studdi liðið með ráðum og dáðum og auk þess hataðist hann við Baska og Katalóna.

Báðar þjóðirnar fengu ekki að tala tungumál sitt og var fólk drepið á götum úti fyrir svo litlar sakir. Auk þessa mátti ekki skíra börn katalónskum og baskneskum nöfnum, dæmi um katalónskt nafn er Carles (samanber Puyol) en skylt var að skíra þá barnið Carlos.

Á þeim tíma varð Camp Nou musteri þjóðarinnar en á þeim stað sást katalónski fáninn eingöngu. Það virkaði þannig að katalónska fánanum var flaggað um stundarsakir á einhverjum stað meðal áhorfenda en er yfirvaldið kom var fáninn á bak og burt.

Er Franco lést sættust þó bæði Katalónar og Baskar á að vera innan Spánar til þess að koma í veg fyrir aðra styrjöld."

Af hverju þessi rígur á milli Real og Barca?

Þorsteinn Briem, 14.1.2013 kl. 18:10

5 Smámynd: P.Valdimar Guðjónsson

Athyglisvert hve þessi skóli Börsunga skilar miklum og mörgum snillingum. Skil ei hví fleiri stórklúbbar fara ekki sömu leið. Jákvæð afleiðing þessa að þeir eru nánast " sjálfbærir ". Boltasnillingarnir bara gripnir úr eigin ranni. Liggur við að varla sé þörf á milljarða verslunarleiðöngrum til að versla og flytja inn erlenda spörkunga.

Yngri flokka starf er alltof mikið vanmetið. Of mikið gleymt þegar kemur að afrekum. Allt býr að fyrstu gerð og undirstöðunni.

Minnist þess ekki að okkar mjög svo kæru handboltasnillingar, þegar þeir eru spurðir gömlu klisjupurningsrinnar "hverju þakkið þið þennan góða árangur?" , hafi minnst á þýðingu uppeldis yngri flokkanna hjá sínum íslensku klúbbum. Væri allt í lagi. Svona stundum.

P.Valdimar Guðjónsson, 15.1.2013 kl. 00:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband