Þetta mál verður að hreinsa og létta fargi af þjóðinni.

Um miðjan áttunda áratug síðustu aldar geysaði nokkur konar galdrafár á Íslandi. Mannshvörf verða að vísu nokkuð reglulega hér á landi en þau koma stundum í bylgjum og þannig hafði það verið á þessum tíma.

Fíkniefnaneysla, hippabylting og uppgangur ýmissa hópa með róttækar hugmyndir hristi þjóðina og hrærði upp í fólki. Stórvaxandi samkeppni fjölmiðla um æsifréttir hleypti upp bylgju krafna um að hinir týndu fyndust og að flett yrði ofan af glæpastarfsemi. 

Lögreglan lá undir ámæli um getuleysi og sat fyrir svörum vegna þungra ásakana í sjónvarpsþáttum, útvarpsþáttum og almennt í fjölmiðlum. 

Þegar Geirfinnur Einarsson hvarf á dularfullan hátt varð allt vitlaust út af símtali sem hann fékk áður en hann fór að heiman til að hitta einhvern mann, sem fljótlega varð að hugsanlegum morðingja í umræðu sem tröllreið samfélaginu næstu misserin á eftir. 

Látum vera þótt hvarf Geirfinns hefði verið eitt á döfinni. En þegar alls óskyldum manni, Guðmundi Einarssyni, var blandað inn í málið og þessi tvö mannhvörf gerð að einu og sama málinu að viðbættu því að fjórir þjóðþekktir einstaklingar voru settir saklausir í varðhald hefði engum átt að geta dulist að málið var komið langt út fyrir öll skynsamleg mörk.

Ég man vel eftir andrúmsloftinu á fréttastofunni, sem ég vann þá á, og reyndi eftir föngum að halda ró sinni og taka ekki þátt í fárinu.

En það var ómögulegt. Haldnir voru stórir blaðamannafundir með hrikalegum lýsingum og engin leið önnur en að flytja skýrslur og frásagnir rannsóknarmanna.

Ég man vel að það kom eitt sinn í minn hlut að vera aðalþulur og lesa stóran hluta af þessum firnum án þess að mega depla auga, man hvað þetta var erfitt, hvað þetta var fáránlegt og hvað það var þrúgandi að þurfa að lesa skýrslu sem nokkrum vikum síðar var orðin að hreinni steypu og í staðinn var skyldan að lesa allt aðra útgáfu sem var þó var engu skárri, jafnvel verri.

Fárið hélt áfram og þjóðin heimtaði stranga dóma fyrir tvö meint morð á alls óskyldum mönnum, þótt það vantaði lík, vantaði morðvopn, vantaði ástæðu eða nokkur áþreifanleg gögn.

Allt byggðist á síbreytilegum framburði fólks, sem fékkst fram með aðferðum, sem ekki væru teknar gildar í dag nema kannski í Guantanamofangelsinu. 

Þegar dómarnir féllu sagði þáverandi dómsmála: "Þungu fargi er létt af þjóðinni"

Kannski hafði hann rétt að mæla á því augnabliki, en með árunum er þetta mál orðið að fargi á þjóðinni sem verður að létta af henni.

Að vísu finnast enn þeir, sem segja að hinir dæmdu hafi ekki verið neinir englar og hafi þess vegna átt skilið að framið væri dómsmorð á þeim. Ef slíkt á að gilda í dómsmálum er vegið að rótum réttarríkisins.  


mbl.is Ný gögn í Geirfinnsmálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Mal214.googlepages.com. Þarna er sannleikurinn!

Guðrún Magnea Helgadóttir, 14.1.2013 kl. 17:25

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

2.12.2009:

"37 Íslendingar hafa horfið sporlaust hér á Íslandi frá árinu 1970 [einn á ári að meðaltali].

Allt eru þetta karlmenn og þrjú málanna tengjast hugsanlegum sakamálum.
"

"Í svörunum kemur fram að séu mannshvörf á sjó ekki tekin með í reikninginn, sé fjöldi horfinna á landi, í fossum og vötnum síðustu 39 ár 37."

"Meðalaldurinn við hvarf er 34 ár."

Þorsteinn Briem, 14.1.2013 kl. 17:41

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Málið snýst ekki um afturköllun játninga, heldur að játningarnar í málinu virðast hafa verið samdar af rannsóknaraðilum og togaðar út úr sakborningum með pyntingum.

Rannsakendurnir sýndu nefnilega fram á með óyggjandi hætti að þeir gátu fengið sakborninga til að játa hvaða þvælu sem var með því að fá þá alla í einangrun til að játa útgáfuna sem varð til að fjórir saklausir menn voru hnepptir í gæsluvarðhald mánuðum saman.

Það er líka fáránlegt, eins og bent hefur verið á, að hamra á því að það þurfi ný sönnunargögn til að málið verði tekið upp aftur, því það voru einmitt aldrei nein sönnunargögn í málinu.

Að krefjast nýrra sönnunargagna er að snúa sönnunarbyrðinni við og ætlast til að sakborningar finni gögn sem sanni sakleysi þeirra."

Geirfinnsmálið, Brynjar og réttarríkið

Þorsteinn Briem, 14.1.2013 kl. 17:47

4 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Kæmi á óvart ef eitthvað nýtt kæmi fram í þessum gögnum. Gögn frá lögreglunni geymd á þjóðskjalasafni.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.1.2013 kl. 20:32

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Takk nafni, þú átt heiður fyrir þennan heiðarlega pistil.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 14.1.2013 kl. 20:53

6 identicon

Ég kaupi ekki að þetta sé einsdæmi þó stærð málsins sé það kannski.

Helga Völundardóttir (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband