15.1.2013 | 16:04
Minnir á flugvöllinn í Arba Minch í Eþíópíu.
Við borgina Arba Minch í Eþíópíu, þar sem búa álíka margir og í Reykjavík, var byggður flottur flugvöllur með enn flottari flugstöð, að hluta til úr marmara. Þar eru sömuleiðis víðfeðm malbikuð bílastæði.
Ég hef komið á þennan flugvöll í miðju sunnanverðu landinu, en enda þótt hann sé í landi með 200 sinnum fleiri íbúa en búa á Íslandi, er nær engin umferð um völlinn, hvorki flugvélar né bílar.
Enda eru litlar flugvélar í landinu innan við tíu og innanlandsflug nær ekkert. Eina flugið, sem blaktir, er flug Flugfélags Eþíópíu sem flýgur eingöngu á milli landa.
Ástæðan fyrir þessu ótrúlega ástandi er sú, að landsmönnum er haldið í sárafátækt og einræðissinnuð stjórnvöld halda fluginu niðri innanlands, mest í "öryggisskyni" vegna "hernaðarástands" varðandi samskiptin við Eritreu, "hernaðarástandi" sem er viðhaldið í hið óendanlega til að auðvelda kverkatakið sem stjórnvöld hafa á þjóðinni.
Mannvirkin, sem eitt sinn voru svo glæsileg á flugvellinum í Arba Minch, grotna niður og ömurlegt að koma á þennan stað. Engir starfsmenn, engar flugvélar, engir bílar, engar rútur.
Niðurnídd bílastæðin við flugvöllinn í Arba Minch vegna þess að farþegar, sem fara um völlinn árlega eru aðeins nokkur hundruð, eiga þó skæðan keppinaut þar sem eru bílastæðin við flugstöð Flugfélags Íslands við Reykjavíkurflugvöll, flugvöll sem 600 þúsund farþegar fara um á ári hjá þjóð, sem er með 200 sinnum meiri tekjur á mann en í Eþíópíu.
Við flugstöðina í Skerjafirði er bílum lagt nánast á víðavangi, á frumstæða möl og í húsgrunn af brunnu flugskýli vegna lítt skiljanlegs málastapps.
Í Arba Minch virðist of lítið flug þvælast fyrir mönnum. Í Reykjavík virðist þetta vera öfugt, að flugið sé of gróskumikið.
Þeg ég kem að bílastæðunum svokölluðu við Vatnsmýrina hljómar í huganum lagið "Out of Africa".
Engin lausn á bílastæðum flugvallarins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta má þakka andstæðingum flugvallarins, sem reyna þá sitt til að afmá hann að viðhalda áróðri og eins miklu óvissuástandi eins og hægt er.
RVÍK gæti verið montin af þessu svæði ef tryggt væri næstu 50 ár eða svo.
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 16:30
Við Háskóla Íslands á Vatnsmýrarsvæðinu hafa síðastliðna áratugi verið nokkur hundruð bílastæði á möl, þar sem háskólanemar og háskólakennarar hafa lagt bílum sínum nær daglega.
Þorsteinn Briem, 15.1.2013 kl. 18:48
Enda hefur háskólanemum fjölgað í veldisauka vel yfir flugfarþega pr. dag. Reyndar hefur bílafloti háskólanema ætið undrað mig, og aldrei sem 2007...
'85 var ég þó hissa að sjá stundum laus stæði utan við aðalbygginguna.
Jón Logi (IP-tala skráð) 15.1.2013 kl. 19:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.