16.1.2013 | 00:41
Hrossakjötshamborgarar fyrir norðan í gamla daga ?
Það þykir hið mesta hneykslli í Bretlandi að fundist hafi vottur af hrossakjöti í hamborgurum. Ef hamborgarar hefðu verið á boðstólum í Húnavatnssýslum og Skagafirði fyrir 60 árum hefði það hins vegar líklega þótt hið besta mál.
Þegar ég var í sveit á sumrin í Langadal fyrir meira en 60 árum, náði ég í skottið á þeim tíma þegar hesturinn var þarfasti þjónninn á allan hátt, sem vinnuvél, samgöngutæki, íþrótta- og skemmtitæki og matvara.
Sumardagarnir byrjuðu flestir á því að ná í brúkshestana tvo, Dreyra og Faxa, út í beitarhólfið Part, beisla þá og færa til bæjar þar sem þeirra beið dagsverkið, að draga heyvinnutækin og hestvagna og heyvagna.
Nytsemi hrossanna náði út fyrir gröf og dauða, því þeir voru étnir eftir að þeir urðu "óvinnufærir."
Hrossakjöt var oft á borðum og í minningunni vafalaust miklu oftar en í raunveruleikanum, því að þegar maður kom norður úr borginni, var maður orðinn óvanur hrossakjötsáti en vandist því undrafljótt aftur.
En ég ylja mér jafnvel í minningunni á þann veg að hrossakjötið hafi verið nokkurs konar "þjóðarréttur" Húnvetninga og Skagfirðinga hér forðum; það var borðað nógu oft og vandist nógu vel til þess að fá þann sess.
Því miður voru hamborgarar ekki á boðstólum á þessum árum, en svo vanur var maður orðinn hrossakjöti og beljusviðum, að ekki hefði verið fúlsað við hreinum hrossakjötshamborgara eða beljusviðasultu í lofttæmdum plastumbúðum.
Hrossakjöt í hamborgurum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ansi margt hann Ómar getur,
og ekki líður kallinn sult,
vini sína alla étur,
og ekki fer hann með það dult.
Þorsteinn Briem, 16.1.2013 kl. 01:24
Það er langt gengið í að féfletta almenning....
Ingibjörg Guðrún Magnúsdóttir, 16.1.2013 kl. 08:28
Þykkvabæingar voru á öldum áður þekktir fyrir að víla ekki fyrir sér hrossakjötsát, og sagðir "bláir" af hrossakjötsáti,- en þýðir það ekki bara að þeir hafi ekki verið eins sultarteknir og aðrir?En, ef eitthvað er, - Þjóðarréttur Þykkvabæinga!
Þetta myndi líkast til hafa verið á kaþólskum tíma, en þar var dálítið litið niður á þetta.
Þegar Germönsk ríki voru kristnivædd var lagt bann við hrossakjötsáti, þar sem það átti í sumum tilfellum tengingu við forna trú, - hrossakjöt átti að veita (stríðs)manni styrk. En þetta snerist/byrjaði að snúast á 16. öld muni ég rétt.
En nú eru kynslóðir af Íslendingum aldar upp við þetta, enda hið besta mál. Saltað hross með kartöflum og uppstúf, - algert namminamm.
Kjötið er gott, og hollara kjöt vart að fá. Geymsluþol ekki svo mikið þó. Og úrval er að grilla hrossakjöt (!!!).
Beljusviðasulta er svo alveg svakalega góð. Get útvegað meistaralega vel gerða slíka. Sú er mun betri en lambasviðasulta!
Jón Logi (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 09:26
Hrossakjöt er skilgreint sem óhreint í Gamla Testamenti. Kristnar stofnanir fylgdu svo því dírektífi með einum eða öðrum hægtti. Ísland fékk tímabundna undanþágu frá banninu við kristnitöu.
Á 18. öld fór viðhorfið dáldið að breytast og um 1800 á Íslandi. það tók þó langan tíma að ná í gegn og allt fram á þennan dag er til fólk sem hryllir sig ef það heyrir hrossakjöt nefnt á nafn.
það hefur verið viðloðandi enskumælandi lönd allt fram á þennan dag að borða ekki slíkt kjöt en eg þekki ekki til hvort það sé beinlínis bannað.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 16.1.2013 kl. 12:27
Það þarf nú ekkert að "venjast" hrossakjöti. Það er skínandi matur. Fátt er betra en spikfeitt saltað hrossakjöt. Folaldakjöt er auk þess miklu betra kjöt en nautakjöt. Það er ekki hægt að eyðileggja það í steikingu eins og nautið. Það helst meyrt þó það sé gegnumsteikt. Margar folaldasteikurnar hafa runnið ofan í grunlausa sem nautakjöt.
Óorðið sem kom á hrossakjötið var mestpart vegna þess að hér áður fyrr voru hestar almennt ekki felldir fyrr en 20 til 25 vetra, eftir að brúki þeirra lauk. Það segir sig sjálft að kjöt af svo gamalli skepnu er auðvitað ekki 1. flokks vara.
Aðrar skepnur voru ekki látnar ná þessum aldri þannig að samanburðurinn við annað kjöt var ekki fyrir hendi. Hvernig ætli kjöt af 20 vetra nautgrip smakkist í samanburði við kálfakjöt eða veturgamalt?
Axel Jóhann Hallgrímsson, 16.1.2013 kl. 15:10
Og bara örfáir dagar síðan Íslendingar keyptu sig inn í hamborgaraframleiðslu breta.....
sigkja (IP-tala skráð) 16.1.2013 kl. 16:51
Ekki fúlsaði ég við hrossakjötinu eftir nokkra daga í sveitinni og beljusviðin urðu fljótt betri en kindasviðin!
Ómar Ragnarsson, 16.1.2013 kl. 22:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.