Stöðva Sjálfstæðismenn heimskreppuna ?

Nú virðast framkvæmdir framundan á Keflavíkurflugvelli við "eitthvað annað" en stóriðju. En auðvitað slær það ekkert á stóriðjuþrána né snýr við straumi í skoðanakönnunum. 

Ágætur fræðimaður sagði í útvarpsfréttum í dag að VG liði fyrir það í skoðanakönnunum að "hjól atvinnulífsins væri ekki farin að snúast" þ. e. að þeir stöðvi stóriðju- og virkjanaframkvæmdir.

Og sama útskýring hlýtur að vera á því að 41% styðja Sjálfstæðisflokkinn og samtals 53% hann og Framsóknarflokkinn sem stunda gylliboð um það að snúa rammaáætlun á hvolf eftir kosningar sem og að stöðva eða breyta fiskveiðistjórnarfrumvarpinu og koma stjórnarskránni í sama stoppið og hún hefur verið í 70 ár.

Því að með því að taka aftur upp gamla lagið, að stjórnarskrárnefndir flokkanna skrifi stjórnarskrána þar sem hver og einn aðili hafi neitunarvald hefur reynst trygging fyrir því í 70 ár að það hefur ekki tekist.  

Skoðum nánar hvað felst í því að VG komi í veg fyrir hjól atvinnulífsins fari að snúast með því að taka upp stóriðju- og virkjanastefnu áranna 2001-2008.

Þar er besta vitnið forstjóri Landsvirkjunar sem sagði á haustfundi fyrirtækisins að jafnvel þótt stórir orkukaupendur hefðu komið sér fyrir fremst í biðröð eftir orkunni, héldu allir að sér höndum þangað til "sæist til sólar" í heimskreppunni.

Annars staðar hefur komið fram að til dæmis í Helguvík er staðan þannig meðan samningarnir við 3 af 15 aðilum frá 2007 eru í gildi, að allri tiltækri orku og miklu meira en það hafi verið ráðstafað til eins risakaupanda, Norðuráls.

Auðvitað dettur engum í hug að leita samninga við sölumenn vöru, sem eru búnir að lofa henni allri og meira en það til eins stórs kaupanda.  

Nú er meðalsöluverð raforku frá Landsvirkjun að sögn forstjórans um 30% lægra en á alþjóðlegum markaði þrátt fyrir að þetta verð hafi verið hækkað í ljósi þess að gamla verðið tryggði ekki viðunandi arðsemi

Við blasir að meðan kreppan ríkir er engin von til þess að stóriðju- og virkjanaframkvæmdir hefjist nema að við gerum það sama og Sjallar og Framsókn gerðu 1995 að bjóða "lægsta orkuverð í heimi."

Þessi tveir flokkar eiga að koma hreint til dyranna og segja: Við lofum ykkur því að stöðva heimskreppuna eða, ef það tekst ekki, að lækka orkuverðið til útlendinga þangað til þeir fást til að kaupa hana, þótt við töpum á því, því að aðilar vinnumarkaðarins heimta "mannaflsfrekar framkvæmdir", jafnvel þótt jafnmargir verði atvinnulausir þegar þeim lýkur og fengu atvinnu þegar þær hófust.

En þetta segja þeir auðvitað ekki heldur stjórna umræðu þar sem breitt er yfir hið raunverulega ástand og stundað lýðskrum með gylliboðum til þess að geta tekið hér aftur upp stefnuna frá 1995 - 2008, sem skóp Hrunið. 


mbl.is Framkvæmdir framundan á Keflavíkurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"....snúa rammaáætlun á hvolf eftir kosningar..."

Þú snýrð þessu alveg á haus, Ómar. Rammaáætlun er nú þegar á hvolfi eftir hina tæru vinstristjórn. Ef henni verður breytt eftir kosningar, þá er það til að rétta hana við og færa í það horf sem henni var ætlað að vera, þ.e. fagleg og þver pólitísk.

"Við blasir að meðan kreppan ríkir er engin von til þess að stóriðju- og virkjanaframkvæmdir hefjist"

Mikið hlýtur þessi ófremdarástand að gleðja ykkur friðunarfíklana, Ómar. Dauði og djöfull hvert sem litið er og allt í lukkunnar velstandi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.1.2013 kl. 01:51

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Álver verður reist í Helguvík og stór fyrirtæki á Húsavík, sama hvaða flokkar verða í næstu ríkisstjórn.

En hér verða ekki reist fleiri álver en í Helguvík.

Og harla ólíklegt er að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn fái nógu mörg atkvæði í alþingiskosningunum nú í vor til að geta myndað ríkisstjórn sem 33 þingmenn eða fleiri styðja.

Eins og staðan er núna er mun líklegra að næstu ríkisstjórn myndi Samfylkingin, Björt framtíð Guðmundar Steingrímssonar og Framsóknarflokkurinn eða Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin.

En Samfylkingin og Björt framtíð munu að sjálfsögðu gera þá kröfu fyrir myndun ríkisstjórnar með þessum flokkum að hér verði þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild Íslands að Evrópusambandinu, þegar samningur um aðildina liggur fyrir.

Þorsteinn Briem, 20.1.2013 kl. 06:32

3 identicon

Reikna ekki með álveri í Helguvík, né stóriðju á Húsavík. Verð á áli er að lækka, sem og eftirspurn. Betri efni á boðstólum og “recycling” fer ört vaxandi. Framboð á orku úr endurnýjanlegum orkulindum -  t.d. sól, vindi, haforku, lífmassa - fer einnig ört vaxandi, samfara því að spara má orku með nýrri tækni, gott dæmi er sparperan svokallaða.

Kínverjar geta fullnægt eftirspurn eftir meiri raforku næstu 20 árin eingöngu með betri orkunýtingu hráefnisins, ekki síst í kolaorkuverum.

Þetta verða þeir að gera ekki síst vegna mengunar.

 

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.1.2013 kl. 12:19

4 Smámynd: Hrólfur Þ Hraundal

Haukur kl. 12,19.  Elskulegu ESB sparperurnar þínar og annar öfga náttúruverndar manna fara í miljónavís í sjóinn, til hamingju fyrir lúðu, hvali, sjófugla og hvítabirni.  Sem betur fer þá urðu þessar heilögu sparperur Evrópusambandsins og heilagrar ríkisstjórnar Íslands, úreltar á sama tíma og þær urðu til.  

Skinsamlegt hefði verið að nota áfram glóperurnar  orkufreku þar til náttúruvænni ljósgjafar næðu ásættanlegum þroska.  Orku notkun minkar ekki í sama hlutfalli og sagt er að sparpera noti minna en glópera. 

Það er af tveimur ástæðum og er sú sem meiramáli skiptir er að fólk slekkur frekar á glóperu en sparperu af ástæðu sem menn verða að átta sig á sjálfir.  Hin ástæðan er að sparperur standa bara ekki þann samjöfnuð sem boðaður er á pakkanum, hvorki í líftíma né ljósgæðum.         

Hrólfur Þ Hraundal, 20.1.2013 kl. 14:08

5 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Því miður er lýðskrumið sem margir falla fyrir.

Egill Helgason fékk kjörið tækifæri í dag að stoppa einn mesta lýðskrumara landsins af. Sigmundur Davíð fulltrúi braskara á Alþingi Íslendinga fékk heilar 20 mínútur að tjá sig og auglýsa sitt lýðskrum í nokkurs konar einræðu um ágæti sitt og sinna skoðana í Silfri Egils! Er þetta hægt í landi þar sem ætti að vera jafnræði meðal stjórnmálaskoðana?

Enginn andmælandi, óvirkur Egill! Er hægt að bjóða fólki upp á annað eins?

Guðjón Sigþór Jensson, 21.1.2013 kl. 01:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband