"What am I living for?" og öfugt "Let it be" ?

Það eru aðeins 12 nótur í hverri áttund til umráða fyrir lagahöfunda. Þess vegna er erfitt að komast hjá því að eitthvað sé líkt í tugmilljónum laga, sem samin hafa verið.

Hér um árið varð ítalskt lag nokkurt hlutskarpast í Evróvision sem var svo nauðalík laginu "What am I living for? " frá árinu 1958, að mér fannst það broslegt og kunni aldrei almennilega við ítalska lagið fyrir bragðið. Aðallaglínan virtist vera tekin í tveimur bútum úr gamla smellinum, annars vegar úr upphafi þess og hins vegar úr inngangi þess og búturinn úr innganginum settur inn í lagið.

Lagið "You raise me up" verður til hjá Norðmanni, sem var á Íslandi þegar lagið "Söknuður" var hér vinsælt og mikil þjófnaðarlykt af því fyrrnefnda. En bæði lögin, einkum það norska, eru síðan afar keimlík írska laginu "Londonderry Air".

Fyrstu þrír taktar lags Magnúsar Eiríkssonar, "Ó, þú!" eru hinir sömu og í lagi sem Nat King Cole söng 30 árum fyrr, en lag Magnúsar finnst mér raunar mun betra!

Fyrir meira en tíu árum heyrði ég fyrir algera tilviljun erlendan strokkvartett spila í útvarpinu að morgni dags fyrstu fjóra taktana úr upphafið á laginu "Ísland er land þitt" en síðan fór þetta gamla klassíska lag út á aðrar slóðir en í hinu íslenska lagi.

Bubbi Morthens var með lag fyrir 2-3 árum sem er ákaflega líkt slagara sem gekk um 1960 og þegar franska lagið "Dominó" varð heimsfrægt snemma á sjötta áratugnum voru fyrstu taktarnir nánast sömu nóturnar og á gömlu lagi eftir Skúla Halldórsson, áherslurnar þó ekki á sömu nótunum.

1963 gerði ég lagið "Vögguvísa" og setti á plötu. Söng það afar illa en lagið gæti alveg orðið brúklegt með betri söngvara. Ólafur Gaukur hitti mig á förnum vegi og spurði mig hvernig í ósköpunum ég hefði grafið þetta lag upp.

Ég kom af fjöllum því að ég hélt ég hefði samið það sjálfur. "Ónei," sagði Gaukur, "Ég pikkaði þetta lag upp í Bandaríkjunum og spilaði það aðeins nokkrum sinnum haustið 1948 á Hótel Borg. Það var í eina skiptið sem nokkur maður heyrði það hér á landi."

"En þá var ég bara átta ára" svaraði ég. Hugsaði mig síðan aðeins um og spurði: "Er það rétt munað hjá mér að nokkrum sinnum hafi verið bein útsending frá Borginni á þessum árum?"

Gaukur jánkaði því og þar var eina mögulega skýringin komin. Ég var nefnilega mjög spenntur fyrir því að hlusta ásamt foreldrum mínum á dægurtónlist í útvarpinu sem barn og hafði því líklega heyrt þetta lag spilað einu sinni. Lagið hafði síðan dottið niður í undirmeðvitundina og dúkkað upp aftur 14 árum síðar, nánast alveg eins nema síðasta laglínan. 

Svipað gæti hafa gerst hjá höfundum laganna, sem ég nefndi hér á undan. "Ég á líf" virkar á svolítið á mann þannig, að það sé líkt einhverju öðru eða öðrum lögum, en þegar um er að ræða þrjár tóna/nótur hlýtur slíkt að vera líklegt.

Ég er ánægður með lagið og finnst tenging þess við beljulagið mjög langsótt. En textinn við lagið er ekki stolinn, - hann er grípandi og fallegur og þetta lag varð því strax í hópi þeirra þriggja laga, sem ég greiddi atkvæði í fyrstu en síðan eingöngu í lokin. 

P. S.  Hitt er svolítið "Ingimarslegt" að ef fyrstu þrjár nóturnar, "Ég á líf" eru spilaðar afturábak kemur út byrjun aðalstefsins í laginu "Let it be"!! Og ekki er síður skemmtilegt að spila fyrstu sex nóturnar í báðum lögunum í þessum anda, þótt nótur 4-5-6 séu ekki alveg afturábak í "Let it be", þá fer laglína "Let it be" þar upp á við en laglína "Ég á líf" niður á við.

Prófið þið þetta bara!

Og síðan er gamla laglínan: "I take the high road and you take the low road.." og samanburður hennar við "Ég á líf, ég á líf" til dæmis með því að syngja bæði lögin saman þannig að orðin "líf" og "road" standist á !


mbl.is Örlygur Smári segir mu!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Fyrir utan að það eru bara tólf nótur í áttund, er langt frá því að þær virki í hvaða röð sem er í lagi. Flest lög fara eftir fastri röð, t.d. er 1 - 4 - 5 dúr gríðarlega algengt. Það merkir fyrsti, fjórði og fimmti dúr-hljómur (major chord) í hverjum tónstiga.

1 - 6 (moll) - 4 - 5 algengt. Í tóntegund C-dúr er það C-dúr, A-moll, F-dúr og G-dúr hljómar, stundum skammstafað C-Am-F-G. Ef þið prófið að spila þessa fjóra hljóma á píanói - í þessari röð - ætti tugir af þekktum dægurlögum að koma upp í hugann.

Man eftir þessum þætti, alveg stórskemmtilegt viðtal.

Theódór Norðkvist, 4.2.2013 kl. 00:33

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Sex árum síðar tók ég annað ekki síðra viðtal við Ingimar, sem aldrei var sent út.

Í skemmtiprógramminu mínu 1986 var atriði sem ég man enn þar sem ég tók fyrir bæði helstu ættajarðarlögin okkar,s sem allir halda að sé svo íslensk og vinsælasta lagið hér heima á svipaðan hátt.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2013 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband