Síldarmannagötur. Af hverju?

Til norðurs upp hlíðina, rétt utan við botn úr Botnsvogs í Hvalfirði, liggja gamlar göngugötur sem heita Síldarmannagötur. Allt fram til ársins 1948 fannst mörgum þetta örnefni ekki liggja í augum uppi.

En það ár fylltist Hvalfjörður af síld svo að bátar og skip mokuðu henni upp og var meira að segja talsvert umstang við að ráða við þennan síldarafla. Sumt af síldinni var breitt á óbyggt svæði við Sjómannaskólann.

Vegna þessarar síldveiði og annarrar á þessum árum var keypt til landsins gamalt og lúið bræðsluskip, sem hlaut nafnið "Hæringur" og lá ónotað næstu árin við Ægisgarð í Reykjavíkurhöfnum og varð að athlægi fyrir bragðið. Svolítill 2007 bragur á því.

En nú lá ljóst fyrir hvers vegna Síldarmannagötur fengu það nafn.

Ég hef ekki séð eða heyrt haldbærar skýringar á því af hverju Hvalfjörður fylltist af síld 1948.

Margir kenna þverun Kolgrafafjarðar um það að milljarða virði af síld hafa farið þar forgörðum, en mig grunar að ekki sé auðvelt að finna skýringu á því af hverju hún leitar inn í þann fjörð öðrum fremur eða af hverju hún leitar ekki alveg eins inn á Faxaflóa og inn í Hvalfjörð.

Og spurningin er sú, hvort síldargöngurnar við norðavert Snæfellsnes verði jafn skammvinnar og síldarvöðurnar inn í Hvalfjörð 1948.

Munurinn á síldveiðinni þá og nú er sá, að þá var enginn kvóti og það var bara veitt eins mikið og mögulegt var.  


mbl.is Setja upp vöktun í Kolgrafafirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kannski þarf bara að erfðabreyta síldinni svo hún lifi af viðbjóðinn sem við fáum yfir okkur?


http://farmwars.info/?p=2927

Jón Páll Garðarsson (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 17:19

2 identicon

Það þarf varna henni innrásar undir brúna, og fæla hana frá með högg- eða hljóðbylgjum. Hljómar kannski út í hött.  En amk. flýr hún undan sel og hval... Því ekki að prófa?

Almenningur (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 18:04

3 identicon

   Hæringur var ekki ,,gamalt  og lúið bræðsluskip". Sjá  Wikipediu þar sem segir m.a.:

,,Hæringur var smíðaður í Buffalo 1901 og var því 47 ára gamall þegar hann kom til Íslands. Upphaflega var skipið til þess að flytja járngrýti, en síðar tók bandaríski herinn það í sína þjónustu á stríðsárunum. Hinir nýju íslensku eigendur létu breyta því og setja í það vélar til síldarvinnslu. Þetta var þó á þeim árum sem síldarveiðin brást við Íslandsstrendur."

Eiður (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 19:53

4 Smámynd: Skúli Víkingsson

Þarf ekki Umhverfisráðuneytið bara að banna síldinni þetta? Þar á bæ virðist bann vera lausn allra mála.

Skúli Víkingsson, 4.2.2013 kl. 20:24

5 Smámynd: Sævar Helgason

Það var meira en Hvalfjörður sem fylltist af síld 1947-1948. Síldin óð inn öll Sundin. Bátar voru að veiðum í Grafarvogi,Elliðaárvogi og Kollafirði. Ég man eftir ferð um helgi til að skoða þessa síldveiði ósköp frá Kjalarnesi skammt vestan Mógilsár.Bátarnir voru alveg uppi í harða landi. Og í framhaldinu var reist stór síldarverksmiðja í Örfirisey og Hæringur keyptur frá vesturströnd BNA. En síldin kom síðan ekkert meir á þetta svæði og báðar þessar síldarverksmiðjur nýttust ekki. Dyntóttur fiskur síldin.

Sævar Helgason, 4.2.2013 kl. 20:32

6 Smámynd: Jörundur Þórðarson

Ef betur er að gáð þá eru leifar af hlöðnum görðum bæði í Hvalfirði en einnig í Grafarvogi, sem virðast hafa haft þann tilgang að loka inni síldina þegar flæðir frá.

Jörundur Þórðarson, 4.2.2013 kl. 20:51

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt skal vera alveg rétt, takk, Eiður, sem sagt, nýjar bræðsluvélar. En 47 ára gamalt skip getur samt varla hafa verið talið nýtt enda var skipið illa útlítandi og vinsælt umfjöllunarefni í Speglinum.

Ómar Ragnarsson, 4.2.2013 kl. 21:28

8 Smámynd: Sævar Helgason

Ég þekkti nokkuð til Hærings þar sem faðir minn var þar vaktmaður í nokkur ár og ég heimagangur þarna. Skipið kom hingað í ágætu ástandi. Því var siglt frá Seattle um Pananaskurðinn og hingað heim. Mikil siglin. Ekkert kom upp á þeirri löngu leið. Það lagðist við Ægisgarð við heimkomuna og lá þar næstu árin. Það var síldarleysi við landið og því ekkert verkefni fyrir skipið. Dálítið var brætt af karfa þegar hann fór að veiðast uppúr 1952-3 . Það var það eina sem var brætt. Skömmu fyrir niðurrif var skipið sent norður undir Langanes og var eitthvað brætt af síld þar. En saga skipsins einkenndist af aflaleysi við Ísland. Og það var haft að háði og spotti sem arfavitlaus fjárfesting - á skemmtunum og í Speglinum. En það var fyrir þína tíma Ómar í gríninu- annars hefðu orðið til ódauðlegir textar um Hæring . :-)

Sævar Helgason, 4.2.2013 kl. 21:46

9 Smámynd: Jósef Smári Ásmundsson

Er ekki bara hægt að veiða síldina?Annars hef ég ekkert vit á þessu .Ekkert frekar en kötturinn.

Jósef Smári Ásmundsson, 4.2.2013 kl. 22:45

10 identicon

Free Willy er kannski ekki langt undan í þessu máli

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 4.2.2013 kl. 23:55

11 identicon

Hér eru nokkrar greinar um síldardauða:
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=80795&pageId=1164018&lang=is&q=dau%F0a+s%EDld
http://www.dagbladet.no/2012/01/02/nyheter/dyrenes_nyheter/innenriks/fiskedod/19632870/
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=189605&pageId=2484083&lang=is&q=dau%F0a+s%EDld
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=312281&pageId=4813545&lang=is&q=mar%FEvara

Dagur Bragason (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 00:28

12 identicon

 Sjá úrdrátt úr http://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%A1hyrningur

,,Háhyrningar eru algengir við Íslandsstrendur, á sumrin og haustin einna helst á síldarmiðum undan Austfjörðum, Suður- og Vesturlandi en þeir sjást allt umhverfis landið. Þeir elta oft síldar- og loðnuvöður inn í firði. Háhyrningar þurfa fæðu, fisk eða kjöt, sem samsvarar frá 2,5 til 5% af líkamsþyngd þeirra daglega og dýr sem er um sjö tonn þarf frá 175 til 350 kg af fæðu á dag. Háhyrningar eru mjög hraðsyntir og árið 1958 mældist eitt dýr synda 55,5 km/klst. í Kyrrahafi.[3]''

,,Háhyrningar eru eins og aðrir höfrungar mikil hópdýr, virðist flakkaraafbrigðið halda sig í fremur litlum hópum, fjölskylduhópum, 2 til 4 dýr, en staðbundna afbrigðið í fremur stærri, 10 allt upp í 50 dýr.

Háhyrningar éta fiska, skjaldbökur, seli, hákarla og jafnvel aðra hvali. Háhyrningavaða getur drepið stóra hvali.''

Ég gruna þá um gæsku

Baldvin Nielsen

B.N. (IP-tala skráð) 5.2.2013 kl. 20:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband