Meiri sveigjanleika?

Hlutfallsleg fjölgun aldraðra er viðfangsefni flestra þeirra þjóða sem komist hafa á stig iðnvæðingar, meiri þjóðartekjna og velferðar.

Hjá sumum þjóðum á Vesturlöndum byrjar ellilífeyrisaldur snemma á sjöunda áratugnum, og í ljósi þess að meðalaldur fólks í þessum löndum er komin yfir 80 ár, blasir við hve mjög lífeyrisþegum fjölgar og að inn í raðir þeirra koma stórir árgangar frá uppgangsárunum eftir Seinni heimsstyrjöldina.

Það er mjög mismunandi eftir aðstæðum hvers og eins hvort heppilegur aldur til lífeyristöku sé 63, 67 eða 70 ár.

Flugstjórar sem fljúga í áætlunarflugi og almennu leiguflugi verða að hætta 65 ára gamlir, en mjög mismunandi er í hvaða líkamlega og andlega ástandi þeir eru.

Sem dæmi má nefna að Magnús Nordal, sem varð að hætta störfum fyrir 17 árum, er enn í hópi allra bestu listflugmanna landsins, en til þess að fljúga slíkt flug eins og Magnús gerir, þarf afburða líkamlega og andlega hæfni þannig að Magnús er einstakt fyrirbrigði að þessu leyti.

Síðan eru aðrir sem um 65 ára aldurinn eru farnir að missa viðbragðsflýti og líkamsburði í miklum mæli.

Í tæknivæddu þjóðfélagi ætti að vera til aðferð til þess að laga þessi mál að mismunandi aðstæðum fólks, þannig að áfram geti fólk hætt í fastri vinnu fyrir sjötugt ef vinnugeta þess hefur skerst að ráði, en hins vegar haldið áfram ef hæfni þess og áhugi eru enn í góðu lagi.

Hitt er oft sárt fyrir margt fólk, sem er enn um sjötugt fullfært um að gegna störfum sínum og langar ekki til að vera kippt algerlega út úr vinnuumhverfi samfélagsins á einni svipstundu, að það fái ekki að vinna áfram ef mögulegt er og þá með sveigjanlegri eða minni vinnutíma eftir atvikum.

Það er mikið áfall fyrir manneskju, sem er sjötug og við ágæta heilsu og getur unnið, að minnsta kosti hlutastarf, að vera, tekin úr umferð og sett í stofufangelsi, ef svo má að orði komast, með lífeyri upp á 140 þúsund krónur á mánuði, eins og margir verða að sætta sig við. 


mbl.is Byrji á að hækka ellilífeyrisaldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband