15.2.2013 | 22:34
Lengi má lopann teygja.
Í meira en tvö og hálft ár hafa lögspakir menn í raun verið með nýja stjórnarskrá í vinnslu.
Fyrst voru þetta lögspekingar í stjórnlaganefnd, og afurð þeirra var næstum 800 blaðsíðna skýrsla með lögskýringum á öllum sviðum stjórnarskrár og í mörgum tilfellum voru settar fram tvær eða þrjár útfærslur á mögulegum ákvæðum í stjórnarskrá, og í sumum tilfellum vegna þess að lögspekingarnir voru ekki sammála.
Ástæðan er sú að lagasetning er ekki nákvæm vísindi eins og stærðfræðidæmi eða efnafræðiformúla, heldur geta lærðir og leikir verið ósammála um nánast hvað sem er.
Eitt besta dæmið er hundruð dóma Hæstaréttar þar sem dómararnir eru ósammála og meirihluti þeirra ræður.
Þegar stjórnlagaráð vann að frumvarpi um stjórnarskrána kom það upp að önnur af tveimur útfærslum var valin fram yfir hina og stundum sitt á hvað varðandi höfunda þeirra.
Fyrir bragðið urðu þeir auðvitað óánægðir í kross, sitt á hvað, og út á við var það útlagt þannig að þeir væru sammála um að gera "alvarlegar athugasemdir" við frumvarpið. ´Í vinnslu stjórnlagaráðs var allan tíman leitað stanslaust eftir álitum og athugasemdum og í stjórnlagaráði voru bæði lögfræðingar og stjórnmálafræðingar.
Auk þess var allt ferlið það opnasta sem um gat hér á landi og ótal aðilar notfærðu sér það að geta fylgst með og sent inn athugasemdir.
Eftir að þinginu hafði verið afhent frumvarpið 29. júlí 2011, kallaði það til sín sérfróða menn og hagsmunaaðila í löngum bunum mánuðum saman.
Stjórnlagaráðsfulltrúar störfuðu auk þess í fjóra daga í mars 2012 til að vinna úr spurningum og álitamálum.
Í vetur hefur svipuð vinna haldið áfram, haldin málþing, fengnar athugasemdir, sérstökum hópi lögfræðinga fengið það verkefni að fara yfir frumvarpið, ótal umsagnaraðilar fengnir til að gera álit, og einnig Feneyjanefndin svonefnda.
Nú er búið að kalla til enn eina lögfræðinganefndina til að skoða málið. Ofangreint sýnir að hægt yrði að halda áfram svona út í hið óendanlega.
Gott dæmi um eðli málsins er málþing í Háskóla Íslands í gær þar sem tveir prófessorar voru á öndverðum meiði um mannréttindakaflann og kom fram í máli annars þeirra, að sá þriðjungur álits Feneyjanefndarinnar hefði að miklu leyti byggst á misskilningi af því að nefndin hafði ekki í höndum þýdda greinargerð með kaflanum.
Það að halda áfram á þennan hátt er engin trygging fyrir því að málinu ljúki með stjórnarskrá, sem er nákvæmlega eins og hver vill.
Og þá er komin sú hætta að á endanum fáist engin niðurstaða, af því að alltaf verður fyrir hendi neitunarvald einhvers og málið því áfram á sama stað neitunarvalds og það hefur verið í 70 ár.
Slíkt má ekki gerast. Nú eru hundruð ef ekki þúsundir búnir að fjalla um frumvarpið í meira en tvö og hálft ár og meirihluti þátttakenda í þjóðaratkvæðagreiðslu búinn að láta þann vilja sinn í ljósi að ný stjórnarskrá taki gildi og verði byggð á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs.
Það er aðalatriði málsins sem og það að ekki er hægt að gera nema eina stjórnarskrá fyrir eina þjóð.
Stórt mál sem þarf að ræða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar minn. Aðalatriðin voru í spurningum 2-5, í þjóðaratkvæða-kosningunni þann 20. október. Þegar þau atriði eru komin í stjórnarskrána, þá má vinna restina af yfirvegun og rökræðu-festu, þar til öll ákvæðin eru komin í stjórnarskrá lýðveldis Íslands.
Nýja stjórnarskráin átti víst að fá nafnið: Ný stjórnarskrá Íslands.
Það gleymdist víst að taka lýðveldið með í nafnið á þeirri nýju, því hún heitir bara: Ný stjórnarskrá Íslands.
Hvers vegna gleymdist í þeirri nýju að nefna lýðveldið?
Gildandi stjórnarskrá heitir: stjórnarskrá lýðveldisins Íslands!
Þarf ekki að styrkja lýðveldið frekar en að veikja það?
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.2.2013 kl. 01:46
Það eru erlendir og innlendir fræðimenn um stjórnarskrárlög segja að það séu vankantar á þessu stjórnarskrárfrumvarpi.
Hvernig væri að fara efitr því sem Salvör Nordal fyrrverandi formaður stjórnarskrárlagaráðs hefur bent á, að fara yfir allar athugasemdir fræðimanna og laga það sem laga þarf.
En hún bendir á að það þarf meiri tíma í þetta heldur en er til þingkosninga í vor, ef það á að gera þetta rétt.
Stjórnarskrá er grundvöllur á öllum öðrum lögum landsins, þess vegna ætti að gera þetta rétt og gefa tíma í það.
Stjórnarskrá á ekki að vera pólitízkur fótbolti fyrir stjórnmálamenn.
Kveðja frá Houston.
Jóhann Kristinsson, 16.2.2013 kl. 03:15
Frumvarp til stjórnarskipunarlaga um stjórnarskrá lýðveldisins Íslands
Þorsteinn Briem, 16.2.2013 kl. 11:14
Garðálfurinn Jóhann kominn til Houston - Myndband
Þorsteinn Briem, 16.2.2013 kl. 11:34
Nei er ekki Steini mættur og farinn að tala við sjálfan sig.
Góða helgi Steini minn.
Kveðja frá Houston
Jóhann Kristinsson, 16.2.2013 kl. 15:13
1. grein nýju stjórnarskrárinnar hljóðar svona: Ísland er lýðveldi með þingræðisstjórn.
Hvernig í ósköpunum er hægt að hafa þetta skýrara, Anna? Þar að auki er þingræðið styrkt í nýju stjórnarskránni og forsetinn getur ekki farið fram hjá ríkisstjórn og Alþingi og myndað utanþingsstjórn með gamla laginu.
Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 01:19
Ómar hvað þýðir 1. greinin?
Tökum sem dæmi:
Núverandi Ríkisstjórn fær dóm frá Hæstarétti Íslands að það hafi verið framið lögbrot, en Ríkisstjórnin ákveður við förum ekkert eftir dómsorði Hæstiréttar.
Nú er ég ekki að tala um Stjórnlagaþing heldur önnur lagaleg afglöp núverandi Ríkisstjórnar.
Sem sagt hvað þýðir 1. grein, konungsríki eða einræðisríki þegar Ríkisstjórn fer ekki eftir því sem dómsstólar segja. Og erlendir dómsstólar forget about it.
Hver á að sjá um að Ríkisstjórn sem fer ekki eftir dómsorði Hæstaréttar, geri það?
Kveðja frá Houston.
Jóhann Kristinsson, 17.2.2013 kl. 02:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.