Gamall draumur minn: "Naumhyggjubílasafn."

Örbílasafnið sem fjallað er um á mbl.is hef ég þekkt nokkuð lengi. Það er Madison í Georgiuríki í Bandaríkjunum og eitt af aðeins þremur örbílasöfnum í heiminum, sem ég hef fundið á netinu. Þá er ekki tekið með í reikninginn að á safni NSU-verksmiðjanna í Neckarsulm í Þýskalandi má sjá nokkra örbíla og í safni Jay Leno má finna örbíla.

Ég hef í 15 ár verið með augað á íslenskum örbílum til að bjarga þeim frá glötun. Árin 2005 til 2007 voru drjúg í þessu því að þá þóttu engir bílar með bílum nema þeir væru meira en þrjú tonn og með minnst 300 hestafla vélar og þeim bílum, sem þóttu hallærislega litlir var hent miskunnarlaust.

Þá fékk ég nokkra af á annan tug smábíla, sem ég hef skotið undan eyðingu, og jafnvel fengið gefins. DSCF6002

Myndin hér er af einum örbílanna minna, minnsta Mini í heimi og minnsta bíl á Íslandi. Þægilegur í þröngri umferð og nýtur sín best þar sem bílastæðaskortur er mestur!

Ég á mér gamlan draum um íslenskt örbílasafn eða öllu heldur "naumhyggjubílasafn".

Skilyrði fyrir sessi bíls á slíku safni er að viðkomandi bíll sé eða hafi á einhverjum tíma verið minnstur eða ódýrastur á Íslandi, annað hvort í heildina eða í sínum flokki.  

Kosturinn við slíkt safn er sá, að eðli málsins samkvæmt þarf til þess minnsta mögulega húsnæðið, sem hægt er að hafa bílasafn í, miðað við fjölda bílanna.

Ég geymi til dæmis fjóra örbíla í litlum bílskúr vestur í bæ, sem annars tæki bara einn bíl. IMGP0280Örbílarnir gefa möguleika til nota og ferða sem eru miklu meiri en sýnast í fljótu bragði. Þannig hefur þessi rauði Fiat 126 skilað mér um allt land, út til ystu stranda í kringum landið og um hálendið, jafnvel leiðir sem fáir leggja í að fara. Á myndinni er hann staddur á svonefndri Álftadalsleið í brekku fyrir ofan Fagradal með Herðubreið í baksýn.   IMG_3014

Örbílarnir hafa þann stóra kost, að þeir eru afar praktiskur svefnstaður vegna þess að svefnrýmið í slíkum bíl með miklum farangri er svo lítið, að bíllinn fer að nálgast ígildi svefnpoka.

Annar rauður örjeppi Suzuki Fox´85, sem er minnsti jöklajeppi landsins, hefur farið í margra daga ferðir um Vatnajökul og sést á myndinni með einum af stærri jöklajeppum landsins.  

Ef einhver veit af auðu húsnæði sem gæti hentað fyrir íslenskt örbílasafn með bílum, sem allir eiga sér merka sögu, þætti mér vænt um að frétta af því.


mbl.is „Pínulítið“ bílasafn til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Borgarstjórinn í Reykjavík er sjálfsagt tilbúinn að aðstoða þig í þessu máli, Ómar Ragnarsson.

Netfangið hans er
borgarstjori@reykjavik.is

Um 650 þúsund erlendir ferðamenn komu hingað um Leifsstöð í fyrra og ef einungis 3% þeirra hefðu séð örbílasafnið og greitt fyrir það 500 krónur hefði aðgangseyrir þeirra verið samtals um tíu milljónir króna.

Reykjavíkurborg gæti fengið aðgangseyrinn og greitt með honum rekstur safnsins, ef þér líst vel á það.

Þorsteinn Briem, 16.2.2013 kl. 14:25

2 Smámynd: S i g u r ð u r   S i g u r ð a r s o n

Líst vel á Súkkuna. Þyrfti að prófa að eiga svona jeppa, praktískt í blakheitunum.

S i g u r ð u r S i g u r ð a r s o n, 16.2.2013 kl. 17:16

3 identicon

Hvað varstu að gera á Strawberries?

Þjóstólfur (IP-tala skráð) 16.2.2013 kl. 18:09

4 identicon

Líst vel á örbílasafn, en hví ekki líka að horfa til framtíðar og þróa nýja örbíla fyrir aðstæður sem henta Íslandi?

Ég er lengi búinn að bíða eftir faratæki eins og þetta sem eyðir 2,5 lítrum á hundraðið og er gríðarlega skemmtilegt í akstri.

http://www.flytheroad.com/ :)

Geir Guðmundsson (IP-tala skráð) 17.2.2013 kl. 16:35

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég hannaði 2ja manna bíl fyrir meira en 50 árum, sem væri 2,50 x 1,10, með ca 300 cc vél, næði 160 kílómetra hraða og eyddi 2,5 á hundraðið.

Með "canopy" þaki og sest ofan í hann eins og baðkar.

Hægt að leggja þversum í stæði og leyfilegt að aka tveimur hlið við hlið á akrein.

Ómar Ragnarsson, 17.2.2013 kl. 21:54

6 Smámynd: Villi Asgeirsson

Held þú ættir að skoða hugmyndina sem Steini Briem kom með. Svona safn yrði alger snilld og myndi standa undir sér miðið við útreikningana í fyrstu athugasemd.

Minn draumur er að eignast Mözdu MX-5, en það er ópraktískt því ég er með kríli og konu. Hann er tveggja sæta. En þar sem við erum með tvo bíla og ég nota minn yfirleitt bara í og úr vinnu, skelli ég mér kannski á svoleiðis næst. Hann er sennilega of stór í Örbílasafn, en það munar ekki miklu.

Villi Asgeirsson, 17.2.2013 kl. 22:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband