18.2.2013 | 20:24
Tillaga um friðun hjarta Rauðarárholts.
Um allt land má sjá húsahverfi, sem reist voru á árunum 1935-1960, og geyma byggingarstíl, sem er séríslenskur að því leyti, að notaður var skeljasandur sem húðun á útveggjum.
Í tísku var að hafa glugga á hornum húsa og stóðust þeir illa íslenskt veðurfar.
Norðurmýrin í Reykjavík er gott dæmi um þetta en er of stórt hverfi til þess að hægt væri að beita friðun til að varðveita þá sögu sem það geymir.
Enda er til annað hverfi og minna sem segir þjóðfélagssöguna frá 1935-1960 betur, en það er kjarni byggðarinnar á Rauðarárholti. Hjartað í byggðinni, sem er þríhyrningslöguð, er þríhyrndur leikvöllur sem hefur röð verkamannabústaða í kringum sig við göturnar Háteigsveg, Einholt og Meðalholt.
En skemmtilegasta gatan er norðan Meðalholts, af því að í nyrðri húsaröðinni við hana eru myndarleg hús, byggð af einkaframtakinu, þannig að segja má, að við þá götu sé sósíalurinn öðrum megin og kapitalið hinum megin. En öll húsin þó húðuð utan með skeljasandi.
Í næstu götu norðan við Stórholt eru síðan nýrri verkamannabústaðir, stærri og veglegri en þeir sem eru við Stórholt, en það segir sína sögu um þá byltingu í lífskjörum sem stríðið færði Íslendingum.
Við sunnanverðan Háteigsveg og Flókagötu eru síðan mun glæsilegri hús en annars staðar í hverfinu og sum hver vitni um flottan og merkilegan arkitektúr.
Mér finnst ekki sama hvernig staðið yrði að friðun á borð við þessa, því að hún má ekki verða íþyngjandi fyrir húseigendurna. Ef dýrara er að endurnýja múrhúðun húsanna með skeljasandi en á annan hátt þarf að bæta eigendunum upp þann mismun.
Ég viðurkenni að einhverjir telji mig kannski vanhæfan til að setja þessa hugmynd fram, af því að ég ólst upp í Stórholtinu, en það verður þá bara að hafa það.
En þá er ótalið eitt það skemmtilegasta við hverfið, sem á sínum tíma var eins og þúsund manna þorp með víðavangi á allar hendur, en það var það, hve margt þekkt fólk og merkilegir karakterar, ólust þar upp eða áttu heima þar samtímis í rúman áratug á aðeins um 200 metra löngu svæði efst frá mótum Stórholts og Háteigsvegar niður að neðsta hluta Stórholts.
Hér er listi með 30 nöfnum, talið neðan frá og upp eftir, en miðjan á þessum 200 metrum er lítil smágata, sem tengir saman Meðalholt og Stórholt:
Oddur sterki af Skaganum - Sólveíg Pétursdóttir, forseti Alþingis, - Pétur Hannesson, framámaður í Sjálfstæðisflokknum, - Helena Eyjólfsdóttir, söngkona, - Bjarni Böðvarsson, hljómsveitarstjóri, - Ragnar Bjarnason, tónlistarmaður, - Pétur Pétursson, útvarpsþulur, - Ragnheiður Ásta Pétursdóttir, útvarpsþulur, - Kristján Kristjánsson (KK) hljómsveitarstjóri, - Pétur Kristjánsson, tónlistarmaður, - Baldur Scheving, knattspyrnumaður, - Ámundi Ámundason, umboðsmaður, - Örn Arnar, skurðlæknir, - Gunnar V. Andrésson, ljósmyndari, - Hafsteinn Björnsson, miðill, - Ingólfur Guðmundsson (Hólakots), byggingarmeistari, , - Jónína R. Þorfinnsdóttir, kennari, formaður Hvatar og fleiri félaga, - Jón R. Ragnarsson, rallkappi (bílaíþróttamaður síðustu aldar), - Sigríður Hannesdóttir, - verkalýðsfrömuður, - Magnús Guðmundsson, leigubílstjóri, ("Snæra-Mangi", varð 100 ára), - Jói svarti, - Hilmar Karlsson, kvikmyndagagnrýnandi, - Katrín Héðinsdóttir (Valdimarssonar) , - Eyþór Gunnarsson, læknir, - Gunnar Eyþórsson, fréttamaður, - Eyþór Gunnarsson, tónlistarmaður, - Sigurður Árnason, afabróðir Árna Páls Árnasonar, - Friðrik Þór Friðriksson, kvikmyndagerðarmaður, - Kristín Ólafsdóttir, söngkona og borgarfulltrúi, - Ólafur Georgsson, bankastjóri, - Georg Ólafsson, verðlagsstjóri.
P. S. Fyrir 15 árum gerði ég brag um hverfið fyrir samkomu Holtaranna (Holtabísaranna) , sem ég hef týnt. Ef einhver gömlu Holtaranna lumar á honum væri vel þegið að fá hann í hendur.
Metfjöldi húsa friðaður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.