Eru draugar á ferð?

Á sínum tíma gáfu ríkisstjórnir Davíðs og Halldórs svo miklar eftirgjafir og fríðindi í sambandi við stóriðju og virkjanaframkvæmdir tengdar henni, að það væri of langur listi til að fara að telja hér upp þennan langa lista af alls kyns niðurfellingum eða eftirgjöfum á gjöldum.

Sem dæmi má nefna að allan virkjanatíma Kárahnjúkavirkjunar fékk Impregilo ókeypis rafmagn hjá Landsvirkjun fyrir risabora sína og starfsemi, sem þurfti svo mikla orku, að Lagarfossvirkjun í heilu lagi þurfti til að anna henni einni.

Ef nú á að fara að leika svipaðan leik á nýjan leik á Húsavík er verið að vekja upp gamlan draug.

En draugarnir eru fleiri.

Þegar Kárahnjúkavirkjun var í meðferð hjá umhverfisráðuneytinu var hún samþykkt með "20 ströngum skilyrðum" sem höfðu í raun enga þýðingu fyrir hin hrikalegu óafturkræfu umhverfisspjöll, sem voru hin mestu mögulegu í nokkurri framkvæmd á Íslandi.

Eitt hinna "ströngu" skilyrða var að hrófla ekki við svonefndum Tröllkonustíg í Vaþjófsstaðafjalli, sem væri í aðeins þriggja metra fjarlægð frá útfallinu út úr fjallinu.

Hið rétta var að Tröllkonustígurinn er í þriggja kílómetra fjarlægð og kom virkjuninni ekkert við!

Prentvilla varð að "ströngu skilyrði"!

Annað skilyrði var að vatn úr tjörnum eða litlum stöðuvötnum, sem lægju fyrir ofan göngin, mætti ekki leka ofan í göngin svo að tjarnirnar þornuðu! Algerlega gagnslaust skilyrði. Hvernig hefði átt að stoppa þann leka ef hann hefði orðið? Með því að kítta botninn á stöðuvötnunum?

Eitt skilyrði var það að stöðva leirfok úr 35 ferkílómetrum af nýjum leir snemmsumars á hverju ári í þurru lónstæði Hálslóns með því að láta flugvélar fljúga yfir svæðið og dreifa rykbindiefnum!

Í grein atvinnuvegaráðherra um leyfi til leitar og vinnslu á olíu á Drekasvæðinu í Fréttablaðinu um daginn var ekki minnst á vinnsluna í fyrirsögninni og þurfti að skoða greinina vel til að sjá orðið vinnslu nefnda.

Í greininni var kunnuglegt orðalag um strangar kröfur um umhverfismál og öryggi sem væru algerlega á forræði Íslendinga að setja og fylgja eftir, frasar sem hvaða mjúkmáll ráðherra Sjalla eða Framsóknar hefði getað notað.

Halda menn að erlend fyrirtæki, sem ætla að eyða tugum milljarða í olíuleit muni taka því bara rétt si svona ef þeir fái ekki að hefja vinnsluna líka?

Að sjálfsögðu munu þeir setja á okkur þrýsting með beinum eða óbeinum hótunum um skaðabætur ef við mökkum ekki rétt.

Engin málefnaleg, djúp, framsýn eða siðræn umræða hefur farið fram um þetta stóra grundvallarmál, heldur standa menn i raun frammi fyrir gerðum hlut í andanum "take the money and run" sem 80% þjóðarinnar lýsa yfir fylgi við í skoðanakönnun þar um.

Og þegar peningarnir koma þar á ofan í "rétt" kjördæmi þarf ekki að spyrja að leikslokum, sem reynt er að fela inn í umbúðum af innihaldslausum loforðum um vönduð vinnubrögð þegar þar að kemur.

Vísindamenn sem ég hitti á Kárahnjúkasvæðinu fyrir virkjun sögðust bara vera að vinna vinnu, sem þeim hefði verið boðin, og að ef þeir hefðu hafnað henni, hefðu hvort eð er aðrir verið fengnir í djobbið.

En síðan fylgdi oftast með þessi setning: "Blessaður vertu ekki að eyða tímanum í að fylgjast með þessu eða hafa áhyggjur. Þetta er svo tryllingsleg og áhættusöm hugmynd að það er engin hætta á að hún verði framkvæmd."

Ég skynja draugagang eftir Hrunið og óttast þetta séu ekki bara draugar, heldur gamalkunnug tröll sem séu enn á lífi.   


mbl.is „Alls óvíst hvar sú vegferð endar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Á Húsavík þeir hugsa feitt,
hárið Steingríms niðurgreitt,
allt er Grænna eðlið breytt,
undir Sjöllum liggja sveitt.

Þorsteinn Briem, 19.2.2013 kl. 09:46

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er ekki í fyrsta skipta sem þú vitnar í "drauga" máli þínu til stuðnings, eins og þessi tilvitnun þín er til vitnis um:

En síðan fylgdi oftast með þessi setning:  "Blessaður vertu ekki að eyða tímanum í að fylgjast með þessu [Kárahnjúkar] eða hafa áhyggjur. Þetta er svo tryllingsleg og áhættusöm hugmynd að það er engin hætta á að hún verði framkvæmd."

Engin hætta er á því fyrir þig Ómar að þú þurfir að standa við svona bull, það veistu.

Þetta sem þú kalla "eftirgjafir og fríðindi" geta verið réttlætanlegar þegar heildar myndin er skoðuð. Slíkt er mat hverju sinni og ákvarðanir eru teknar á viðskiptalegum forsendum. Engir "draugar" koma þar við sögu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.2.2013 kl. 15:38

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Í bréfi lögfræðings Landsvirkjunar til landeigendanna sem héldu að þeir fengju svo marga milljarða fyrir vatnsréttindin standa þessi orð, sem ætlað er að sýna þeim fram á, eftir að virkjunin var komin á fullt, að kröfur þeirra um þessa milljarða væru óraunhæfar:

"Virkjunin er erfið og áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti, - er í raun eyland í raforkukerfinu og rýrir það meðal annarra þátta gildi vatnsréttinda við Kárahnjúka."

Þetta var það sem viðmælendur mínir við á Kárahnjúka voru að segja mér, en þú kallar sem sé þessa lýsingu Landsvirkjunar sjálfar "bull, sem ég þurfi ekki að standa við".

Ómar Ragnarsson, 19.2.2013 kl. 22:04

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Virkjunin er erfið - það er hárrétt enda framkvæmdin talin verkfræðilegt afrek

áhættusöm jaðarframkvæmd í landfræðilegu-, tæknilhegu-, umhverfislegu- og markaðslegu tilliti - þetta er líka rétt. Engin fjárfesting er án áhættu. Til að verkefnið skilaði hagnaði þurfti margt að ganga upp. Þó var gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði og allt var innan ramma áætlana þrátt fyrir nokkrar tafir á verkinu.

Þessi rök voru réttilega notuð af Landsvir kjun gagnvart landeigendum sem vildu verða miljarðamæringar á kostnað íslenskra skattgreiðenda.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2013 kl. 00:41

5 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

En hvað ætli draugurinn hafi heitið sem sagði:  "Þetta er svo tryllingsleg og áhættusöm hugmynd að það er engin hætta á að hún verði framkvæmd."

Þessi fullyrðing er í engu samræmi við bréf lögfræðingis LV til landeigenda, sem vildu baða sig í peningum líkt og Jóakim frændi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2013 kl. 00:46

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Virkjunin fór fram úr áætlun, bæði hvað snertir kostnað og tíma. Arðsemin var lægri en svo að nokkur einkafyrirtæki hefði farið út í hana.

Forstjórinn hefur upplýst að arðsemin hafi frá byrjun til þessa dags verið neðan við viðunandi mörk.

Ákveðið var að bora alls staðar rannsóknarholur til að kanna jarðlög á þeim 70 kílómetrum sem fyrirhuguð vatnsgöng áttu að liggja um, nema á um 7 kílómetra kafla þar sem mátti sjá mikið og samfellt misgengi úr lofti.

Svo vel vildi til fyrir áhættufíklana að þetta svæði var á miðri leið milli Kárahnjúka og Fljótsdals þannig að það yrði borað síðast og talsmaður virkjunarinnar lýsti ákvörðuninni svona: "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var."

Það tók meira en hálft ár að komast í gegnum þetta svæði og á einum stað liggja göngin í gegnum 9 metra breiða sprungu, sem varð að fylla upp með steypu sem síðan var borað í gegnum.

Fyrirfram vissi enginn hve djúpar né breiðar þessar sprungur voru en það var ákveðið að sleppa því að skoða það og láta bara vaða, af því að ef þetta misheppnaðist ætluðu menn að láta þjóðina borga það hvort eð var, svo að notað sé viðeigandi Kárahnjúka-orðalag.

Kárahnjúkastífla liggur ofan á þrettán sprungum, Fremri-Kárahnjúkur er eldfjall og því var leynt að við Stapana voru bergtegundir eins og sjást í eldfjöllum og heit laug þar skammt frá.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2013 kl. 02:58

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég get bætt því við að sagt var fyrirfram að rannsóknarboranirnar hefðu verið eindregið jákvæðar, sem var ígildi ósanninda, því að ofan frá mátti glögglega sjá misgengissvæðið, sem ég uppgötvaði að vetrarlagi og neyddi verkfræðinginn til að játa að sæist vel, þótt því hefði verið leynt.

Ómar Ragnarsson, 20.2.2013 kl. 03:00

8 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kostnaðurinn fór EKKI fram úr áætlun þegar tekið er tillit til liðsins  "ófyrirséður kostnaður".  Oftast er gert ráð fyrir5-10% svigrrúmi í svona viðamiklum verkefnum og umframkostnaður var langt innan við það.

Arðsemiskrafa er hærri í dag á svona framkvæmd en fyrir áratug og mun sennilega fara hækkandi og það er vel. Ef lífeyrissjóðirnir hefðu fjárfest í framkvæmdinni í upphafi, þá stæðu þeir afar vel í dag, sem sýnir hvesu góð þessi framkvæmd var í raun, enda eru ekki nema um 15-20 ár þangað til orkusalan hefur borgað framkvæmdina í topp. Eftir það eru peningarnir sem Alcoa greiðir fyrir rafmagnið "beint í lommen" fyrir LV.

Gunnar Th. Gunnarsson, 20.2.2013 kl. 14:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband