Gömul saga og ný.

Það er gömul saga og ný að þegar kastasti í kekki með mönnum innan stjórnmálaflokkanna aukast líkurnar á svonefndum sérframboðum. Og sagan geymir dæmi um þingmenn utan flokka eins og Gunnar á Selalæk, sem hafði vit fyrir mönnum í krafti oddaaðstöðu sinnar 1931 þegar öldur risu hátt út af þingrofi.

Kosningalögin eftir kjördæmabreytinguna 1959 voru þannig, að fylgismenn svipaðrar stefnu áttu möguleika á að bjóða fleiri en einn lista fyrir sama stjórnmálaflokkinn, þ. e. bæði D og DD eða B og BB.

Kosturinn við þetta var sá að þá ónýttust engin atkvæði fyrir móðurflokknum þegar úthlutað var uppbótar- eða jöfnunarþingmönnum. En yfirleitt höfnuðu flokkarnir þessari leið samt.

Sérframboðin eru orðin mörg og í kjördæmi Jóns Bjarnasonar má nefna framboð Sigurlaugar Bjarnadóttur í hópi Sjálfstæðismanna og Framsóknarmannsins Ingólfs Guðmundssonar, sem ekki skiluðu þingsæti.

Stefán Valgeirsson komst hins vegar á þing og gat nýtt sér aðstöðu sína til þess að fá ígildi ráðherrastóls og koma málum sínum betur fram en fyrr á meðan hann hafði líf ríkisstjórnarinnar í hendi sér.

Í norðvesturkjördæmi þarf tvöfalt færri kjósendur en á höfuðborgarsvæðinu til þess að koma manni að.

Sem dæmi um það hvernig misvægi atkvæða getur ráðið miklu má nefna, að ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi 2007 hefði Íslandshreyfingin komið tveimur mönnum á þing í stað þess að fá engan.

Vel er hugsanlegt að Jón eigi meiri möguleika en þau Sigurlaug og Ingólfur á sinni tíð. Þau buðu fram í kjördæmum með færri þingmönnum og þurftu því hlutfallslega meira atkvæðamagn.

Á móti kemur að þau voru klofningsframboð úr stærri flokkum en Vg er núna, þótt Vg hafi reyndar náð mjög góðum árangri í Norðvesturkjördæmi 2009.

  


mbl.is Líkur á sérframboði Jóns aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í síðustu alþingiskosningum voru að meðaltali 2.888 atkvæði á bak við hvern þingmann á öllu landinu en 1.848 atkvæði í Norðvesturkjördæmi.

Munurinn er 56%!!!

Þorsteinn Briem, 20.2.2013 kl. 16:00

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekkert hefur fram að færa,
en fýsnin ærir klofið,
Jón er bara gráhærð gæra,
með gamalt haftið rofið.

Þorsteinn Briem, 20.2.2013 kl. 16:20

3 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er náttúrulega útilokað að hann komist á þing.

Tilgangurinn hlýtur að vera að kveðja sinn gamla flokk með því að reyna að skemma eins mikið og hugsanlegt er.

2003 og 2007 fengu VG 1 mann í NV. það er svona fast fylgi lengst til vinstri á því svæði. Einn maður.

þessi eini maður gæti vel verið í hættu ef framboðin verða svona mörg og ef Jón bætist við líka - þá gæti þessi eini maður VG verið í hættu í NV.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.2.2013 kl. 16:31

4 Smámynd: Sigurður Antonsson

Misvægi atkvæða virðist vera óbreytanlegt vegna afstöðu Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Hvers vegna ættu Vestfirðingar að hafa meiri atkvæðisrétt en aðrir? Íslandshreyfingin væri kannski á lífi í dag hefði hún komið manni að 2007. Breytti það einhverju? Hrunið fylgdi í kjölfarið og kjósendur voru niðurlægðir enn meira.

Sigurður Antonsson, 20.2.2013 kl. 18:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband