Ávöxtur þátttöku í alþjóðlegu samstarfi.

Þegar við Íslendingar gerðumst aðilar að Chicago-sáttmálanum 1944 var lagður grundvöllur að þátttöku okkar á ýmsum sviðum í alþjóðlegu samstarfi á landi, hafi og í lofti.

Uppbygging mikils flugrekstrar eftir stríðið og stjórn okkar á flugumferðarstjórn yfir Norður-Atlantshafi eru ávöxtur af þessu samstarfi, sem að sjálfsögðu kostar afsal á ríkisvaldi allra samstarfsaðilanna til hinna alþjóðlegu samtaka og reglna, sem um málefnin gilda.

Kostir svona samstarfs eru augljósir og birtast meðal annars í tengdri frétt við pistilinn um aukin umsvif í flugvirkjun og kennslu hér á landi, sem væru óhugsandi nema vegna þess að við erum aðilar að Alþjóða flugmálastofnuninni og Flugöryggisstofnun Evrópu.

Gallarnir eru fólgnir í óhóflegu skrifræði, sem bitnar oft á einstökum greinum eða sviðum málefnanna. Þannig hef ég gagnrýnt atriði sem hafa bitnað á litlum flugvélum, en sú gagnrýni hefur líka verið öflug í öðrum Evrópulöndum.

En ef við værum ekki í þessu alþjóðlega samstarfi væri hægt að afskrifa allan flugrekstur hér á landi og ekki aðeins það, heldur myndi það hafa svo stórfelld áhrif á ferðaþjónustuna í heild að um er að ræða marga tugi milljarða króna á hverju ári.

Lífskjör hér á landi byggjast þar að auki á því að hafa aðgang að nægilegum flugflota til þess að flytja fisk okkar sem fljótast á erlenda markaði í samfelldu daglegu flugi. Annars myndi verðið sem við fáum fyrir fiskinn stórlækka.

Forsendan fyrir þessu er að allt, sem tengist fluginu hér á landi, sé í samræmi við alþjóðlegar reglur, ekki bara flugvélarnar sjálfar og flugreksturinn, heldur líka öll aðstaða, flugvellir og flugleiðsögukerfi.

Sem dæmi má nefna, að ef flugvöllur minn á Brúaröræfum, Sauðárflugvöllur, hefði ekki farið í gegnum umfangsmikið ferli til að uppfylla allar kröfur, sem gerðar eru til flugvalla af hans tagi, þá væri hann ekki nothæfur fyrir neinar flugvélar nema þær örfáu sem eru tryggðar sérstaklega fyrir lendingar utan skráðra og viðurkenndra flugvalla.

Þar með gæti hann ekki nýst til afnota fyrir allar flugvélar sem eru notaðar í innanlandsflugi á Íslandi eins og er tilgangurinn á bak við tilvist hans.

Það má yfirfæra þetta yfir á mörg önnur svið þjóðlífsins og það var ekki að ástæðulausu að vísustu forystumenn þjóðanna stóðu fyrir stofnun Sameinuðu þjóðanna í stríðslok.


mbl.is Nýtt alþjóðlegt nám í flugvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Ísland á aðild að fjölmörgum alþjóðastofnunum þar sem teknar eru ákvarðanir um sameiginleg markmið og reglur sem aðildarríki eru skuldbundin til að innleiða og hafa æ meiri þýðingu að innanlandsrétti.

Stór hluti íslenskra réttarreglna á uppruna sinn í alþjóðaskuldbindingum
og þannig eru áhrif þjóðaréttarins og alþjóðasamstarfs á íslensk lög og réttarskipan ótvíræð."

Þjóðaréttur, Björg Thorarensen og Pétur Dam Leifsson, 2011, bls. 12.

Þorsteinn Briem, 22.2.2013 kl. 13:04

2 Smámynd: Róbert Björnsson

Vegna þess að Íslendingum er svo annt um "fullveldið" og kjósa að standa utan ESB - þurfa tilvonandi flugvirkjanemar hjá Keili/AST að punga út 22,000 sterlingspundum (4.4 milljónum króna) í skólagjöld.  Sami pakki kostar um 8,000 pund fyrir ríkisborgara frá ESB landi.

Eigi íslenski námsmaðurinn svo ekki 4.4 milljónir í íslenskum matador-peningum á lausu þarf hann væntanlega að taka verðtryggt okurlán fyrir herlegheitunum í þokkabót...auk hefðbundinna námslána (sem dekka ekki skólagjöldin). 

Nýútskrifaður íslenskur flugvirki stendur því ekki beinlínis jafnfætis evrópskum kollegum sínum að loknu námi og þarf væntanlega helst að þræla í nokkur ár í Sádí Arabíu til þess að borga niður lánin...áður en hann hefur efni á því að þyggja láglaunastarf í Keflavík. 

Þrátt fyrir allt kann þó að vera að þetta borgi sig...því með alþjóðlegt prófskírteini í vasanum hefur viðkomandi keypt sér undankomuleið...frá Klakanum.

Róbert Björnsson, 22.2.2013 kl. 13:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband