Sálfræðilegt mestan part.

Þegar menn fóru að leggjast í löng ferðalög um auðnir norðurhjarans og suðurhjarans rákust menn fljótlega á ákveðnar sálfræðilegar hindranir, sem sköpuðust vegna einangrunarinnar og þess tilbreytingarleysis, sem hún veldur.

Þetta lýsti sér oft í vaxandi óþoli leiðangursmanna gagnvart hver öðrum þannig að smámunir urðu að stórmálum, sem stundum leiddu til átaka.

Flestir leiðangursmenn okkar tíma þekkja þetta og reyna að gera ráðstafanir til þess að draga úr þessu.

Það er nefnilega þannig, að alveg er sama hversu miklir skapprýðismenn menn eru í venjulegu daglegu lífi, að við óvenjulegar aðstæður í löngu ferðalagi í litlum hópi, allt niður í 2 til 3 mann getur framkallast versnandi sálarástand og ergelsi yfir smæstu hlutum.  

Hluti af því að draga úr þessu getur verið að reyna á reglubundinn hátt að veita mönnum tilfinnningalega útrás í stað þess að leyfa óþolsástandi að byggjast upp, uns þögnin er skyndilega rofin í bræðiskasti.

1999 var farin fyrsta og eina jeppaferðin fram og til baka þvert yfir Grænlandsjökul.

Arngrímur Hermannsson leiðangursstjóri var greinilega vel meðvitaður um það, hve miklu skipti að halda uppi góðum anda í svo löngu ferðalagi um endalausar auðnir.

Að minnsta kosti sá hann um það á bakaleiðinni, þar sem ég slóst í för með hópnum, og stóð tæpa viku, að láta menn viðra skoðanir sínar reglulega, jafnvel í talstöðvunum á ferð, og liggja ekki á því að koma þeim á framfæri um allt það, sem gæti valdið núningi.

Fyrir bragðið var ferðin öll ógleymanleg og síðasti kaflinn ofan af jöklinum að vestanverðu, sem var fáránlega erfiður og kostaði vöku og erfiði leiðangursmanna í tvo sólarhringa, hverfur ekki úr minni.

Á miðri leið ókum við fram á hjón, sem dvöldust í tjaldi við yfirgefna ratsjárstöð á hájöklinum og höfðu þann starfa að leiðbeina Hercules skíðaflugvélum bandaríska hersins þegar þær flugu upp á jökulinn til þess að æfa lendingar á snjó.

Þegar konan kom til tjalddyranna og sá jeppana, fór hún alveg yfirum. Hún hló eins og fábjáni og hagaði sér eins og hún væri að missa glóruna þegar hún hrópaði upp:

"Nei, nei! Þetta er ekki satt! Þetta er ekki að gerast! Boeing 747 á skíðum, já! Skemmtiferðaskip, já ! En bílar, nei, nei, nei! Þetta er bilun! Þetta er blekking! Þetta eru sjónhverfingar! 

Svo að ég skil vel að Vilborg Anna Gissuardóttir hafi farið í gegnum tilfinningarússíbana í lok sinnar miklu göngu á suðurpólinn.


mbl.is Tilfinningarússíbani undir lokin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sævar Óli Helgason

Þetta þekkist einnig á sjónum...Sumir geta orðið alveg snar vegna langrar útiveru, einsog þekktist á "saltinu" í gamladaga... Semog þegar frystitogararnir voru að koma... Það lá stundum við að hnífabardagar yrðu um borð í sumum döllunum...

Það var einnig í fyrstu "Smugu-"túrunum... Og frægt dæmi þegar læknirinn sem sendur var með varðskipinu Óðni sendi eitt skipið í land í Noregi, til að skipta um áhöfn, eftir að menn fóru að stytta sér aldur um borð...

Sævar Óli Helgason, 22.2.2013 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband