Löngu tímabært.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem ég gaf út í september 2006 færði ég að því rök að Torfajökulssvæðið eitt og sér væri miklu merkilegra en Yellowstone, hvað þá svæðið milli Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. 

IMG_0364

Rökin voru þau, að ef ég færi í tvær hliðstæðar ferðir á þyrlu með ferðamenn og lenti á 10 bestu útsýnisstöðunum á íslenska svæðinu og síðan á 10 bestu útsýnisstöðunum í Yellowstone myndu menn á öllum stöðunum hér heima hrópa upp yfir sig: Vaááá! en kannski á 2-3 stöðum í Yellowstone.

Eina hverasvæðið í Yellowstone, sem á ekki jafningja hér á landi er Mammoth Hot Springs,  og Old Faithful er magnaðri en Strokkur, en Strokkur samt iðnaðri.

En þar með er það upp talið.

Í Yellowstone er lítið hrafntinnusvæði sem þeir halda varla vatni yfir þarna vestra en er brotabrot af Hrafntinnuhrauninu við Hrafntinnusker.

IMG_0414

Yellowstone á enga hliðstæðu við Jökulgil, Mógillshöfða, Loðmund, Ljótapoll, Frostastaðavatn, Námshraun, Landmannalaugar, Kýlinga, Brandsgil, Blámannshatt eða Vatnaöldur.

Og enga gönguleið sem kemst í hálfkvisti við Laugaveginn.  

Og með því að taka inn í svæðið beint framhald þess til austurs og norðaustur bætast við fyrirbæri eins og Veiðivötn, Hraunvötn, Langisjór, Sveintindur, Uxatindur, Eldgjá og Lakagígar.

Sú mun koma tíð sem menn munu undrast allar þær virkjanaframkvæmdir á þessu svæði sem þrýst hefur verið á að framkvæma, þegar ljóst er hve yndisarðurinn af verndarnýtingu svæðisins er miklu meiri en hugsanlegur orkuarður vegna orkunýtingar.  

En það er sú niðurstaða sem Bandaríkjamenn hafa fyrir löngu komist að varðandi Yellowstone.  

 Torfajökulsaskjan er stærsta eldfjallaaskja á Íslandi, og þar eru mesta líparítssvæði Íslands og stærsta hrafntinnusvæðið.  Löngu tímabært að hún fái þá viðurkenningu sem hún á skilið að fá.  

  


mbl.is Torfajökulsaskja á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fjallabaksfriðlandið, Landmannalaugar og Torfajökulssvæðið eru einstakar náttúruperlur sem þarf að varðveita sem best.  

Guðjón Sigþór Jensson, 2.3.2013 kl. 23:01

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

En Yellowstone er hættulegasta eldstöð i heimi! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.3.2013 kl. 01:04

3 identicon

Þetta er rétt athugað Ómar, Fjallabakið er yndisleg perla, með magnaða fjölbreytni í allri sinni litadýrð. Ásókn útlendinga í svæðið, einkum göngufólks, sýnir fram á ótrúleg fegurðarverðmæti sem Íslendingar sjálfir bera varla nokkurt skynbragð á, því miður. Mér koma í hug orð Sigurðar Þórarinssonar um að "hamingjan sé ekki mæld í kílóvattstundum heldur unaðsstundum".

Ingi Gunnar Jóhannsson (IP-tala skráð) 3.3.2013 kl. 05:46

4 identicon

Ég varð fyrir því láni að skoða svæðið vandlega árið 2011, - þriggja tíma flug, - fyrst í Landmannalaugar, svo yfir veiðivötn og svo yfir Torfajökulssvæðið og austur um, alveg að Langasjó. Þetta er þvílík sjón, að langt þarf að leita yfir jarðkúluna til að finna eitthvað sambærilegt. Ef það er þá hægt!
Og bara að fljúga af láglendi Suðurlands, yfir í Laugar, og svo Þórsmörk-Ejafjallajökull til baka, það er alveg einstakt.

Jón Logi (IP-tala skráð) 4.3.2013 kl. 08:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband