Hverjir eiga að vinna fyrir hverja?

Alþingi er verktaki, sem verkbeiðandinn, íslenskir kjósendur, kaus 2009 til þess að vinna ákveðin verk. 

Eitt þessara verka var að sjá til þess að landið fengi nýja, heildstæða stjórnarskrá.

IMG_6681

Til þess hafði þingið fjögur ár.

Það er því klökkt að það sé tilefni til almennra funda eins og var á Ingólfstorgi í dag, að krefjast þess að þingið standi við samning sinn og skyldur við þá, sem þá á að vinna fyrir.  

Þegar frumvarp stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá hafði legið fyrir í 15 mánuði, hinn 20. október síðastliðinn, leitaði verktakinn til verkbeiðandans um það, hvort leggja ætti frumvarp stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá og fékk afgerandi svar, 67% gegn 33%.

Nú eru liðnir 20 mánuðir eða hátt í tvö ár síðan þetta frumvarp var lagt fram og eftir ítarlegan feril málsins með víðtækasta og opnasta athugasemdaferli allan tímann, sem um getur, tveimur Þjóðfundum, stjórnarskrárnefnd og stjórnlagaráði, auk umfjöllunar á Alþingi liggur frumvarp fyrir sem uppfyllir óskir verkbeiðandans.

IMG_6686

Það er fráleitt að segja nú að málið sé fallið á tíma og að slíta verði þinginu næstkomandi föstudag.

Ekkert í stjórnarskránni skyldar þingið til þess að hætta störfum í miðjum mars.

Fyrir kosningarnar 2009 sat þingið mánuði lengur.

Það hefur ekki gerst nema í örfá skipti á síðustu 100 árum að haldnar hafa verið þjóðaratkvæðagreiðslur og hefur hingað til ekki verið borið á móti þýðingu þeirra og gildi, þótt þátttaka hafi oftast verið minni í í þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðið haust.

Í öll skiptin hefur verktakinn, Alþingi, lokið verkinu í samræmi við vilja verkbeiðandans.

En nú bregður svo við minnihluti þingsins ætlar sér ekki einasta að tefja málið og eyða því á þessu þingi, heldur hafa talsmenn þessara flokka lýst því yfir að þeir muni ekki heldur fara á næsta kjörtímabili að vilja verkbeiðanda síns, þjóðarinnar, sem allt vald á að vera sprottið frá.

Og ekki er heldur gæfulegt þegar þeir 32 þingmenn, sem hafa meirihluta í þinginu, ætla að láta undan fyrir þeim, sem ætla að gefa skít í þau fyrirmæli, sem verkbeiðandi þeirra hefur gefið þeim.    

 Lúðvík Geirsson, Valgerður Bjarnadóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir voru meðal þeirra sem "stóðu í lappirnar" á fjölmennum fundi um stjórnarskrármálið á Ingólfstorgi í dag þar sem þess var krafist að Alþingi lyki verki sínu í samræmi við vilja verkbeiðanda síns. 

Fyrir hálfum mánuði flutti Ólína Þorvarðardóttir skörulega ræðu á sama stað og hún og Skúli Helgason voru ómyrk í máli á þingi í morgun. Fleiri þingmenn eru á sömu skoðun. 

Það verður fróðlegt að sjá hverju fram vindur í þessu máli í vikunni, sem er að hefjast.  

 


mbl.is Lúðvík sagði sig frá málinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Flestir eru þingmenn liðleysur á þingi sem þora ekki að taka á honum stóra sýnum ,hræddir um að missa spón úr aski sínum ,það á bara að segja hlutina eins og þeir eru.

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 9.3.2013 kl. 19:36

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Ómar. Verkefni númer eitt eftir bankarán, var að virða og fara eftir gildandi stjórnarskrá, sem hafði verið hundsuð gjörsamlega.

Er það raunveruleikinn í dag að stjórnarskráin sé einskis metin?

Til hvers þarf stjórnarskrá, ef hún er ekki meira virði en endurvinnanlegur skeinispappír spillingaraflanna?

Afsakaðu ósiðlega orðalagið Ómar minn, en það lá beinast við að orða þetta bara samkvæmt raunveruleikanum ó-ritskoðaða, og á öskureiðri íslensku! (Vonandi heldur Katla gamla ró sinni)!

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.3.2013 kl. 19:38

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Forsætisráðherra hefur þingrofsvaldið, alþingiskosningar verða 27. apríl næstkomandi og enda þótt áætlað sé að Alþingi starfi fram í miðjan mars næstkomandi getur það starfað mun lengur.

"Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra boðaði til þingkosninga 25. apríl [2009] og rauf þing frá og með þeim degi."

"Á vorþingi 2009 var þingrof tilkynnt 13. mars en þingið starfaði fram til 17. apríl og var fjöldi mála afgreiddur á þessum tíma.

Forsætisráðherra tók það raunar fram þegar tilkynnt var um þingrofið að "engar hömlur" væru "á umboði þingmanna á þessu tímabili", unnt væri að leggja fram ný mál, enda þótt tilkynnt hafi verið um þingrof og hægt væri að afgreiða bæði almenn lög og stjórnskipunarlög."

"Þingstörfum var frestað aðeins rúmri viku fyrir kjördag."

Þorsteinn Briem, 9.3.2013 kl. 20:36

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn um tillögur Stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskrár var kosningaþátttakan 49%, um Sambandslögin árið 1918 44%, um þegnskylduvinnu árið 1916 53% og um afnám áfengisbanns árið 1933 45%.

Þorsteinn Briem, 9.3.2013 kl. 21:33

5 identicon

Í kosningunum 20. október 2012, var kosningaþátttakaa um 50%. Þar með er ljóst að aðeins um 1/3 kosningabærra manna lögðu til að leggja ætti tillögur stjórnlagaráðs til grundvallar nýrri stjórnarskrá, en 2/3 kosningabærra manna, annaðhvort sáu enga ástæðu til þess að taka þátt í kosningunum eða greiddu atkvæði gegn tillögum stjórnlagaráðs. Í ljósi þess og að sagt er, að þegar hafi  komið fram nokkur hundruð breytingatillögur frá utanaðkomandi sérfræðingum við upphaflegu tillögur ráðsins, væri þá ekki skynsamlegast að fleygja upphaflegum tillögum stjórnlagaráðs í ruslið, eins og hverri annarri moðsuðu.

Guðmundur Agnarsson (IP-tala skráð) 9.3.2013 kl. 23:18

6 Smámynd: Þorsteinn Briem

"11. gr. Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni."

Sem sagt ekki meirihluta kjósenda á kjörskrá."

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010


Já sögðu 48 og enginn sagði nei


Já sögðu sjálfstæðismennirnir:
Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Einar K. Guðfinnsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Jón Gunnarsson, Óli Björn Kárason, Ólöf Nordal, Ragnheiður E. Árnadóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson og Unnur Brá Konráðsdóttir.

Einnig þeir sem nú eru framsóknarmenn:
Ásmundur Einar Daðason, Birkir Jón Jónsson, Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Siv Friðleifsdóttir og Vigdís Hauksdóttir.


Samtals 20 þingmenn, eða 42% þeirra sem sögðu já.

Þorsteinn Briem, 9.3.2013 kl. 23:41

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

12.2.2013:

Eiríkur Bergmann Einarsson, sem sæti átti í Stjórnlagaráði:

"Langþráð álit Feneyjanefndarinnar svokölluðu, sem ráðleggur um nýjar stjórnarskrár aðildarríkja Evrópuráðsins, var birt í dag.

Þar kennir ýmissa grasa, ýmsu hrósað og athugasemdir gerðar við annað. Eins og gengur.

Nokkrar athugasemdir eru til að mynda gerðar við forsetaembættið sem nefndin telur þó að breytist lítið að eðli og inntaki í nýju stjórnarskránni.

Nefndin veltir því upp hvort betur kunni að fara á því að stjórnmálamenn og jafnvel sveitastjórnarmenn að auki velji forsetann í stað almennings, eins og nú er.

Þá telur nefndin að málskotsréttur forseta (sem hér hefur lengi verið í gildi) sé sérkennilegur og að heppilegra geti verið að hann vísi málum til lagalegrar nefndar sem meti stjórnarskrárgildi laganna eða þá aftur til Alþingis.

Svo má nefna að Feneyjarnefndin telur að betur fari á því að þingmenn einir breyti stjórnarskrá, helst með auknum meirihluta en að óþarfi sé að bera stjórnarskrárbreytingar undir þjóðina, eins og Stjórnlagaráð leggur til."

Álit Feneyjanefndarinnar á frumvarpi Stjórnlagaráðs

Þorsteinn Briem, 9.3.2013 kl. 23:46

8 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Sæll Ómar.

Stjórnlagaþing var aldrei sett því kosning til þess þings var dæmd ógild. Ríkisstjórnin sniðgekk dóminn og skipaði efstu menn úr hinni ógildu kosningu í ráð, stjórnlagaráð sem þú áttir sæti í.

Stjórnlagaráðið var því undirverktaki núverandi ríkisstjórnarflokka VG og Samfylkingar, með öðrum orðum málið var sett í pólítiskan farveg sem aldrei skyldi verið hafa.

Og eftir þvi hefur framgangur málsins dandalast.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 10.3.2013 kl. 01:25

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

Forsetakosningar í Bandaríkjunum eru sem sagt ekki leynilegar, að mati Hæstaréttar Íslands.

Atkvæði greidd í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 2012 - Mynd

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 01:38

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Því miður var það svo, mín kæra Anna Sigríður, að vegna þess að það var eyða í stjórnarskránni okkar gátu tveir menn ákveðið það einir dag einn 2003 að ísland yrði í hópi "viljugra þjóða" varðandi hernaðarinnrás í fjarlægt land.

Í nýju stjórnarskránni er tekið á þessu.

Það var líka eyða í núgildandi stjórnarskrá varðandi inngöngu í EES og þess vegna skiptust lögspekingar í tvo hópa um það mál.

Samkvæmt nýju stjórnarskrár yrði svona ekki hægt nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég get nefnt fleira af gerræðisfullum ákvörðunum fortíðar sem ekki yrði hægt að framkvæma samkvæmt nýju stjórnarskránni.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 02:02

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Samkvæmt skilgreiningu Guðmundar Agnarssonar voru allar forsetakosningar í Bandaríkjunjum frá upphafi ómarktækar af því að aðeins 25-28% fólks á kosningaaldri tóku þátt í þeim.

Og allar þjóðaratkvæðagreiðslur í Evrópu og þær ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur sem hér voru haldnar á síðustu öld voru ómarktækar.

Mjög mjótt var á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslu í Austurríki, en af því að aðeins um 23% atkvæðisbærra manna tók þátt í henni telur Guðmundur þær hafa verið markleysu. Hvergi í Evrópu né Ameríku hef ég sem ég hef séð eða heyrt nokkurn halda svonalöguðu fram.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 02:09

13 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Leiðrétting: "Aðeins 25-28% fólks á kosningaaldri kusu forsetana" átti það að vera.

Sama gildir um þjóðaratkvæðagreiðsluna í Austurríki, "aðeins 23% atkvæðisbærra manna mynduðu hinn nauma meirihluta.

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 02:11

14 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enda þótt kosningar til stjórnlagaþings hafi verið ógildar haggar það ekki þeirri staðreyndmeirihluti kjósenda í gildri þjóðaratkvæðagreiðslu vill að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá.

Þeir sem sátu í stjórnlagaráði fylgja engan veginn allir núverandi ríkisstjórnarflokkum að málum.

Og tillögur stjórnlagaráðs eru hvorki vinstrisinnaðar né hægrisinnaðar.

"Niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu hinn 20. október 2012 um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd var lýst á fundi landskjörstjórnar 29. október 2012.

Engar kærur bárust um ólögmæti atkvæðagreiðslunnar.
"

Niðurstaða talningar atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga:

1. Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?


Já sögðu
75.309 eða 67,5%, rúmlega tveir þriðju.

Og hvar kemur fram að allir sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafi ekki tekið þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni?!

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 02:36

15 Smámynd: Einar Þór Strand

Ómar það sem skeði að undirverktakinn (þið) stóð sig ekki heldur tók laun fyrir að hafa það gaman.  Þið tókuð ekki á eða vilduð ekki taka á stórum vandamálum sem snúa að Alþingi og kosningum.  Fyrsta vandamálið er að á Alþingi þarf ekki meirihluta þingmanna (32) til að setja lög eða gera aðrar samþykktir. Hvers vegna er það vandamál jú það kemur í veg fyrir að við getum látið auða atkvæðaseðla gilda í kosningum og skila inn auðum auðum þingsætum án þess að krafan um fjölda þingamanna á bakvið mál minnki. Og fá þannig möguleika á að refsa framboðunum án þess að kjósa trúða eða sem verra færi fasista í ógáningi.  Annað vandamál eru þjóðaratkvæðagreiðslur það er þekkt í þjóðaratkvæðum að þegar útkoman er ekki eins og elítan vill þá er bara haldið áfram að fara með málið fyrir þjóðina þangað til "rétt" útkoma færst.  Hvernig fæst þessi rétta útkoma svo, jú menn hætta að nenna að mæta á kjörstað nema þeir sem eru heitir og trúir í andanaum og málið fer í gegn stuðningi minnihluta þjóðarinnar í raun vegna lélegrar þátttöku.  En þetta hefði verið auðvelt að laga með því að setja inn þá reglu að það þurfi 50% þeirra sem eru á kjörskrá til að segja já við þeirri breytingu sem er að eiga sér stað eða styðja þær samþykktir Alþingis sem er verið að fjalla um.  Reyndar væri ég til í að ganga enn lengra með kosningar heldur en ég nefndi fyrr og taka saman auða, ógilda og þá sem sitja heima og láta það ráða hversu mörg auð sæti yrðu á þingi.  Og varðandi jöfnun atkvæðisréttar þá myndi ég telja að margfeldi fjölda á kjörskrá og stærðar kjördæmis í ferkílómetrum ætti að ráða ekki bara mannfjöldi.

Svo að lokum, stjórnlagaráð vann illa og kannski má segja að 2 - 3 fulltrúar þar inni sem eru hrokafullir egoistar hafi tekið völdin, og því fór sem fór illa samdar tillögur sem engu breyta í raun.  Og ekki má gleyma því að landsbyggðin átti mjög fáa fulltrúa þarna.

Einar Þór Strand, 10.3.2013 kl. 10:23

16 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Lýsing þín, Einar Þór Strand, á störfum stjórnlagaráðs, felur í sér fráleitar ásakanir manns, sem bullar bara út í loftið, og ég mótmæli því harðlega að við höfum öll að undanteknum 2-3 fulltrúum "tekið laun fyrir að hafa það gaman".

En það er svosem hægt að fleygja svona fram hjá þeim sem vita ekkert hvað þeir eru að tala um og spurning hvort maður á að vera að svara svona löguðu. Erlendir sérfræðingar sem hafa skoðað frumvarp stjórnlagaráðs og það, sem liggur að baki því, hafa lokið lofsorði á bæði verklagið og það sem smíðað var.

En þú telur auðvitað að þeir séu bara vitleysingar og fífl.

Fleira er eftir þessu í athugasemd þinni, svo sem það að stærð kjördæmis í ferkílómetrum eigi að ráða að hálfu við úthlutun þingmanna. Ekki er vitað um neitt land í veröldinni sem hefur tekið upp svona rugl.

Það að auki skautar þú framhjá því að það var krafa Þjóðfundar að jafna vægi atkvæða landsmanna og okkur bar skylda til að taka tillit til óska Þjóðfundarins.

Enda var yfirgnæfandi meirihluti fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október sl. að jafna vægi atkvæða eins og kostur væri. 

Ómar Ragnarsson, 10.3.2013 kl. 19:56

17 Smámynd: Þorsteinn Briem

18.10.2012:

"Eftirlitsmenn Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) voru hér á landi og fylgdust með síðustu alþingiskosningum.

Í skýrslu ÖSE um kosningarnar var bent á að misvægi atkvæða milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar væri alltof mikið.

Reglur ÖSE kveða á um að misvægið milli einstakra kjördæma sé innan 10% og aldrei meira en 15%.


Mismunurinn hér fór aftur á móti upp í 100%
og taldi ÖSE að tímabært væri að huga að endurskoðun á viðkomandi lagaákvæði um dreifingu þingsæta."

Jafnt vægi atkvæða - Guðmundur Gunnarsson stjórnlagaráðsmaður

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 21:13

18 Smámynd: Þorsteinn Briem

"Þjóðfundur um stjórnarskrá var haldinn í Laugardalshöll 6. nóvember 2010.

Fundinn sóttu 950 manns af landinu öllu, frá 18 ára til 91 árs, og kynjaskipting var nánast jöfn.
"

Niðurstöður Þjóðfundar 2010

Þorsteinn Briem, 10.3.2013 kl. 21:18

19 Smámynd: Einar Þór Strand

Ómar að vera erlendur sérfræðingur gerir þá ekki að guðum og staðreyndin er að breytingarnar sem verið að að gera eru nær engar og taka ekki á þeim vandamálum einkum löggjafans sem eru að tröllríða okkur.  Það er ekki samkomulag um ykkar vinnu og það eru alls ekki allir sammála um að hún sé góð og þó að einhverjir verðir sárir yfir því sem ég er að segja þá er ég ekki að bulla út í loftið og það veistu.  Vægi höfuðborgarsvæðisins á þingi er þegar orðið yfir 50% en það sem verra er að til þess að eiga séns í kosningum í dag er ekki nóg að vinna góð verk heldur þarftu að vera þekktur úr fjölmiðlum annað hvort sem "álitsgjafi" eða vinna þar.  Þessi hópur er allt og þröngur og er í raun allt of einsleitur.  Varðandi þjóðfundinn þá þekki ég vel þá aðferð hvernig maður stjórnar þannig fundi til að fá í raun engar umræður en niðurtöður sem enginn þorir að eða getur mótmælt.  Það sem einkum var að í ykkar vinnu er það sem þú ekki svarar af því sem ég sagði áður. Varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna 20. október þá tóku þar þátt 50% og fengu að kjósa um þá liði sem flestir voru sammála um og samt náðist ekki nema um 38% kosningabærra manna til að segja já við þeirri grein sem mest fékk.
Er það lýðræði að þeir sem sitja heima séu hunsaðir?  Ómar það er ekki lýðræði það er einfaldlega frekja og yfirgangur.
En eitt megið þið þó eiga í stjórnlagaráði og það er að líklega hafið þið aukið líkurnar á því að landsbyggðin segi skilið við höfuðborgarsvæðið.

Einar Þór Strand, 12.3.2013 kl. 08:06

20 Smámynd: Þorsteinn Briem

Niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október síðastliðinn:

1.
Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

Já sögðu 67,5%.

2.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Já sögðu 82,9%.


3.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

Já sögðu 57,1%.


4.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

Já sögðu 78,4%.

5.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

Já sögðu 66,5%.


6.
Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Já sögðu 73,3%.

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 - Þorkell Helgason stærðfræðingur

Þorsteinn Briem, 12.3.2013 kl. 14:59

21 Smámynd: Einar Þór Strand

Svo verður að deila með tveimur vegna þess hvað þátttaka var léleg til að fá hlutfall af þeim sem eru á kjörskrá.  Þetta er ástæðan að verður að vera hægt að koma í veg fyrir að hægt sé að breyta lögum með háværum minnihlutahóp, og það verður alltaf að líta svo á að þeir sem ekki mæta séu ekki með og að það þurfi 50% þeirra sem eru á kjörskrá til að ná fram breytingum.

Einar Þór Strand, 12.3.2013 kl. 16:39

22 Smámynd: Þorsteinn Briem

"11. gr. Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni."

Sem sagt ekki meirihluta þeirra sem eru á kjörskrá hverju sinni.

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010


Já sögðu 48 og enginn sagði nei


Og í síðustu forsetakosningum fékk Ólafur Ragnar Grímsson atkvæði 35,7%, eða rúmlega þriðjungs, þeirra sem þá voru á kjörskrá.

Þorsteinn Briem, 12.3.2013 kl. 18:25

23 Smámynd: Þorsteinn Briem

Enda þótt kosningaþátttakan í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október síðastliðinn hefði verið 64%, þeir sem við bættust (38.513 kjósendur) hefðu allir verið andvígir tillögum stjórnlagaráðs og öll atkvæði þeirra gild, hefðu tillögur ráðsins samt sem áður verið samþykktar þar í heild.

Já við fyrstu spurningunni hefðu þá sagt
, eins og 20. október síðastliðinn, 75.309 kjósendur, í þessu tilfelli 50,2% af gildum atkvæðum, en nei 74.815 kjósendur, eða 49,8%.

Gildir atkvæðaseðlar hefðu samkvæmt því verið samtals verið 150.124 en ógildir eins og áður 1.499, eða samtals 151.623 atkvæðaseðlar, og kosningaþátttakan því 64%, þar sem á kjörskrá voru 236.911.

Niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar 20. október 2012 - Þorkell Helgason stærðfræðingur


"11. gr. Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni."

Lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna nr. 91/2010

Þorsteinn Briem, 13.3.2013 kl. 17:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband