11.3.2013 | 20:47
Gömul afskiptasaga og ný.
Það er meira en aldar gamalt fyrirbæri í fjölmiðlun á Íslandi að utanaðkomandi öfl, bæði stjórnmálaleg of fjárhagsleg, hafi reynt að hafa áhrif á vinnubrögð í blaðamennsku.
Stundum hefur þetta verið grátbroslegt svo alvarlegt sem það þó er. Það var til dæmis broslegt þegar ég var eini íþróttafréttamaður Sjónvarpsins með Bjarna Fel sem ígripamann varðandi ensku knattspyrnuna og síðar ómetanlegan vin og samstarfsmann til að hlaupa í skarðið þegar ég var "sjanghæjaður" í almennar fréttir og dagskrárgerð, að á fyrsta ári mínu var allt með friði og spekt með þetta.
Þetta varð broslegt vegna þess, að þegar stjórnarskipti urðu 1971 breyttist þetta skyndilega.
Þá áttaði maður sig á því hverjar ástæður gætu verið fyrir því að meirihluti útvarpsráðs hafði látið sér íþróttafréttirnar litlu skipta fram að því.
Ég var að vísu óflokksbundinn og gaf aldrei upp neinar stjórnmálaskoðanir heldur tók stjórnmálamennina miskunnarlaust fyrir í gamanmálum mínum, einkum helstu ráðamennina.
En vitað var að foreldrar mínir störfuðu af krafti í Sjálfstæðisflokknum, konan mín var félagi í flokknum og að ég hafði skemmt á öllu landsfundum flokksins í meira en áratug og í mörg ár á héraðsmótum hans.
Og Bjarni Fel var jú eðal KR-ingur og suma munaði lítið um að spyrða hann við Vesturbæjaríhaldið.
Það virtist fyrir suma liggja nokkuð beint við að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af okkur, svo "innmúraðir" og "innvígðir" sem við virtumst vera.
En þegar nýr meirihluti varð til í útvarpsráði komst hreyfing á hlutina.
Þeir, sem áður höfðu gagnrýnt gamla meirihlutann harðlega fyrir pólitísk afskipti, og stundum haft mikið til síns máls, hófu nú af miklum dugnaði að láta að sér kveða í afskiptum af íþróttunum.
Og fyrr en varði var það komið á dagskrá að svonefndar "keppnisíþróttir" væru ekki æskilegar sem sjónvarpsefni og að breyta skyldi umfjölluninni gagngert í þágu svonefndar "almenningsíþrótta."
Rétt eins og að vinsælasta íþróttagrein heimsins, knattspyrna, væri ekki almeningsíþrótta.
Og allt í einu var það nú orðið mikilvægt að fjölga mönnum í íþróttaumfjölluninni og fyrr en varði var komin þarna inn doktor Ingimar Jónsson, sem fyrir einskæða tilviljun hafði verið við nám í Austur-Þýskalandi.
Frá 1971 til 1983 voru mestan part vinstri stjórnir þótt árin 1974 - 1978 væru undantekning. Og Ingimar var ekki einn um það að koma þarna inn í íþróttirnar á þessu tímabili, því að Steingrímur J. Sigfússon kom þarna inn á vinstra tímabili og var fyrir einskæra tilviljun sá mikli vinstrimaður sem hann hefur verið síðan!
Þetta voru sem betur fer báðir miklir heiðursmenn, Steingrímur J. Sigfússon og doktor Ingimar Jónsson og kynni mín af þeim og Bjarna Fel voru einkar ánægjuleg.
Ég fékk hvatningu úr óvæntri átt 1971 þess efnis að láta ekki valta yfir ensku knattspyrnuna og keppnisíþróttirnar og hefur alltaf þótt vænt um það innlegg.
Það var Magnús Kjartansson, ráðherra og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans, sem hvatti mig til þess að láta ekki undan þrýstingi heldur fara eftir bestu vitund og sannfæringu. Og hann hvíslaði að mér: "Ég er nefnilega forfallinn aðdáandi ensku knattspyrnunnar og má ekki til þess hugsa að missa af henni."
Þetta er bara eitt lítið dæmi og hægt að nefna þau mörg, bæði hjá vinstri og hægri mönnum í gegnum tíðina, og svo jafnræðis sé gætt mætti nefna "fréttastjóramálið" 2005 sem dæmi um aðgerðir á hinum vængnum.
Rökstuðningurinn fyrir því hvernig nýir og nýir meirihlutar voru að skipta sér af málum var hinn sami á báða bóga:
Menn sögðu: "Við neyðumst til að koma "okkar fólki" til þess að "hinir" misnoti sér ekki aðstöðu sína til að koma sínu fólki að!
Við verðum að hafa inni fólk á okkar vegum til að tryggja óhlutdrægni. Ef við gerum það ekki er hætta á að fólk frá "hinum" beiti hlutdrægni og misnoti aðstöðu sína"!
Og af því að vinstri stjórnir voru færri og ríktu skemur samtals en hinar, einkum Viðreisnarstjórnin, virtist þeim liggja meira á að koma sínu fólki og viðhorfum að, af því að "hinir" væru búnir að misnota aðstöðu sína svo lengi og að það þyrfti að jafna leikinn !
Segir frá afskiptum Jóns Ásgeirs af fréttaflutningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fróðlegt væri að vita hvar í Austur Evrópu Steingrímur J nam. Skv. mínum heimildum stundaði hann nefnilega nám við Háskóla Íslands og lauk jarðfræðiprófi 1981, og má ég nokkuð glöggt um það vita því hann trúði mér fyrir yfirlestri á lokaritgerð sinni um jarðlög á Tjörnesi. Hann varð ekki íþróttafréttamaður fyrr en 1982, eða ellefu árum eftir að Ólafía settist að völdum, og þá var Gunnar Thoroddsen forsætisráðherra og verður hann seint vændur um vinstri villu þótt eitthvað hafi kannski skort á þjónkun hans við eigendur FLokksins. Alltént virðast vinstri menn ekki hafa brugðist mjög hart við að koma sínum manni að eftir fall viðreisnar úr því það tók þessi ellefu ár. Og ekki var hann mjög lengi í starfinu því árið eftir settist hann á þing.
Og hvenær varð dr. Ingimar íþróttafréttamaður? Þess er ekki getið í æviágripum hans, sbr. t.d: http://www.rsi.is/felagatal/?ec_item_1_id=e38b3580-cac6-4104-998a-0eb02a0cd9a9
En ég tek undir með þér að þessir eru hinir mestu sómapiltar og hafði ég talsverð samskipti við þá á snærum Blaksambandsins.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 11.3.2013 kl. 21:41
Þakka ábendinguna, Þorvaldur, og mun endurrita textann hér að ofan þannig að ekki sé farið rangt með neitt.
Ég var íþróttafréttaritari Sjónvarpsins 1969-1976 og doktor Ingimar vann með mér einhvern tíma á því tímabili, lang sennilegast í kringum 1972, það man ég vel.
Fari ég hins vegar rangt með nám eða starfstíma Steingríms J. biðst ég velvirðingar á óvenjulegu misminni mínu í því efni.
Engum duldist þá né síðar að hann var á vinstri kantinum.
Hann vann að sjálfsögðu undir boðvaldi fréttastofunnar og fréttastjórans á meðan það varði, og ég vann líka á fréttastofu Sjónvarpsins 1982 þannig að þarna gæti ég ruglað saman tímabilum.
En á árunum 1978 til 1983 voru ríkisstjórnir vinstra megin við miðju svo að innkoma Steingríms hefur sennilega virkað á mig svipað og innkoma doktors Ingimars.
Ómar Ragnarsson, 11.3.2013 kl. 23:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.