13.3.2013 | 00:36
Fjölbreytni tilræðanna einstök ?
Fróðlegt er að kynna sér öll þau ótrúlega mörgu of fjölbreyttu tilræði við Hitler sem menn bollalögðu.
Hann var hvergi óhultur, ekki einu sinni í Berghof, efrirlætisdvalarstað sínum Ölpunum.
Fljótlega kom hann sér upp einhverjum fjölmennasta lífverði allra tíma, alls þúsund mönnum.
Fyrir einskæra heppni slapp hann frá tilræðinu í bjórkjallaranum í Munchen 1938 og aftur þegar sprengja, sem átti að granda flugvél hans, klikkaði.
Enn var hann hreint ótrúlega heppinn að lifa af sprenginguna í Úlfshreiðrinu í Rastenbor í Austur-Prússlandi í ágúst 1944.
En hefði það einhverju breytt þótt hann hefði verið drepinn þar eða í bjórkjallaranum?
Líklega var Heinrich Himmler enn meira illmenni en Hitler og ekki var Göring neinn kórdrengur.
Báðir þessir menn brugðust Hitler í lokin, þegar þeir voru svo barnalegir að halda, að hægt væri að semja sérfrið við Vesturveldin. Það sýnir firringu þeirra og einnig það að stríðið hefði varla orðið styttra þótt þeir hefðu verið við stjórnvölinn síðustu mánuði stríðsins.
Eitt atriði er hins vegar erfitt að meta, en það er hvort hollusta hermanna við Göring eða Himmler hefði verið eins mikil og við Hitler. Allir hermenn urðu að sverja afar áhrifamikinn hollustueið við foryngjann, sem var gert við svo tilkomumikla athöfn, að það sat í þeim.
Þetta nýtti Hitler sér út í æsar allt til enda.
Ef hann hefði verið drepinn í bjórkjallaranum 1938 er spurning, hvort stríðið hefði farið öðruvísi.
Á árunum fram til 1941 tók Hitler hvað eftir annað svo mikla áhættu með ákvörðunum sínum, að herforingjar hans voru afar tregir til að fallast á þær og brugguðu meira að segja launráð og samsæri sem öll runnu út í sandinn vegna hins gríðarlega sefjunarmáttar, sem Hitler bjó yfir.
Þegar sigur hafði unnist á Frakklandi á nokkrum vikum í krafti fífldjarfrar og tvísýnnar sóknaráætlunar og Hitler notaði nokkrar vikur til að baða sig í sigurljómanum, hafði einn af herforingum hans á orði að hann væri einhver mesti hernaðarsnillingur sögunnar.
Eftir það voru allar varnir horfnar af þeirra hálfu gagnvart uppátækjum Foringjans, svo gersamlega, að engu virtist skipta þótt flestar stærstu ákvarðanir hans frá og með innrásinni í Sovétríkin væru kolrangar.
Við vitum ekki enn hvort fjölbreytni og fjöldi hugmynda um tilræði við Hitler vor þau mestu í sögunni. Enn hefur hulunni til dæmis ekki verið svipt af öllum tilræðunum, sem menn létu sér detta í hug varðandi það að drepa Kastró.
Maðurinn sem reyndi að myrða Hitler er látinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er ekki rétt að sprengjutilræðið í Úlfsgreninu hafi átt sér stað í ágúst 1944 eins og þú skrifar. Nei, það átti sér stað 20. júlí það ár.
Þú veltir upp þeirri spurningu hvort það hefði einhverju breytt þótt Hitler hefði verið drepinn þar.
Það hefði farið eftir þvi hvort uppreisnin Walküre, sem herforingjarnir sem stóðu að tilræðinu skipulögðu, hefði heppnast. Þeirri uppreisn átti að hrinda af stað í kjölfarið strax og staðfest hefði veið að tilræðið hefði heppnast. Sú uppreisn átti að hefjast í höduðborginni Berlín með töku stjórnarbygginga og handtökum helstu ráðamanna Nasista svo sem Göring og Himler. Þetta rann auðvitað allt út í sandinn.
Þú skrifar: "Ef hann hefði verið drepinn í bjórkjallaranum 1938 er spurning, hvort stríðið hefði farið öðruvísi".
Stríðið byrjaði nú ekki fyrr en árið eftir, með innrás Hitlers í Pólland, nánar tiltekið 1. sept. 1939. Þú virðist samt sem áður gera ráð fyrir því að stríðið hafi verið óumflýjanlegt burt séð frá því hvort tilræðið, árið áður, hefði heppnast eða ekki. Hvernig viltu rökstyðja það?
Daníel Sigurðsson (IP-tala skráð) 13.3.2013 kl. 04:18
Las að tilræðin hafa verið ca 35. Verst var að Staffenberg skyldi ekki ná að "klípa" seinni sprengjuna. Hann var orðinn svo lélegur í puttunum....
GB (IP-tala skráð) 13.3.2013 kl. 07:47
Þarfar spurningar og ábendingar Daníel!
En fyndnasta sagan um tilræðisáformin þann 20. júlí 1944 er líklega dagbók nasistans Georgs Ferdinands Duckwitz, sem margir Danir halda að hafi bjargað dönskum gyðingum árið 1943.
Ég sýndi fram á það fyrri nokkrum árum í tímaritinu Rambam 15 (2006) tímariti sögufélags gyðinga í Danmörku, að Duckwitz falsaði dagbókina sína sem átti að vera frá stríðsárunum, m.a. vegna þess að hann segir frá tilræðinu þann 19. júlí 1944, deginum áður en það átti sér stað! Þáttur Duckwitz í björgun danskra gyðinga var orðum aukinn og nýjustu rannsóknir sýna, að hann bjargaði fleiri nasistum eftir stríð en hann nokkru sinni bjargaði gyðingum.
FORNLEIFUR, 13.3.2013 kl. 09:10
Þið finnið betur grein mína hér: http://fornleifur.blog.is/users/5c/fornleifur/files/ich_weiss_med_forside_lille_17541.pdf
Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, 13.3.2013 kl. 10:08
Ónákvæmt hjá Ómari eins og svo oft áður:
Það var ekkert "barnalegt" við tillögu Himmlers og Görings (og Hess, líklega Rommels o.fl) að leitast við að koma á friðarumleitunum þegar fór að halla undan fæti í stríðinu. Allt frá því á miðöldum hafði slíkt alltaf borið árangur, það heppnaðist 1870, 1918, og hví skyldi það ekki heppnast eina ferðina enn?
En í þetta sinn voru Churchill og Roosevelt á allt öðru máli: Líklega ræddu þeir það á sínum fyrsta (leynilega) fundi í Argentia 1941, að nú mættu Þjóðverja ekki komast upp með sama skollaleikinn og áður, en í Casablanca 1943 var það gert opinbert: Þessar styrjöld mundi ljúka með SKILYRÐISLAUSRI UPPGJÖF Þjóðverja og ENGU ÖÐRU. Stalín tók heilshugar undir með þeim í Teheran, og eftir það var aðeins útfærslan á smáatriðunum eftir: Hvaða hernaðarveldi yrði falið að taka Berlín, og hvernig landinu yrði skipt upp í hernámssvæði á eftir, hver fengið hvað af góssinu, o.s.frv .
Aldrei var hvikað millimetra frá þessari ákvörðun allt til stríðsloka.
En hví þessi einstrengingsháttur gæti einhver spurt? Jú, allt frá stríðslokum 1918 hafði það dunið á Vesturveldunum, í áróðri Þjóðverja sem Hitler nýtti sér síðan út í ystu æsar til þess að brjótast til valda, að Versalasamningarnir 1918 hefðu verið svo svíðingslegir að það væri nánast gustukaverk og sjálfgefið að brjóta þá, að hefja vígvæðingu á ný, leggja undir sig Rínarhéruðin upp á nýtt og þannig koll af kolli.
En í þetta sinn, sögðu þeir kumpánar Churchill og Roosevelt, fyrst við sjálfa sig, síðan svo hvor við annan og loks umheiminn:
Í þetta sinn viljum við ekkert slíkt kjaftæði meira, nú verður gengið milli bols og höfuðs á Þjóðverjum í eitt skipti fyrir öll og séð til þess að þeir rísi ALDREI upp aftur sem hernaðarveldi.
Sem gekk eftir, allaveganna fram á þennan dag, og næstu fyrirsjáanlegu framtíð. Gottesdank.
Björn Jónsson (IP-tala skráð) 13.3.2013 kl. 15:57
Í vandaðri rannsókn, sem farið hefur fram á efnahagsmálum Þýskalands, kemur í ljós að hervæðing landsins átti sér enga hliðstæðu að stærð og umfangi og að ríkið stefndi í hrynja innan frá nema að því legðust til lönd og auðlindir eigi síðar en 1940.
Með menn eins og Göring, Himmler og Hess sem arftaka Hitlers er ekki að sjá annað en að þeir hefðu, eins og Hitler, þvingað hershöfðingjana til að sjá til þess að þessir landvinningur og leiðréttindingar á Versalasamningunum gengju fram.
Ómar Ragnarsson, 13.3.2013 kl. 18:42
Það er vissulega forvitnilegt að menn velti því fyrir sér hvort það hefði einhverju breytt þótt Hitler hefði verið drepinn í einhverju þeirra fjölmörgu tilræða sem reynd voru.
Hins vegar finnst mér ekki síður forvitnilegt að velta því fyrir sér hvort það hefði einhverju breytt um gang stríðsins og tímann sem það tók að ljúka því ef misheppnaða tilræðið, sem framið var 20. júlí 1944, hefði aldrei komið til.
Þegar endirinn og heimildir eru skoðaðar þá blasir við að þetta misheppnaða tilræði átti a.m.k. stóran þátt í því að aftur yrði freistað að koma Hitler fyrir kattarnef í tilraun til að binda þannig endi á stríðið áður en til að mynda Þýskaland yrði gjörsamlega lagt í rúst eins og reyndin varð.
Sú staðreynd að Hitler lifði tilræðið af varð til þess að hann öðlaðist í enn meiri vissu, og nú nær óskeikulli, fyrir því að forsjónin hefði ætlað honum að ljúka hlutverkinu hvað sem á dyndi. Ef það hefur hvarflað að honum fyrir tilræðið að játa sig sigraðan og gefast upp þá mun það ekk hafa hvarflað að honum eftir að hann uppgötvaði að hann var enn lífi eftir að hafa verið tosað á fætur úr braki byggingarinnar eftir sprenginguna í Úlfsgreninu. Það hefði því betur verið heima setið en af stað farið með þetta misheppnaða tilræði. Hins vegar má nær öruggt telja að Hitler hefði ekki lifað tilræðið af ef herráðsfundurinn hefði verið haldinn í steinsteyptri byggingu á staðnum, eins og venjan var, en vegna hinna óvenju miklu sumarhita þennan örlagaríka júlídag var ákveðið að lát herráðsfundinn með Hitlar fara fram í timburbyggingu á staðnum. Timburveggir og þak gáfu því eftir löngu áður enn sprengjuþrýsingurinn næði hámarki því sem hann hefði annars náð í steysteyptu byggingunni.
Daníel Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.3.2013 kl. 00:38
Smá leiðrétting en svona átti þessi setning að vera:
" Þegar endirinn og heimildir eru skoðaðar þá blasir við að þetta misheppnaða tilræði átti a.m.k. stóran þátt í því að EKKI varð aftur freistað að koma Hitler fyrir kattarnef............"
Daníel Sigurðsson (IP-tala skráð) 14.3.2013 kl. 00:47
Valkyrju-áætlunin var einstök með það, að búið var að skipuleggja framhaldið mjög vel, og voru aðgerðir komnar í gang þegar í ljós kom að Hitler hafði lifað af.
Breska leyniþjónustan ku hafa haft það á sínu borði um svipað leyti að koma Hitler fyrir kattarnef, en fallið frá því, þar sem kall var farinn að gera mest ógagn varðandi hernaðarákvarðanir.
En vissulega spyr maður sig að því hvað gerst hefði ef Þjóðverjar hefðu fengið annan í Hitlers stað sumarið 1944, og hvað Vesturveldin hefðu gert ef Þjóðverjar hefðu boðið uppgjöf sína Vestan til.
Vissulega var skilyrðislaus uppgjöf samkomulag Bandamanna, en meðan Þjóðverjar höfðu herstyrk var eitthvað þeirra megin til að tefla með.....
Jón Logi (IP-tala skráð) 14.3.2013 kl. 15:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.