21.2.2007 | 12:00
AÐ FÁ Í HNÉN ÚT AF ORKUMÁLUNUM
Við Íslendingar fáum í hnén þegar frægir útlendingar hrífast af frásögnum okkar af því hvernig við nýtum hreina og endurnýjanlega orkugjafa. Churchill, Reagan, Gorbashof, Bill Gates, Bill og Hillary Clinton! En ég held að víð ættum að gæta þess að fara ekki fram úr okkur þegar við sækjumst sem mest eftir skjalli hins ofboðslega fræga fólks.
Í fyrsta lagi segjum við þessu fólki til dæmis að orka Nesjavalla-Hengils-Hellisheiðar-svæðisins sé endurnýjanleg þegar hið rétta er að hún mun aðeins endast í 40 ár.
Í öðru lagi lítum við framhjá virkjun eins og Kárahnjúkavirkjun sem verður ónýt í fyllingu tímans gagnstætt til dæmis virkjununum við Sog sem eru eilífðarvélar. Að ekki sé minnst á óþarfa eyðileggingu svæðis sem er einstætt á heimsvísu. Við erum heldur ekkert að segja þeim frá áformum um virkjun flúðasiglinagfljóta Skagafjarðar þar sem Villinganesvirkjun verður ónýt á nokkrum áratugum.
Í þriðja lagi gætum við eignast keppinauta. Norski kóngurinn gæti kynnt fyrir útlendingum metnaðarfulla áætlun Norðmanna um að virkja hið hreina og endurnýjanlega óvirkjaða vatnsafl landsins, sem að magni til er meira og hreinna en það vatnsafl sem er óvirkjað á Íslandi.
En hann mun láta það vera vegna þess að Norðmenn hafa ákveðið að virkja ekki þetta vatnsafl þrátt fyrir að orkuskortur berji þar að dyrum. Þeir ætla að varðveita sínar náttúruperlur en útsendarar Norsk Hydro fara hins vegar til Íslands svo að hægt verði að fá Íslendinga til að fórna miklu merkilegri náttúruperlum fyrir norska stóriðju.
Ríkisstjóri Wyoming-ríkis í Bandaríkjunum á líka möguleika á að fá í hnén þegar hann kynnir heimsfræga fólkinu áætlanir um að virkja hina gífurlega ónýttu hreinu og endurnýjanlegu jarðvarma- og vatnsorku Yellowstoneþjóðgarðsins.
En hann mun ekki gera þetta vegna þess að hann veit að á Íslandi eru menn tilbúnir til að fórna jafnvel meiri náttúruverðmætum svo að Bandaríkjamenn geti lagt niður álver sín í heimalandinu, smíðað ný á Íslandi og haldið sínum amerísku náttúrugersemum óspjölluðum.
Bæði norski kóngurinn og bandaríski ríkisstjórinn vita líka að þótt þessi orka sem um ræðir kunni að sýnast mikil er hún langt innan við eitt prósent af orkuþörf heimsins. Að ráðast fyrst á þessar náttúrugersemar væri hliðstætt því að ef það væri þurrð á góðmálmum í veröldinni myndu menn bræða fyrst frægustu myndastyttur og hvofþök heims.
Athugasemdir
Þörf áminning Ómar. - Þessi sannleikur verður ekki of oft kveðinn. Alltaf stækkar hópurinn sem skilur á hvaða villigötum þorri alþingsmanna hafa verið og eru enn.
Sannfærandi rök sífellt stækkandi hóps gegn stóriðjublindunni virðast þó vera farin að hafa árif í stjórnmálaflokkunum og þeir farnir að veifa grænum flöggum. Eftir stendur að ef stóriðja býðst í einhverju kjördæmanna þá fá menn í hnén og engum að treysta.
Það er í þessu eins og með úrræðaleysi fyrir aldraða, fólkið sem hefur komið þjóðinni yfir erfiðustu hjalla og við byggjum á okkar ríkidæmi. Við sjáum ekki lausnir í okkar ríka og tæknivædda þjóðfélagi sem koma að gagni. Hið sama gidir varðandi umhverfis- samgöngu- og byggðamál almennt. Stóriðjan á öllu að bjarga.
Stundum er hollt að horfa aftur í tímann. Þetta sagði Eysteinn Jónsson, hinn virti ráðherra Framsóknarflokksins, um iðnþróun og náttúruvernd á orkustefnu 1977:
,,Er það til dæmis raunsætt að gera ráð fyrir því að fylla vatni ýmsar mestu lægðir á hálendinu á stórum landsvæðum þar sem gróðurinn og dýralífið er mest, eða flytja stórfljót milli byggðalaga o.s.frv.? Ég held ekki.
Áreiðanlega hafa menn ekki enn getað áttað sig á hvað af þess háttar gæti leitt í landspjöllum, t.d. ágangi vatns, veðurfarsbreytingum o.fl. Hér er því brýnt að fara með gát. Og í hvaða skyni ætti að færa slíkar fórnir, umturna landinu með þvílíku móti? Til þess að koma upp orkufrekum iðnaði útlendinga?
Ekki geri ég ráð fyrir að landsmenn vilji það í raun og veru. En þá er líka vissara að kryfja þessi mál til mergjar í tæka tíð og taka þá með í reikninginn, að okkur ber skylda til að koma barnabörnum okkar eða þeirra börnum ekki í þá klípu, að þau telji sig tilneydd að vinna stórskemmdir á landinu, til þess að afla sér orku í lífsnauðsyn.
Tilvitnun úr bók Guðmundar Páls Ólafssonar: Um víðerni Snæfells
Snorri Sigurjónsson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 15:06
Hvað ertu eiginlega gamall Guðlaugur? Ég er farinn að halda að þú sért smákrakki.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 15:33
Hárrétt Ómar. Vatnsorka og jarðhiti á Íslandi skipta heiminn engu máli. Engum er greiði gerður með því að virkja slíka orku fyrir mengandi frumframleiðslu, og síst af öllu fyrir orkubruðlið sem felst í álbræðslu uppi á Íslandi.
Ósnortin náttúra er sú gersemi sem við eigum að gæta - og skiptir heiminn máli.
Allt tal um að verið sé að virkja í þágu heimsins er ekki aðeins fásinna. Það er líka óheiðarlegt nema hjá þeim einföldu sálum sem trúa í raun vitleysunni. Þeim fækkar ört.
Hjörtur Hjartarson (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 16:23
Það þarf ekki að fletta upp í fræðritum Guðlaugur til að staðfesta þetta rugl þitt efst á síðunni.
Gunnar Th. Gunnarsson, 21.2.2007 kl. 17:08
Jamm þetta er allt frekar súrt, tel t.d. að í stað þess að eyða þessum milljörðum í ál fyrir austan þá hefði mátt frekar eyða þeim í hluti sem aðstoðar einstaklinga sem hafa frumkvæði og kraft til að skapa eitthvað af eigin sjálfsdáðum, frumkvöðlar. Ég minni á að arðsemi Kárahnjúka er þannig að að ekki einasti fjárfestir mundir fjárfesta i því sbr. orð Lýðs Bakkavararmanns í Kastljósi fyrir nokkru. Af hverju var ekki fjárfest í hugviti og frumkvæði austanmanna í stað þess að "skaffa" álið.
Sámur (IP-tala skráð) 21.2.2007 kl. 22:53
Þú segir það Sámur að það hefði átt að eyða þessum miljörðum í eitthvað annað.
....).
Það er bara því miður ekki svo einfalt vegna þess að þessir peningar liggja ekki á lausu í neitt annað (eitthvað annað eins og VG myndu segja
Þú vitnar í Lýð hjá Bakkavör og það sem hann er að segja um arðsemi Kárahnjúkavirkjunar. Hann á miljarða sem kannski væri hægt að nota í þetta "eitthvað annað". Væri það svo vitlaust.
Þessi síða er hið besta skemmtiefni, enda er Ómar einn af okkar albestu skemmtikröftum.
Sumir hér eru að tala um hvað menn séu gamlir eða ungir og þar fram eftir götunum og þá segir nú fæðingarárið bara hálfa söguna.......... ég ætla til dæmis alltaf að vera strákur og ég veit líka að Ómar verður alltaf strákur og við verðum líka ungir í anda
Stefán Stefánsson, 21.2.2007 kl. 23:29
Rétt er það Jón Kristofer að þennslan er tímabundin. Hér eystra vita menn af því og haldin hafa verið málþing og fræðsluráðstefnur sem bar yfirskriftina "Er líf eftir virkjun og álver". Andstæðingar þessara framkvæmda hafi klifað á því að þetta hafi allt saman verið keyrt í gegn umhugsunarlaust af ríkisstjórninni en sannleikurinn er sá að engin framkvæmd í Íslandssögunni hefur hlotið eins vandaðan undirbúning og þessi. Það var t.d. gert ráð fyrir félagslegum þáttum í umhverfismati. Þú talar frekar niðrandi um þetta sýnist mér...fjölnota íþróttahús, bíó..álsstoðir brauðfætur og stóriðja dæmd til að mistakast. Sagan mun dæma þetta, við skulum bíða með dánarvottorðið en ég skil vel ótta ykkar. Hvað yrði verra innlegg í umræðuna um stóriðju fyrir ykkur ef vel tækist til hér á Reyðarfirði?
Og Sámur; ég hef sagt það áður hér á síðunni hans Ómars og segi það enn, peningarnir sem fara í Kárhnjúkavirkjun eru EKKI teknir úr ríkissjóði, eru EKKI teknir frá öðrum verkefnum og álverið er Ekki byggt fyrir íslenskt fé. Það er alveg sama hversu oft eða hversu margir segja að þessu fé hefði verið betur varið í "eitthvað annað", það er ALLTAF jafn vitlaust.
Gunnar Th. Gunnarsson, 22.2.2007 kl. 11:15
Ég verð að taka undir með Gunnari Theodóri. Mikið veit þetta fólk lítið um Íslensk efnahagsmál, þeir hljóta að að vera í Vinstri Grænum!
Peningarnir sem fara í Reyðarfjarðarverkefnið eru ekki úr vösum almennings hvað þá ríkissjóðs Íslands, þeir eru þannig til komnir:
Svona einfald er þetta.
Ómar nefnir Wyoming-ríki sem fyrirmynd að náttúrvernd. Wyoming er eitt fátækasta og fámennasta ríki Bandaríkjanna. Mjög fáir vilja því búa þar. Þar er lítið um atvinnu og er atvinnuleysi þar um 30%. Ríki þetta er mestmegnis byggt Indíánum. Er það kannski svona sem náttúruverndarfasistar vilja að Draumalandið Ísland eigi að vera? - þ.e. mjög ríkt og þróað Höfuðborgarsvæði vs. fátæk og fábreytt landsbyggð.
Einnig nefnir Ómar að Kárahnjúkavirkjun endist bara í 40 ár, en þetta er ekki rétt. Virkjunin endist í allt að 400 ár!
Sámur nefnir Bakkavararstrákana og skýrskotar til annarra Íslenskra fjárfesta. Málið er bara það að þessir fjárfestar eru ekki að fjárfesta á Íslandi, heldur í útlöndum. Þeir líta svo á að það borgi sig ekki að fjárfesta í atvinnuskapandi verkefnum hér á landi. Þess vegna þarf ríkið að hafa forgöngu um það líkt og gert var með Kárahnjúka og Reyðarál og o.fl. viðlíka verkefni.
Þið sem eruð á móti Kárahnjúkum og Reyðaráli, hættið að öfundast út í Austfirðinga út af þessu! Mega þeir ekki loksins fá til sín góðæri? Þetta er bara öfund í ykkur og ekkert annað!
Örn Jónasson (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 14:20
Ríkissjóður lagði ekki fyrir til þess að eiga fyrir Kárahnjúkavirkjun. Bygging virkjunarinnar var fjármögnuð með lánum sem ríkisfyrirtækið Landsvirkjun tók og ríkisfyrirtækið Landsvirkjun endurgreiðir og ríkissjóður er í ábyrgð fyrir.
Guðmundur Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 17:10
Sæll vertu Ómar, Eitt vagti mig til umhusunar og eru það allar þessar skírlsur u loftlagtsbreitgar sem gætu gertbreit heimsmyndinni (Þessara breitga er þegar farðið að gæta) þá út frá veðurfari og hækkandi sjáar máli. Ekki fyrir svo löngu var viðtal við loftlangsfræðing í kastjóli og þar var sint tölfugert líkan af jöklum landins og sínt hvering þeir eigaeftir að brjáða á næstu 100 árrum ef fram heldur sem horfir.
Þá fer maður að bæla hvað verður þá um allar þær virkjanir sem reistar verða hér eftir og verða keyrðar með afli jökulsána. Þá held ég að Karahnjúkavirkjun verði ekki þessi gull moli næstu 400 árinn eða svo. þá segi ég hvað gera ál bændur þá. Góðar stundir.
Sævar Sævarsson (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 21:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.