Sérstaða meðal flugvalla. Skortir raunhæf gögn.

Hvergi í Evrópu er hlutfall íbúa landsins eins hátt á höfuðborgarsvæði viðkomandi ríkis og á Íslandi. Og hvergi gegnir flugvöllur við höfuðborg jafn miklu lykilhlutverki og hér.

Reykjavíkurflugvöllur er önnur endastöð allra áætlunarflugleiða á Íslandi. Af því leiðir að höfuðnauðsyn er að þessi mikilvæga og ómissandi endastöð þjóni hlutverki sínu sem best.

Notagildi hans hefur áhrif á not af öllum öðrum flugvöllum en ekki öfugt. Ég tek ákveðnum tölum um mismuninn á flugvelli og Hólmsheiði með miklum fyrirvara.

Í hálfrar aldar flugi mínu og annarra þeirra, sem lengst hafa flogið að og frá Reykjavíkurflugvelli, og út frá honum í allar áttir felst reynsla sem ekki er hægt að mæla á einstökum mælingarstöðvum á jörðu niðri.

Dæmi: Í algengasta aðfluginu, úr vestri inn á austur-vestur-brautina, mótast aðflugsskilyrði mjög af iðukasti og ókyrrð í lofti sem kemur frá Reykjanesfjallgarðinum og stendur vindurinn þá eftir atvikum yfir Vífilsfell, Bláfjöll eða Lönguhlíð.

Þetta iðukast getur valdið mikilli ókyrrð í aðfluginu, sem engin mælistöð á jörðu og heldur ekki þeir, sem horfa yfir svæðið af jörðu niðri getur greint eða séð.

Eina leiðin til að skoða þetta er að gera svona aðflug að báðum flugvöllum.

Hólmsheiðarflugvöllur yrði helmingi nær Vífilsfelli og Bláfjöllum heldur en núverandi flugvöllur og ókyrrðin og iðukastið að sama skapi miklu meira.

Flugstjórar í flugvélum í aðfluginu, yrðu að fást við að halda stjórn á flugvélunum á margra kílómetra aðflugskafla yfir þéttri byggð í Vogahverfinu og Ártúnshöfða. En á aðflugsleiðinni á núverandi flugvöll er flogið í mun minni ókyrrð yfir sjó. Og nógu erfitt samt.   

Ég hef séð nefndda töluna 13 hnúta mismun á hviðum niðri við jörð, Hólmsheiði í óhag.

Þetta er ekkert smáræði og getur skipt sköpum þegar flugvélar eru komnar á lágan hraða í lágri hæð yfir þéttum íbúðahverfum í hinum algengu hvassviðrum á suðaustan á svæðinu vestan Hólmsheiðar. 

Og það, sem verra er: Það þarf ekkert sérlega mikinn vind til að skapa erfið skilyrði.

Þar að auki er Hólmsheiði mun nær Esjunni, að ekki sé talað um Úlfarsfell, en núverandi flugvöllur og hæðin yfir sjó skapar verri skilyrði þar að auki. 

Jóhannes heitinn Snorrason drap hugmynd um flugvallarstæði í Kapelluhrauni í einu flugi með þá, sem gældu við þetta flugvallarstæði.

Hann bauð þeim í flugtúr í suðaustanátt. Gerði fyrst aðflug að Reykjavíkurflugvelli og síðan sams konar aðflug að brautarstæði í Kapelluhrauni.

Skemmst er frá því að segja að farþegarnir þóttust heppnir að sleppa lifandi úr síðara fluginu, þegar þeir komu út úr flugvélinni fölir og bláir eftir þessa æluflugferð. Kannski er eina leiðin til að kanna gagnsemi flugvallar á Hólmsheiði að gera eitthvað svipað.


mbl.is „Stríðsyfirlýsing við landsbyggðina“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mæli með þér í djobbið Ómar, og skal gjarnan servera sem hægri-sætari og "pokadama".
Sumt er einfaldlega best reynt á eigin skinni, og ekki eftir einhverjum meðaltölum.
Ég er nokk viss um að fjendur Reykjavíkurflugvallar eru tiltölulega óvanir svona tuski, líkt og fjendur einkaflugs eru almennt lítt um mikilvægi þess kunnir.
En báðum finnst allt í gúddí að skreppa milli landa.

Jón Logi (IP-tala skráð) 16.3.2013 kl. 18:32

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Fisflugvöllur hefur verið á Hólmsheiði og þar yrði innanlandsflugvöllur í svipaðri fjarlægð frá Esju og flugvöllurinn í Vatnsmýri.

Austur-vesturbraut yrði aðalbrautin á Hólmsheiði
og blindaðflug mögulegt úr báðum áttum.

Hljóðspor næði hvergi inn yfir þétta byggð og Íslenskar orkurannsóknir (ÍSOR) komst að þeirri niðurstöðu í nýlegri skýrslu að afrennsli frá Hólmsheiði ógni ekki brunnsvæðum eða nágrenni vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins.

Og í nýrri skýrslu Veðurstofu Íslands, sem byggð er á veðurfarsmælingum á sex og hálfs árs tímabili, segir að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 97%.

Og nýtingarhlutfall flugvallarins í Vatnsmýri er heldur ekki 100%.

Apríl 2007: Úttekt á framtíðarstaðsetningu Reykjavíkurflugvallar, sjá mynd á bls. 47

Þorsteinn Briem, 16.3.2013 kl. 22:10

3 identicon

Steini eins og Ómar segir hér að ofan þá er hægt að mæla ótrúlegustu hluti(við jörðu, engar mælingar hafa farið fram ofar) en ekkert toppar reynsluna og vera staddur á staðnum(hæðinni) í viðvarandi skilyrðum.

Það getur verið nánast logn í Reykjavík í norðanátt en svo þegar farið er í gegnum vissar hæðar þá má þakka fyrir að þurfa ekki nýrnabelti og ný hnoð í vélarnar eftir þá reið.

Karl J. (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 03:27

4 Smámynd: Þorsteinn Briem

Veðurstofa Íslands hefur gefið út að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 97% og enginn hefur meira vit á veðrinu í öllum hæðum yfir Reykjavík og nágrenni en Veðurstofan.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 04:05

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fisflugmenn þurfa ekki að hlíta því að halda stífa áætlun um flug hvern einasta dag. Þeir fljúga á góðviðrisdögum og oftast um helgar eða á góðum kvöldum.

Á Sandskeiði er malbikaður flugvöllur, sem létthlaðinn Fokker gæti notað og hefur þetta flugvallarstæði verið í notkun í 75 ár. Hvorki Bretunum, Könunum né nokkrum heilvita flugmönnum yfirleitt hefur dottið í hug að sá flugvöllur yrði nýtilegur að staðaldri og er þó hið prýðilegasta aðflug að honum, einkum úr vestri.

Því valda veðurfarsaðstæður og nálægð við fjöll. 97% nýtingarhlutfallið er liklega of hátt metið af ástæðum, sem ég hefur lýst í bloggpistlinum. En jafnvel þótt það yrði þetta hátt þýðir það að flugvöllur á Hólmsheiði yrði ónothæfur í 11 daga á ári.

Segjum að meðallengd tímans í hvert sinn, sem völlurinn er ónothæfur, sé hálfur dagur.

Þá þýðir það að menn verða að vera viðbúnir slíkum vandræðum í 22 daga á hverju ári.  

Ómar Ragnarsson, 17.3.2013 kl. 09:59

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Líttu á kort, Steini, og mældu nú fjarlægðina frá Esjunni að flugvöllunum. Esjan er ekki aðeins nær Hólmsheiði, heldur kemst hinn algengi Hvalfjarðarvindstrengur, sem er nokkuð stöðugur vindur, ekki á sama hátt að Hólmsheiði og að núverandi flugvelli.  

Ómar Ragnarsson, 17.3.2013 kl. 10:04

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Og síðan er Úlfarsfellið hrein viðbót á Hólmsheiðarflugvelli.

Ómar Ragnarsson, 17.3.2013 kl. 10:05

8 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stjórnvöld reiða sig á niðurstöður sérfræðinga í viðkomandi máli en ekki skoðanir hagsmunaaðila og þá gildir einu hvort um er að ræða til að mynda bændur, flugmenn eða sjómenn.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 10:12

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

Esja er í um tíu kílómetra fjarlægð frá bæði Hólmsheiði og Vatnsmýri í beinni loftlínu.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 10:21

10 identicon

Steini:

"Veðurstofa Íslands hefur gefið út að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 97% og enginn hefur meira vit á veðrinu í öllum hæðum yfir Reykjavík og nágrenni en Veðurstofan."

Á þetta bara við um viðkomandi svæði, eða landið yfirleitt? Væri ekki réttara að fullyrða að " enginn hefur meira vit á veðrinu í öllum hæðum yfir Íslandi og nágrenni en Veðurstofan."

Ég á afkomu mína undir veðri, og geri mína eigin spá. Hún er venjulega byggð á spá veðurstofu, upplýsingum frá veðurstofu, með vinkli sem veðurstofan virðist ekki njóta eða nýta, - sem er mismunurinn á spá og veruleika annars vegar, og svo nákvæmlega þeim bletti sem ég er á, og ákv. radíus í kring.
Ekki vil ég lasta veðurtofuna, en"spáin mín" er oftast betri. Enda "tjúnuð" eftir þeirra upplýsingum að viðbættum upplýsingum sem þeir hafa ekki og verulegri reynslu af ákveðnum punkti, og það er ekki hægt að ætlast til þess af venjulegum veðurfræðingi að hann sé svo almáttugur að geta verið vitrastur um alla punkta á kortinu.
Svo eru það flugmennirnir, - atvinnuflugmenn læra jafn mikið um veðurfarsþróun og veðurfræðingar. Og flugmenn eiga líf sitt undir því að gera sitt rétt! En við bændurnir oftast "bara" afkomuna.
Mikið höfum við Ómar spekúlerað í veðri, og hann getur svo sem baunað á mig hvort eitthvað sé að marka mig eður ei.

En....gaman er að sjá augljósa cut & paste-fræðina, - næst verða Vatnsmýrin kannski í sömu stefnu frá Esjunni, og sömu vindstefnu, og í sömu hæð, eins og það skipti annars nokkru máli.

p.s. Hjá mér ætti að vera -2 skv veðurstofu en eru 5. Vindhraði 6m, en er nær 12-14. Flug óráðlegt (sem er fúlt, ætlaði að "organísera" flugi í dag). SKV upplýsingum veðurstofu er hjá mér flugveður, en í raunveruleikanum ekki. En það er ekkert að marka mig held ég....

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 13:50

11 identicon

EDIT:

5 átti að vera MÍNUS 5 (-5)
Vindhraði er nógur til að hafa pokann nær beinann, halli er ca 5 gráður eða svo. Gaman að vita hvað Ómar myndi skjóta á sem hraða.
Ég nota oftast Sámsstaði sem viðmiðun, þar sem skilyrði þar og hjá mér eru furðulík, og svoþekki ég þann sem sinnir þar veðurathugun. Hef stundað samanburðarmælingar v. Þykkvabæ líka, og þar er hitafar furðu svipað.
nokkrar gráður frá spá og margfaldur vindhraði getur algerlega skipt sköpum með þróun flugveðurs....

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 13:56

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Suðurland er eitt veðurspársvæði, sem nær frá Langjökli að Mýrdalsjökli og á því stóra svæði geta verið alls kyns veður samtímis.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 14:41

13 Smámynd: Þorsteinn Briem

Í nýrri skýrslu Veðurstofu Íslands, sem byggð er á veðurfarsmælingum á sex og hálfs árs tímabili, segir að nýtingarhlutfall flugvallar á Hólmsheiði yrði um 97%.

Og Veðurstofan, sem er tæplega eitt hundrað ára gömul stofnun og hefur alla tíð verið í Reykjavík, hefur að sjálfsögðu rannsakað vel veðurfar í Reykjavík og nágrenni.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 14:53

14 identicon

Væntanlega er þá Hólmsheiði ein og sér eitt veðurspásvæði, og Reykjavíkurflugvöllur annað, og svo í 100 ár?
Og að sjálfsögðu þekkir hin virðulega stofnun öll skilyrði í hvaða hæð sem er og hvar sem er betur en þeir sem FLJÚGA í gegnum loftmassan í sínum eina corpus mortalis.
Annars, ef þú ferð á vedur.is. þá færðu sitthvora spána á Heymaey, eða Sámsstaði. Ekki sama spáin. Hélt að þú vissir þetta, það þarf bara að smella á landspartinn til að brjóta hann niður. Kannski ekki lenska að flogga landið um of niður í mismunandi bletti?.

Ég tek orð reyndra atvinnuflugmanna langt yfir þín 97% Steini. En gott hefðir þú af fara í smá hálofta-tusk á svæðum þar sem engar veðurmælingar eru ástundaðar.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 15:59

15 Smámynd: Þorsteinn Briem

Jón Logi,

Það getur verið sólskin öðru megin í Svarfaðardal en rigning hinu megin á sama tíma og alls kyns veður á veðurspársvæðinu Norðurlandi eystra.

Og bæði sólskin og rigning samtímis í sömu götunni í Reykjavík.

Mér er nákvæmlega sama hvað þér finnst um hitt og þetta, eins og ég hef sagt þér nokkrum sinnum áður.

Enginn mun spyrja þig eða Ómar Ragnarsson hvar Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera.

Hins vegar er löngu ákveðið að flugvöllurinn fer af Vatnsmýrarsvæðinu.

Þorsteinn Briem, 17.3.2013 kl. 18:42

16 identicon

I beg to differ.

Það sem mér "finnst" vill valda sviða, og erfitt reynist að halda rökum. Nú er orðinn meiri munur á veðrabrigðum yfir mjóan Svarfaðardalinn heldur en á Vatnsmýrinni og Hólmsheiðinni.

Og restin af greininni....

"Enginn mun spyrja þig eða Ómar Ragnarsson hvar Reykjavíkurflugvöllur eigi að vera.

Hins vegar er löngu ákveðið að flugvöllurinn fer af Vatnsmýrarsvæðinu"

Er......della.

Jón Logi (IP-tala skráð) 17.3.2013 kl. 23:09

17 identicon

Jæja, nýjasta nýtt!

http://www.visir.is/flugvollur-a-holmsheidi-yrdi-onothaefur-i-einn-manud-a-ari-/article/2013130329812

Karl J. (IP-tala skráð) 21.3.2013 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband