19.3.2013 | 07:10
Lýsir vanvirðingu, græðgi, nísku og vanmati.
Ég minnist þess enn þegar ég ók á pínubílnum mínum um Þingvelli um hávetur og kom þangað í fyrsta sinn að vetrarlagi.
Ég og samferðafólk mitt varð agndofa yfir því hve ægifagur þessi staður gat verið í vetrarríkinu.
Ekki var kjaftur á ferð. Við vorum á eina bílnum á ferð þarna, enda viðtekin skoðun hér á landi að aðeins sé hægt að ferðast um og njóta einstæðrar náttúrufegurðar í 15 stiga hita og sólskini um hásumar.
Og síðan vælt yfir því hvað ferðamannatíminn sé stuttur.
Ég fór að aka um fleiri slóðir að vetrarlagi á þessum árum og sumar þessara ferða urðu ógleymanlegar eins og ferðin um Hvalfjörð, sem tók fram öllu því sem ég hafði og hef upplifað í hundruðum ferða á þeirri leið að sumarlagi.
Síðan eru liðin meira en 50 ár og í allan þennan tíma hefur ríkt gróft vanmat okkar Íslendinga á gildi íslenskrar náttúru að vetrarlagi.
Ég fullyrði eftir að hafa komið á svæði í þjóðgörðum erlendis sem bera má saman við Þingvelli hvað snertir stærð og ferðamannafjölda, að við sýnum Þingvöllum mikla vanvirðingu með því að ganga ekki þannig frá aðstöðu fyrir ferðafólk að það standist samanburð við það sem gerist erlendis á hliðstæðum stöðum.
Í öðru lagi lýsir það græðgi og nísku að hugsa aðeins um að græða á ferðafólkinu með því að moka því til landsins en gera ekkert á móti.
Og í þriðja lagi ríkir enn mikið vanmat á þeim möguleikum á öllum árstímum sem blunda í töfrum Íslands að vetrarlagi.
Öngþveiti framundan á Þingvöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sá ég ekki frétt um að allt væri fullbókað á Mývatnssvæðinu vegna ferðamanna sem vilja sjá norðurljósin? Mars er vetur á norðurlandi og samkvæmt staðfastri trú okkar ætti enginn að vera þar á ferð fyrr en í júní. Reyndin er önnur.
Auðvitað getur Ísland verið ferðamannastaður allt árið. Fyrir utan einstaka óveður, er ekki mikið kaldara en í Evrópu og fegurðin er engu lík.
Það er líka löngu komið í ljós að þetta "eitthvað annað" sem við hömruðum á fyrir hrun er meira virði en margir vildu viðurkenna.
Villi Asgeirsson, 19.3.2013 kl. 07:32
18.3.2013 (í gær):
Tíu milljarða króna fjárfesting á þessu ári
"Nærri 6,2 milljarðar króna af arði ríkisins af eignarhlutum þess í viðskiptabönkunum og hugsanlegrar sölu á þeim eignarhlutum verður varið til nýframkvæmda eða viðhalds fasteigna, örvunar græna hagkerfisins, skapandi greina og uppbyggingar ferðaþjónustunnar.
Áætluð skipting er sem hér segir:
Þorsteinn Briem, 19.3.2013 kl. 10:57
Nú hyggjast forsvarsmenn Blá lónsins taka 10 evrur fyrir að berja baðstaðinn augum og til afnota fyrir wc. Þegar talað var um aðstöðugjald á ýmsum stöðum var talað um örfáar evrur.
Ef Þingvallaþjóðgerður myndi setja upp 10 evrur á mann, þá væri fjármálunum borgið. En til þess þarf að leggja í kostnað sem sennilega engin penningur er til.
Guðjón Sigþór Jensson, 19.3.2013 kl. 11:57
Meðalhiti í Reykjavík í janúar 1961-1990 var mínus 0,5 stig.
En meðalhiti í Reykjavík í janúar 2013 var plús 2,7 stig.
Meðalhiti í janúar í nokkrum höfuðborgum í Evrópu:
Stokkhólmur mínus 2,8 stig,
Osló mínus 4,3 stig,
Helsinki mínus 6 stig,
Kaupmannahöfn plús 0,1 stig,
Berlín plús 0,5 stig.
Þorsteinn Briem, 19.3.2013 kl. 13:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.