1.4.2013 | 17:05
Margar árangurslausar tilraunir.
Tilraunin til þess að safna undir einn hatt þremur framboðum, sem samtals hafa nú tæplega 10% fylgi í skoðanakönnunum, kom til álita til þess að þetta fylgi verði ekki svipt 5-6 þingmönnum, sem þau fengju ef 5% atkvæðaþröskuldurinn væri ekki í gildi.
Þetta er ekki fyrsta tilraunin undanfarna áratugi til að nýta sér ákvæði kosningalaga þess efnis, að fleiri en eitt framboð geti haft samvinnu við að bjóða fram einn "móður"lista, til dæmis B, en að klofningsframboð eða annað framboð fengi leyfi handhafa móðurlistans, í þessu tilfelli B, til þess að bjóða fram listann BB, og yrði sameiginlegur atkvæðafjöldi listanna þá lagður saman við úthlutun samanlagðra þingsæta.
Ég nefni hér B-lista sem dæmi, því að ef mig minnir rétt, var farið fram á það í Norðurlandskjördæmi vestra að sérframboð hóps Framsóknarmanna fengi að bjóða fram listann BB.
Svipaðar hugmyndir hafa undanfarna áratugi skotið upp kollinum nokkrum sinnum, bæði varðandi sérframboð innan B-lista og D-lista en ævinlega rekið upp á sker.
Afstaða flokkanna sem hafa haft listabókstafina hefur byggst á því að þeir hafa óttast, að eftirgjöf í þessu efni myndi auka líkur á sundrungu innan flokksmanna þegar til lengri tíma væri litið.
2007 kom sú hugmynd upp innan raða Frjálslynda flokksins og var afar lauslega og stuttlega rædd, að Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin byðu fram listana F og FF af því að um það leyti skiptust framboðin á að detta niður fyrir 5% þröskuldinn og hætta var á að tæplega 10% samanlagt fylgi þeirra færði þeim engan þingmann í stað 5-6.
Þótt þessi hugmynd sýndist hafa þann mikilvæga kost að tryggja framboðunum þingmenn kom strax í ljós að hún var andvana fædd, enda hefðu framboðin orðið að sameinast um nýjan listabókstaf og auk þess var mikill skoðanaágreiningur varðandi ýmsa málaflokka, svo sem stóriðju- og virkjanamál.
Í viðbót við þetta var þá, eins og nú hjá framboðunum þremur, afar stuttur tími til stefnu til að safna nýjum meðmælendum og ganga frá öllum formsatriðum auk þess sem engin leið var að gera sér grein fyrir því hvernig fjölmiðlar myndu úthluta listunum tíma og aðstöðu til að kynna sig og sín mál.
Bjóða ekki sameiginlega fram | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Það er gott að það komi fram núna en ekki á næsta kjörtímabili. Við vitum öll hvernig það fór með Hreyfinguna sálugu. Allir tvístraðir og stefnulausir.
Guðlaugur Hermannsson, 1.4.2013 kl. 17:32
Þurfti ekki Borgarahreyfinguna til. Þingmenn hafa þennan rúma áratug, sem 5% þröskuldurinn hefur verið í gildi, hreyfst á kjörtímabilum á milli flokka fram og til baka og hefur enginn flokkur sloppið við það svo ég muni.
Aldrei hafa þingmennirnir sem hafa gengið úr þingflokkum fjórflokksins verið fleir en síðasta kjörtímabil.
5% þröskuldurinn er ósanngjarn, óþarfur og ólýðræðislegur og hefur ekki þjónað tilgangi sínum.
Ómar Ragnarsson, 1.4.2013 kl. 18:23
Það þarf svona um 1,6% til að koma manni inn samkvæmt 63X1,6% 100%. Það er verið að taka 3 þingmenn af flokk sem nær aðeins 4.99% atkvæða.
Guðlaugur Hermannsson, 1.4.2013 kl. 21:44
Í síðustu alþingiskosningum fékk Borgarahreyfingin fjóra þingmenn og Framsóknarflokkurinn níu, tveimur fleiri en í kosningunum 2007.
Það var nú ekki merkilegra en það hjá Framsóknarflokknum 2007 og 2009.
Þorsteinn Briem, 1.4.2013 kl. 22:20
Lesi menn nú kosningalögin vandlega kemur í ljós að 5% þröskuldurinn á eingöngu við um úthlutun jöfnunarþingsæta. Kjördæmakosnir geta menn orðið fái þeir nægilegt fylgi í sínu kjördæmi.
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 2.4.2013 kl. 09:55
En þá þarf helmingi færri atkvæði í Norðvesturkjördæmi en í Suðvesturkjördæmi til þess að koma þingmanni að.
Ójöfnuðurinn sést best á því að ef Reykjavík hefði verið eitt kjördæmi 2007 hefði Íslandshreyfingin fengið tvo þingmenn í stað einskis.
Ómar Ragnarsson, 2.4.2013 kl. 19:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.