7.4.2013 | 00:56
Hvaða gras bíta flugmenn? P.S.: Rétt orðalag hjá mbl.is.
Í frétt mbl.is um að flugmenn sofni á flugi er talað um að flugmenn vinni í beit. Hingað til hefur aðeins verið talað um grasbíta á beit en ekki í beit. "Ég bý í sveit með búfé á beit.." orti Magnús Eiríksson.
Í fréttinni er verið að lýsa því að flugmenn vinni í löngum lotum eða lengi samfellt, en af því að það er fínna að sletta ensku er talað um að vinna í beit.
"Þetta var löng lota hjá okkur" hafa menn stundum sagt eftir að hafa unnið að einhverju verki lengi samfellt.
Nú virðist ekki lengur nógu fínt að nota þau íslensku orð um þetta sem hafa þótt fullgóð fram að þessu, heldur er beit nú ekki lengur aðeins hlutskipti grasbíta, heldur líka fólks.
P. S. Nú ber svo við að í athugasemdum er greint frá því að orðtakið "að vera í beit" eða "vinna í beit" eins og sagt er í fréttinni sé gamalt og gróið orðalag og til dæmis notað hjá sjómönnum. Þetta hafði ég aldrei heyrt áður, enda aldrei verið til sjós, því miður, og vissi því ekki um þetta.
Í ljósi þessa dreg ég til baka allan ofangreindan pistil og biðst velvirðingar á honum og viðkomandi blaðamann afsökunar.
Flugmenn sofnuðu á flugi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Þetta er algengt sjómannamál Ómar.
Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 7.4.2013 kl. 01:20
Beit - sífella: þrjá daga í beit - þrjá daga í röð.
(Íslensk orðabók Menningarsjóðs, útg. 1976, ritstjóri Árni Böðvarsson, fyrrverandi málfarsráðunautur Ríkissjónvarpsins og Ríkisútvarpsins.)
Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 01:43
Hvaða gras bíta fiskar?
"Hafbeit með lax byggir á þeirri einstöku hegðun laxins að hrygna í ferskvatni og búa þar sem ungviði en sækja viðurværi sitt í sjó á síðari stigum."
Kynbætur í hafbeit
Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 01:59
Breim...Breim...blablabla - Er hann nú byrjaður í copy/paste eina ferðina enn....
Már Elíson, 7.4.2013 kl. 03:53
Sem betur fer eru það ekki allt enskuslettur orðtökin og málvenjurnar sem gamlir flugmenn þekkja ekki.
og samfella getur verið til dæmis kvenundirflík þar sem brjóstahaldari og nærbuxur mynda eina heild. ""Þetta var löng lota hjá okkur" hafa menn stundum sagt eftir að hafa unnið að einhverju verki lengi í samfellu." aaaaajjá einmitt,...flugmannamál???
Maggi (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 03:55
Þar sem ég er bæði flugmaður (var það a.m.k. einhverntíman) og bóndi, þá tel ég að þetta eigi ágætlega við mig. Ég vinn a.m.k. mikið í (hesta- og kúa-) beit á sumrin.
Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 08:07
„í beit“ var algengt orðalag um tíma í mínum uppvexti og lengi fram eftir. Þegar menn voru að vinna lengi, þá var talað um að vera að svo og svo lengi „í beit“. Merkingin er augljós: í einu, eða án þess að taka sér eitthvað annað fyrir hendur. Þegar eg starfaði 3 sumur við byggingu Sigölduvirkjunar 1974-76 þá var unnið „í beit“ jafnvel í allt að 30 tíma og jafnvel lengur ef ljúka þurfti við mikilsverða vinnu. Þannig man eg fyrsta haustið mitt þar efra að við vorum að steypa um 600 rúmmetra í botnlokunum við þær verstu vinnuasðstæður sem eg man nokkru sinni eftir. Töluverður vindur stóð af hálendinu með miklu moldroki að við vorum eins og svörtustu svertingjar. Meira að segja augu, eyru og nasir voru stútfull af þessum ósköpum. Og við vorum nokkra daga á eftir að jafna okkur á þessu.
Meðan á þessu stóð þá duttum við stundum út af, vinnufélagarnir létu okkur liggja nokkrar mínútur en síðan sendir í kaffi til að hressa okkur við. Svo var haldið áfram puðinu svo rafmagnsframleiðsla gæti hafist á réttum tíma í þágu álguðsins mikla á Íslandi til dýrðar og aukinnar vegsemdar.
Eg minnist ætíð á þessara daga þrátt fyrir allt erfiðið og puðið sem einna þeirra skemmtilegustu enda var eg nýorðinn 22ja ára þegar þarna var komið sögu.
Góðar stundir.
Guðjón Sigþór Jensson, 7.4.2013 kl. 10:49
Sæll ÓMAR, Þetta var vel þekkt orð í mínum uppvexti, að vinna að einhverju í beit, td. unnið í beit, hlaupið í beit, sofið í beit.Þe. ef eitthvað var gert í einni lotu. Þetta orð er sennilega komið úr sjómannamáli, þegar siglt var með seglum og hægt var að komast t.d. inn fjörð í beitivindi, '' í einum beit''
samúel sigurjónsson (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 12:17
Ekki telst hann ofur klár,
engan Nóbel fær í ár,
ætíð hann er afar sár,
Elíson hann heitir Már.
Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 12:32
Ómar er í einhverjum leiðrangri gegn Mogganum núna og lætur þar allt fara í þær fínustu.
Hann er nú einn frægasti afbökusmiðurinn hér og þótti sumum bara nokkuð fyndinn í dentíð.
K.H.S., 7.4.2013 kl. 13:07
Ég skal fúslega játa að ég hafði ekki áður heyrt orðtakið "að vera í beit" og dreg því aðfinnslur mínar til baka og biðst velvirðingar á þeim.
Ég er ekki og hef aldrei verið í neinni herferð gegn Mogganum, heldur hefur Morgunblaðið um áratugi vandað málfar sitt og þess vegna er mér annt um að blaðið geri það áfram.
Vinur er sá er til vamms segir.
Ómar Ragnarsson, 7.4.2013 kl. 14:25
Afbökusmiður?
Þorvaldur S (IP-tala skráð) 7.4.2013 kl. 18:24
Mér finnst Ómar koma vel frá þessum mistökum. Hann lýsir sig leiðréttan og biðst velvirðingar. Ég er honum sammála um málfarið á Mbl. Mér finnst Mogganum hafa farið verulega aftur og hvet stjórnendur blaðsins til að herða prófarkalestur og gera meiri kröfur til síns fólks í þessum efnum.
Theódór Gunnarsson, 8.4.2013 kl. 07:38
Við getum þó allir verið sáttir um það að mistök Ómars kenndu honum og okkur ekki síður, hve íslenskan er margbrotið mál. Ómar þakka þér skrifin, við lærum svo lengi sem við lifum.
Kjartan (IP-tala skráð) 8.4.2013 kl. 08:49
Morgunblaðið setti mikið niður þegar Óskar Magnússon réð vin sinn sem ritstjóra. Leiðaranir eru víða notaðir sem skemmtiefni og sama má segja um síðasta Reykjavíkurbréf á sunnudag. Þar talar Davíð um Búsáhaldabyltinguna sem kom löglega kjörinni stjórn frá völdum! Það er eins og ekkert bankahrun hafi orðið, engin mistök og ekkert til að biðjast afsökunar á. Mér fannst kostuleg lýsingin af 4 mönnum sem áttu að hafa slegið járnstromp ótt og títt fyrir utan Seðlabankann. Sennilega hefur þetta raskað sálartetrinu hjá þessum einbeitta íhaldsmanni sem Helgi Hjörvar fullyrti í grein fyrir um áratug að Davíð væri eins og klassískur kommúnistaleiðtogi.
Guðjón Sigþór Jensson, 8.4.2013 kl. 18:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.