"Gikkurinn í veiðistöðinni."

Tvö orð, græðgi og níska, koma upp í hugann þegar skoðað er hvernig við förum með Þingvallaþjóðgarð.

Græðgin nýtur sín í því að lokka milljón manns í þjóðgarðinn á ári hverju til að græða sem mest á þeim á þann hátt að nota Þingvelli sem eina af helstu tálbeituna til að fá erlenda ferðamenn til landsins og halda hástemmdar ræður fyrir erlenda fyrirmenn til að mæra þá heimsgersemi sem þjóðgarðurinn er.

Nískan felst í því að tíma ekki að gera það sem þarf til þess að koma í veg fyrir spjöll á þjóðgarðinum og vatninu.

Á fróðlegu málþingi, sem Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hélt í víkunni kom þetta glögglega fram.

Metnaðarfull lög um vernd vatnasvæðis Þingvallavatns verða lítils virði þegar litið er yfir næsta samfellda aðför að þessu sama vatni í formi umsvifa af ýmsum toga undanfarin ár sem eru að færa Þingvallavatn úr A-flokki í B-flokk og þar með að ræna vatnið einni helstu sérstöðu sinni, hreinleikanum.

Aðförin byrjaði með Nesjavallavirkjun, þar sem því var haldið fram að hún hefði engin árhrif á vatnið og að affallsvatn myndi ekki renna niður í móti út í vatnið heldur í öfuga átt til suðurs.

Fyrir áratug var komið arsen í vatnið sem var mikið feimnismál og nú hefur komið upp að eitthvað þarf að gera vegna affallsvatnsins.

Þegar farið var út í það að bæta samgöngur milli Reykjavíkur og uppsveita Árnessýslu var vaðið í það að leggja hraðbraut yfir Lyngdalsheiði í stað þess að horfa lengra til framtíðar og leysa dæmið með nýjum vegi eða jafnvel jarðgöngum um Grafningsskarð milli Ölfuss og Grafnings eða þá að gera Nesjavallaleið með bestu framkvæmanlegu framlengingu austur um fyrir sunnan vatnið að aðalleiðinni.

Eftir sem áður hefði verið hægt að gera snyrtilegan og bættan veg með bundnu slitlagi eftir hinum gamla Konungsvegi milli Þingvalla og Laugarvatn.

Nú liggur fyrir að stórvaxandi og hraðari umferð veldur vaxandi níturmengun í vatninu.

Í ofanálag er enn jarðvegseyðing og uppblástur á beitarsvæðum í Þjóðgarðinum sem verður að teljast með hreinum ólíkindum að fái að viðgangast áfram.

Nú er risin hatrömm deila milli veiðimanna og Þingvallanefndar vegna banns á veiðum að næturlagi í Þingvallavatni.

Og enn er það greinilega fjárskortur eða öllu heldur níska fjárveitingavaldsins sem greinilega er undirrótin, því að veiðimenn segja að þjóðgarðsyfirvöld séu "ódugleg" við að halda uppi eftirliti.

Hér gildir eins og oft áður að það þarf ekki nema einn gikk í veiðistöðinni, í þessu tilfelli líklega nokkra, þótt yfirgnæfandi meirihluti veiðimanna gangi vel um.

Meðferð okkar og níska gagnvart Þingvallaþjóðgarði er þjóðarskömm. Þar er ekki við Þingvallanefnd eða starfsfólk þjóðgarðsins að sakast heldur fjárveitingavaldið.  


mbl.is Veiðimenn æfir út í Þingvallanefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Briem

Stefáns Jóns var stakur sollur,
stór þó Ólafs Arnar tollur,
aldrei burtu reknar rollur,
rotið vatnið drullupollur.

Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 14:48

2 Smámynd: Már Elíson

Yfirleitt er ekki sár

en orðið get ei hamið.

Veit þó alveg upp á hár

þú ekkert getur samið.

Um náungann þú hefur níð

neyðarlegt að lesa.

Hef ei séð um ár og síð

annan eins lúsablesa.

"Breimaðu" nú á móti (á þinn eina hátt...) !

Már Elíson, 7.4.2013 kl. 15:51

3 Smámynd: Þorsteinn Briem

Skekur hér nú skökul sinn,
í skarni aftur fann hann Finn,
við hann dansar kinn við kinn,
í kaldan rassinn Már fer inn.

Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 16:03

4 Smámynd: Már Elíson

Takk - Nákvæmlega eins og ég bjóst við.

Már Elíson, 7.4.2013 kl. 17:12

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Það er gott að þú ert ánægður með þetta, Már Elíson.

Þorsteinn Briem, 7.4.2013 kl. 17:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband