8.4.2013 | 00:52
Ábyrgt afturhvarf hjá OR. En stóriðjufíknin lifir samt.
Landsvirkjun má fara að taka Orkuveitu Reykjavíkur sér til fyrirmyndar um ábyrg og gætileg vinnubrögð í stað þess æðibunugangs, sem hófst hér á landi 2002 og varð hluti af kollsteypu og hruni.
Hér á síðunni mun ég birta nokkrar myndir til að útskýra hluta af því, sem nú er verið að ákveða hjá OR, myndir teknar í svonefndum Krókdal, sem OR hefur hingað til stefnt að að sökkva í samvinnu við stóriðju- og virkjanafíkla fyrir norðan, en er nú hætt við.
Lítum á tvö athyglisverð mál, sem nú er verið að afgreiða hjá OR.
Orkuveitan hefur ákveðið að fara fram á átta ár til að leita að leiðum til að leysa vanda vegna brennisteinsmengunar, niðurdælingar og affallsvatns og virkjar ekkert hér syðra á meðan!
OR ætlar líka að læra af því hvernig fyrirtækinu var kollsteypt með himinháum lántökum til fáránlegra verkefna, jafnvel hinum megin á landinu.
Á sama tíma og OR sýnir að þar á bæ vilja menn fara að læra af mistökum fortíðar, sem meðal annars fólust í að treysta mati á umhverfisáhrifum sem flaug í gegn, af því að þar áttu öll fyrrgreind vandamál að vera leyst, en hefur nú brugðist, ætlar Landsvirkjun að hanga á álíka gömlu og jafn úreltu mati á umhverfisáhrifum Bjarnarflagsvirkjunar og stefna með því hinu einstæða samblandi lífríkis og jarðmyndana Mývatns og frægð þess í hættu.
En í borgarstjórn lifir enn í gömlum glæðum virkjanafíkninnar því að borgarfulltrúi Sjalla mótmælir harðlega sölu á hlut OR í virkjanabrölti hinum megin á landinu og segir að Hrafnabjargavirkjun sé eina skaplega vatnsaflsvirkjunin sem í boði sé.
Með Hrafnabjargavirkjun á að þurrka upp Aldeyjarfoss, fegursta stuðlabergsfoss landsins, og fleiri fossa, og sökkva hinum 35 kílómetra langa Krókdal, grónum að hálfu, sem er er einstakur fyrir veðursæld, af því að hann skerst langleiðina inná mitt hálendið á milli hálendishálsa, sem liggja 400 metrum hærra.
Innst við vestanverðan dalinn er Kiðagil, sem er með mögnuðustu gljúfrum landsins.
En af því að þetta svæði allt er kyrfilega reyrt í viðjar þöggunar um þau náttúruverðmæti Íslands sem gætu flækst fyrir stóriðju- og virkjanafíklum, hefur það verið á dagskrá sem sérstakt hagsmunamál Reykvíkinga að leggja fé þeirra í náttúruspjöll sem víðast um allt land.
Niðurstaða eftir ítarlega vinnu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
22.3.2013:
Orkuveita Reykjavíkur tapaði 2,3 milljörðum króna árið 2012
Þorsteinn Briem, 8.4.2013 kl. 01:20
Ekki er ég á því bit,
enginn sauð vill svartan,
ekki hefur á því vit,
auminginn hann Kjartan.
Þorsteinn Briem, 8.4.2013 kl. 01:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.