Gula bókin, kaupfélagsstjórinn á Fáskrúðsfirði og lendingarstaðir.

Oft er engin leið að átta sig á því hvaða mál ber hæst á góma allra síðustu dagana fyrir kosningar. 

Rétt fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1958 var því slegið upp í Morgunblaðinu að nefnd á vegum vinstri stjórnarinnar, sem átti að gera úttekt á húsnæðismálum, hefði í gulri skýrslu viðrað stórvarasamar hugmyndir sem ógnuðu frelsi fólks í húsnæðismálum.

Sjálfstæðisflokkurinn fékk 10 menn kjörna af 15 í borgarstjórn í stórsigri, en ekkert hefur frést af Gulu bókinni síðan og hvar hún af sjónarsviðinu eftir kosningar jafn skjótt og hún hafði birst.  

Þessa síðustu daga fyrir kosningar fékk plaggið nafnið "Gula bókin" og kemur hún við sögu í laginu "Bjargráðin", sem var sungið siðar.

Bjarni Benediktsson var þá ritstjóri Morgunblaðsins og í í bragnum er þessu lýst svona.

Ég leitaði að Bjarna Ben sem best veit hlutina

og brátt ég fann hann rétt við sorpeyðingastöðina, -

hann var að fara með gömlu, góðu Gulu bókina...

Viku fyrir alþingiskosningarnar 1967 fóru málefni kaupfélagsstjórans á Fáskrúðsfirði á forsíður Morgunblaðsins varðandi uppsögn hjá kaupfélaginu eða eitthvað svipað, sem enginn maður mundi síðar eftir þegar kosningum lauk.

Svo mikilvægur varð Fáskrúðsfjörður vegna þessa að bæði Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn fengu mig með nokkurra daga millibili til að koma austur og skemmta á heitum baráttusamkomum, svo mikið þótti liggja við.

Sjálfur hef ég lent í því að slegið var upp stórfelldu afbroti mínu á Kárahnjúkasvæðinu í beinni útsendingu í Sjónvarpinu í kosningavikunni, hæfilega stuttum tíma fyrir kosningarnar til þess að ekki yrði hægt að verjast atlögunni. 

Átti ég að hafa framið þar umhverfisspjöll sem gætu varðað allt að 2ja ára fangelsi og væri búið að kæra mig fyrir þetta til lögreglunnar.

Fólust meint afbrot mín  í því að ég hefði lent flugvél ofan í Hjalladal, sem reyndar var búið að fylla af vatni og drullu þegar þessu var slegið upp.

Einnig á stað fyrir vestan Hálslón, sem hefur haft örnefnið "flugvöllur" í 75 ár frá því að Agnar Koefoed-Hansen lenti þar 1938 og falaðist eftir leyfi landeiganda til að merkja þar lendingarstað.

Í sjónvarpsfrétt um málið var sýnd mynd af afbroti mínu, og sást ég lenda þar flugvélinni TF-FRÚ og út steig Geir Haarde, þáverandi forsætisráðherra!  Síðar hafði Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra, einnig gerst meðsek á sama hátt.

Málareksturinn vegna flugvallarmálsins tók heilt ár og eftirtaldir málsaðilar voru dregnir inn í þetta mál: Náttúruverndarráð, Umhverfisstofnun, landeigandinn á Brú, skipulagsnefnd, sveitarstjórn og sveitarstjórn Norður-Héarðs, rannsóknarlögreglan á Egilsstöðum, Vegagerðin, Impregilo, Landsvirkjun, Landmælingar Íslands, Flugmálastjórn Íslands og sýslumaðurinn eystra.

Sýslumaðurinn vísað að lokum kærunni frá á þeim forsendum að ekki fyndist neitt saknæmt athæfi.

Í túni kærandans mátti sjá á þriðja tug bílhræja!

Sem sagt: Engin leið að spá fyrir um uppsláttarmál fyrir kosningar!  


mbl.is Sömu kosningaloforðin í áratugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband