28.4.2013 | 02:51
Tíu þingmenn "detta niður dauðir", - besta mál?
Það er að vísu ekki búið að telja, en ef það fer þannig, að Pírater komi ekki manni á þing, þótt atkvæðamagnið hefði annars skilað þeim þremur til fjórum þingmönnum er komið að því sem ég hef varað við í mörg ár og talið mjög ólýðræðislegt, að þriðji stærsti hópur þjóðarinnar, þeir sem geta jafnvel haft samanlagt allt að 20% fylgi, fái enga fulltrúa á þingi.
Þetta er mjög há tala, samsvarar kjósendafjölda eins og hálfs landsbyggðarkjördæmis, og enginn myndi telja það sanngjarnt að Norðausturkjördæmi fengi engan þingmanna og Norðvesturkjördæmi aðeins tvo.
En nú horfir maður á það í umræðum í sjónvarpinu, að formenn stærstu stjórnmálaflokkarnir láti sér það vel líka að atkvæðafjöldi, sem annars myndi skila inn 10 þingmönnum, "detti niður dauð."
Auðvitað gera þeir það, því að það auðveldar þeim það að mynda hér fleiri en eina gerð af stjórn sem nýtur stuðnings minnihluta kjósenda.
Ástæða þess að fylgi Pírata er lægra en í skoðanakönnunum getur stafað af því að þar er um að ræða fólk, sem margt er áhugasamt um þjóðmál og berst fyrir netlýðræði og beinu lýðræði, en er kannski ekki eins líklegt til að hafa fyrir því að fara á kjörstað.
Í skoðanakönnun kemur þátttakan af sjálfu sér og er næsta fyrirhafnarlítil, miðað við það að fara á kjörstað, bara að svara í símann á þeim stað, sem viðkomandi er staddur.
16% kusu flokk sem ekki fær mann kjörinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Kosningar á Íslandi eftir hrun eru að mörgu leyti hörmungarsaga sem hafa grafið sífellt meira undan trú minni á lýðræði hér á Fróni. Ef niðurstaða þessara kosninga verður sú að Píratar ná engum manni inn á þing og 15-20% þeirra sem greiddu atkvæði fá engan fulltrúa á þing þá kemur vel til greina hjá mér að hreinlega gefast upp og hætta að taka þátt í þessum skrípaleik sem kallast "lýðræði" á Íslandi.
Ég tók þátt í kosningunni til stjórnlagaþings og var nokkuð sáttur við útkomuna, en varð forviða þegar Hæstiréttur gerðist hápólitískur og ógilti kosninguna vegna meints, mjög hæpins "formgalla" (því þessi sami hæstiréttur og kaus að ógilda kosninguna vegna "formgalla" kaus jafnframt að líta fram hjá því að í kosningalögum stendur að einungis megi ógilda kosningu ef leiða megi líkur að því að formgallar hafi haft BEIN áhrif á niðurstöðu kosninganna - og hann gat ekki gert það - og því má beinlínis segja að hæstiréttur hafi kosið að brjóta lög með niðurstöðu sinni).
Svo kom að kosningunum um stjórnarskrána. Ég var einn af þeim fjölmörgu sem hafði fyrir því að kynna mér málin, mynda mér skoðun, og greiða atkvæði samkvæmt minni sannfæringu. Almennt var ég sáttur við niðurstöðuna, en þó að ég væri ósammála sumum liðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar - t.d. um þjóðkirkjuna - hugsaði ég með mér: "Þjóðin kaus og þjóðin vill hafa þetta svona" - og sætti mig við þær niðurstöður þar sem meirihluti þeirra sem greiddu atkvæði voru mér ósammála.
Það hvarflaði aldrei að mér að Alþingi Íslands myndi gerast svo sjálfhverft að hunsa niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu. En þar sem minnihlutanum á þingi var leyft að ráða og það var beinlínis hindrað að atkvæðagreiðsla færi fram á þingi - þannig að fólk gæti áttað sig á því hvaða þingmenn væru til í að skrá atkvæði sitt gegn þjóðarvilja - þá dofnaði von mín um raunverulegt lýðræði verulega.
Ef niðurstaða þessara kosninga verður sú að atkvæðafjöldi sem undir venjulegum kringumstæðum hefði 10 menn á þingi fær engan - þá ætla ég að feta í fótspor góðrar konu sem ég þekki sem sagði eftir skrípaleik hæstaréttar vegna stjórnlagakosningarinnar: "Ef svona hálfvitaháttur á að flokkast undir lýðræði, þá er ég hætt að taka þátt í því."
Þessi manneskja hefur ekki kosið síðan þá - og miðað við afrakstur minn á fyrirhöfninni við að kynna mér málin og reyna að taka þátt í hinu meinta "lýðræði" - þá sé ég lítinn tilgang í því að taka þátt í þessum áframhaldandi skrípaleik.
Á meðan atkvæði úti á landi hafa næstum helmingi meira vægi heldur en mitt hér í borginni: HFF!
Á meðan 5% múrinn verður áfram við lýði: HFF!
Á meðan enginn sem vald hefur hér á landi kærir vafasama kosningaúrskurði hæstaréttar til Evrópudómstólsins: HFF!
Haraldur (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 03:40
"...þriðji stærsti hópur þjóðarinnar..." Nei, þeir eru ekki hópur, og það háir þeim. Góð kveðja.
Sigurður (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 03:45
Það er nú ekki erfiðara að fara á kjörstað í Reykjavík en í næstu matvöruverslun og mér þykir harla ólíklegt að Píratar fái alltaf heimsendan mat.
Skoðanakannanir eru ekki kosningar og Píratar hafa meira fylgi meðal ungs fólks en gamals, sem í sumum tilfellum er ekki spurt í skoðanakönnunum.
Þorsteinn Briem, 28.4.2013 kl. 03:45
Hlutfall kjósenda sem ekki fær fulltrúa á þingi núna er þó aðeins lægra en hlutfall kjósenda í stjórnlagaþingskosningunni sem ekki fékk neinn fulltrúa. Það kosningakerfi var þó talið hafa þann sérstaka kost að ná að endurspegla vilja kjósenda. Stjórnlagaráðsliðar töldu þetta þó ekki sérstakt vandamál.
Stefán Pálsson (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 04:08
Pírater fengu 3 mann kjörna en Dögun og Flokkur heimilina náðu yfir 2,5% mörkin sem þarf til að eiga rétt á framlagi frá ríkinu.
Ég veit ekki hvað talan er há en gæti trúað að það gæti verið 40 til 60 milljónir út kjörtímabilið. Þessa peninga má sem dæmi eftir að búið er að borga skuldirnar vegna kosningarnar 2013 nota í næstu baráttu eða hreinlega til að styðja þá sem minna mega sín vegna hrunsins
Baldvin Nielsen
B.N. (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 08:51
Það er tvennt, sem þarf að bæta hér. Í fyrsta lagi þessi fáránlegheit að vera með mörg kjördæmi með mismunandi vægi atkvæða í stað þess að vera með eitt kjördæmi fyrir þetta litla mengi, sem kallast íslenskir kjósendur. Í öðru lagi þarf að afnema 5% "gólfið". Ég veit hinsvegar ekki hvernig verður hægt að laga gallaða stjórnarskrá og kosningalöggjöf ef þingmenn komast upp með að hundsa ákvarðanir þjóðarinnar í þeim efnum.
Reyndar má nefna eitt til viðbótar, sem gæti orðið til einföldunar og sparnaðar í stjórnsýslunni hér, en það er að hafa stjórnsýslustigið bara eitt, sleppa sveitastjórnarvitleysunni, sem virðist bara viðhaldið svo iðjuleysingar og rugludallar geti verið á framfæri almennings sem sveitarstjórnarfulltrúar.
E (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 10:01
Jón Einar Jónsson (IP-tala skráð) 28.4.2013 kl. 10:38
"Fulltrúalausu atkvæðin urðu 22.295 og aðeins munaði hársbreidd að þau yrðu tæplega 32 þúsund.
Er þetta kerfi í lagi?"
Þorsteinn Briem, 28.4.2013 kl. 13:11
Eftir að pistillinn var skrifaður duttu Píratarnir inn með því að auka fylgi sitt úr 4,9% í 5,1%.
Svona kerfi er ekki í lagi. Er það í lagi að með því að fá 0,2% greiddra atkvæða aukið fylgi fari þingmannafjöldinn úr 0 í 3 ?
Ómar Ragnarsson, 28.4.2013 kl. 20:09
Það sem er ekki í lagi hér er þetta 5% ákvæði. Það er engin ástæða til þess að flokkur sem hvergi nær kjördæmakjörnum manni, fái jöfnunarsæti. Þetta er vís leið til smáflokkaframboða eins og dæmin sanna. Afleiðingin er að umræður verða engar í sjónvarpi í aðdraganda kosninga. Það hafa varla margir nennt að fylgjast með umræðum þar sem allt að 14 framboð tóku þátt. Það falla alltaf "dauð" atkvæði eins og Þorkell Helgason skýrði ágætlega og þá er sama hvaða lista um er að ræða.
Skúli Víkingsson, 28.4.2013 kl. 22:56
Sú var tíðin að fullyrt var að Sjálfstæðisflokkurinn fengi fylgi eftir því sem veðrið væri. Þegar veðrið væri ágætt, þá átti flokkur þessi að fá yfirburðafylgi en minna þegar veður væru válynd.
Að þessu sinni voru það brattar yfirlýsingar og djörf kosningaloforð Sigmundar Davíðs sem trekkti allt of marga til fylgis við Framsóknarflokkinn.
Spurning er hvort honum verði kápan úr því klæðinu. Sjálfstæðisflokkinn þyrstir í völdin en hagar sér sem köttur kringum heitan graut. Augljóslega vefst fyrir mönnum kosningaloforð Sigmundar Davíðs enda mun ekki auðvelt að efna þau. Hvaða samstarfsflokkur vill taka ábyrgð á svona ódýrum kosningaáróðri?
Guðjón Sigþór Jensson, 30.4.2013 kl. 17:12
Það er nokkuð til í þessu með veðrið og fylgi Sjálfstæðisflokksins. Ef veður er fúlt verður fólk fúlt í skapi og kýs þá frekar til vinstri en ef það er í góðu skapi.
Skúli Víkingsson, 30.4.2013 kl. 17:13
"Ef þið kjósið ekki öll Sjálfstæðisflokkinn verðið þið rekin af elliheimilinu!," sagði Gísli og brosti svo fallega.
Þorsteinn Briem, 30.4.2013 kl. 18:01
Með sínum Bjarna svitnar heitur,
Sigmundur þar undirleitur,
eins og Dallas eftirhreytur,
annar dauður, hinn er feitur.
Þorsteinn Briem, 6.5.2013 kl. 01:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.