5.5.2013 | 13:18
Mættu líka fara í bíó.
Það er ágæt hugmynd að fara afsíðis í stjórnarmyndunarviðræðum eins og Sigmundur Davíð og Bjarni gera núna. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún fóru til Þingvalla og Davíð og Jón Baldvin út í Viðey.
Ólafur Jóhannesson sagði 1978, að það hefði bjargað því að hægt var að mynda stjórn það sumar, af því að Sjónvarpið var í sumarfríi í júlí !
Nafnið Viðeyjarstjórn var snjallt áróðursbragð, af því að það var svo líkt nafni Viðreisnarstjórnar sömu flokka. Því ætla ég bara að vona að formenn Framsóknar og Sjalla séu ekki að ræðast við í Hrunamannahreppi, ég tala nú ekki um ef bústaðurinn er nálægt Hruna, því að þá er hætta á að stjórnin fái heitið Hrunastjórnin eða Hrunamannastjórnin.
Ég held það væri líka hollt fyrir þá, ef þeir mættu vera að því, og þá kannski líka fyrir komandi umhverfis-og auðlindaráðherra, að skjótast í klukkustund klukkan sex einhvern daginn niður í Bíó Paradís og sjá myndina "In memoriam?" sem var gerð síðla árs 2003 og dregur áhorfendur inn í andrúmsloftið það ár fyrir réttum tíu árum.
Í lok myndarinnar er eftirmáli og kíkt á nokkur atriði, sem eru með grafskriftinni "In memoriam" án spurningarmerkis.
Fyrir áratug var margt fullyrt og öðru haldið leyndu varðandi eðli og áhrif Kárahnjúkavirkjunar, og er dauði Lagarfljóts og útlitseyðilegging örlítið dæmi um það.
Myndin hér að neðan er af fljótinu fyrir virkjun og Kirkjufossi, sem var þurrkaður upp ásamt tveimur öðrum stórfossum auk tuga smærri fossa.
Einnig er mynd af Töfrafossi, en honum var drekkt í Hálslón.
Nú stendur svipað fyrir dyrum og þegar eldur var lagður að þjóðarbúinu fyrir tíu árum og þenslu hleypt af stað, fyrst 2002, en síðan ákveðið 2003 með öflun meira en 600 megavatta orku fyrir eitt risaálver.
Fyrir liggja yfirlýsingar forráðamanna Norðuráls og annarra álfyrirtækja um að lágmarksstærð álvers til að það geti gefið nægan arð sé um 350 þúsund tonna framleiðsla á ári.
Nú þarf 625 megavött fyrir risaálver syðra að mati sömu flokka, en það mun kosta á annan tug virkjana frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið, gríðarlegar fórnir náttúruverðmæta, auk þess sem stór hluti virkjananna verður hrein rányrkja, þar sem orkunni er sópað upp á háhitasvæðunum og kláruð á nokkrum áratugum.
Er virkilega ekki hægt að hugsa sér eitthvað aðeins skaplegra en þessi ósköp?
Hvað um það, Það væri vel þegið ef sem flestir sæu sér fært að líta inn í klukkustund í Bíó Paradís klukkan sex þessa daga, sem myndin er sýnd þar.
Myndin fjallar ekki aðeins um Kárahnjúkavirkjun heldur einnig um hálendið norðan Vatnajökuls og stöðuna varðandi það, eins og hún var 2003.
Neðsta myndin er af helmingi hins 25 kílómetra langa og 200 metra djúpa Hjalladals sem var sökkt með tæplega 40 ferkílómetrum af gróðurlendi auk einstæðra jarðminja, svo sem sethjalla og litfagurra og fjölbreytilegra kletta og gljúfurs á botninum.
Bæti síðan við mynd af Herðubreið í miðnætursól, séðri ofan frá Vatnajökli suður af Kverkfjöllum.
Rétt er að geta þess að þessum myndum er kippt út úr kvikmyndinni á afar frumstæðan hátt og því hvergi nærri í fullum gæðum.
Fóru saman út úr bænum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Gárungarnir voru fljótir að þefa þá uppi. Þeir eru í sumarbústað í "HRUNAMANNA"hreppi
Ragna Birgisdóttir, 5.5.2013 kl. 13:26
Út'á landi elskast þeir,
í eðaldrossíunum,
kyngja þar svo kallar tveir,
Krónubolsíunum.
Þorsteinn Briem, 5.5.2013 kl. 14:34
Það er áfall fyrir umhverfið ef þessi stjórn verður að veruleika. Þeir sem kusu þessa tvo flokka, heimta margir hverjir stóriðju og segja að þetta sé lýðræðisleg niðurstaða. Umhverfið hlýtur samt að eiga einhvern rétt, eða hvað?
Theódór Norðkvist, 5.5.2013 kl. 15:23
Góðar fréttir í Vísi í dag Alcoa er að stækka verksmiðjuna sína í Tennessee í Bandaríkjunum vegna þess að bílaframleiðendur eru farnir nota meira af álblöndum í bílana sína. Þetta er náttúrulega þjóðþrifa mál, það er mjög auðvelt að endurnýta álið með litlum tilkostnaði eftir að bíllinn er ónýtur. Hann verður léttari en venjulegur bíll sem framleiddur eru úr stáli og mengar þess vegna minna, og ódýrara fyrir okkur ökumennina.
Við skulum bara vona að þeim Sigmundi og Bjarna auðnist að ná saman og komi álverinu í Helguvík í gang og útrými þar með atvinnuleysi á Suðurnesjum.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 5.5.2013 kl. 17:41
Það er "skómigustefna" að "útrýnma atvinnuleysi" með því að veita ákveðnum fjölda vinnu við stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, sem síðan verður allur atvinnulaus þegar framkvæmdum lýkur, framkvæmdum sem munu eyðileggja framtíðarstörf í kringum óspilltar náttúruperlur á borð við Eldvörp og Krýsuvík, störf sem yrðu fleiri en þau 450 störf sem að lokum myndu skapast i álverinu.
Þar að auki eru störfin í álverinu margfalt dýrari hvert en nokkur önnur ný störf í þjóðfélaginu.
Í skoðankönnun nýlega var drúgur meirihluti aðspurðra á móti fleir álverum. Um þau var ekkert rætt í kosningunum og auk þess sýna greiningar á skoðankönnunum að kjósendur flokkanna eru klofnir í afstöðu sinni og flokksforingjanrir því ekki nem neitt umboð frá þjóðinni til að þess að fara í svipaðan hernað gegn landinu og 2003 með svipuðum ömurlegum afleiððingum.
Ég sé ekki fyrir mér að Suðurnesjamenn muni þyrpast austur í sveitir og alla leið austur í Skaftafellssýslu og upp á hálendið í virkjanaframkvæmdir þar til þess eins að verða aftur atvinnulausir þegar framkvæmdum lýkur.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2013 kl. 20:54
Jamm, íslensku orkufyrirtækin "græða á tá og fingri" og þurfa að sjálfsögðu ekki að taka gríðarleg lán erlendis til að fjármagna frekari framkvæmdir.
Hvað þá að greiða af þessum lánum afborganir og vexti.
22.3.2013:
Orkuveita Reykjavíkur tapaði 2,3 milljörðum króna árið 2012
23.3.2011:
"Landsvirkjun og Evrópski fjárfestingarbankinn (EIB) skrifuðu í dag, 23. mars, undir nýjan lánasamning að fjárhæð 70 milljónir evra, jafnvirði 11,3 milljarða króna.
Lokagjalddagi lánsins er á árinu 2031 og ber lánið millibankavexti, auk hagstæðs álags.
Í lánasamningnum er ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.
Lánið er mikilvægur áfangi í fjármögnun Búðarhálsvirkjunar en Landsvirkjun undirritaði sambærilegt lán frá Norræna fjárfestingarbankanum þann 16. mars síðastliðinn að fjárhæð 70 milljónir Bandaríkjadollara [um níu milljarðar króna].
28.10.2012:
"Álverið [í Straumsvík] mun nota 75 megavött af þeim 95 sem Búðarhálsvirkjun skilar á fullum afköstum."
Álverið í Straumsvík mun fá raforku frá Búðarhálsvirkjun
Þorsteinn Briem, 5.5.2013 kl. 21:05
10.4.2013:
HS Orka hf. - Sautján atriði sem hafa tafið framkvæmdir við álver í Helguvík
Þorsteinn Briem, 5.5.2013 kl. 21:37
"Ódýrari fyrir okkur, eigendurna". Rangt. Ekki venjulega bíleigendur, heldur fyrir þá sem eiga nóg af seðlum.
Ál er mun dýrara en stál og þess vegna sáralítið notað í ódýrustu bílana. Ál er aðallega notað í þyngstu og stærstu bílana þar sem kaupendurnir hafa ráð á að borga fyrir það.
Audi gerði tilraun með að framleiða álbílinn A2 en hann var of dýr og þeir urðu að gefast upp.
Panhard gerði líka tilraun til að framleiða Dyna-bílinn 1954, sem var snilldar bíll, en verksmiðjurnar urðu að gefast upp og breyta honum í bíl úr stáli.
Ál er enn sáralítið endurunnið í Bandaríkjunum og er magnið svo mikið, sem fer í súginn, að samsvarar nokkrum risaálverum.
Ómar Ragnarsson, 5.5.2013 kl. 22:58
Hrunamannahreppur er stundum kallaður Gullhreppurinn, því þar býr dugmikið og hugsandi fólk.
Kanski verður viðurnefnið Gullstjórnin.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 5.5.2013 kl. 23:31
Ómar, - selur þú kannski þessa mynd á diski? Myndi nú gjarnan kaupa 2 stk!
Jón Logi (IP-tala skráð) 6.5.2013 kl. 22:02
Það kemur bara vel til greina að skoða það.
Ómar Ragnarsson, 7.5.2013 kl. 01:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.