Loksins aftur, eftir 43ja ára hlé!

Tveir handknattleiksþjálfarar settu mest mark á íslenskan handbolta fyrir 50-60 árum, Hallsteinn Hinriksson sem þjálfaði FH og Karl Benediktsson, sem þjálfaði Fram. Hallsteinn var fyrr á ferðinni og hafa sumir kallað hann föður íslensks handbolta, en þess má geta að handbolti var líka spilaður í litla íþróttahúsinu við M.R. og stóð Valdimar Sveinbjörnsson að því. 

Hafa mér fundist furðu gegna hugmyndir um að rífa þennan einstaka íþróttasal, hinn fyrsta, sem reistur var sérstaklega á Íslandi.

FH átti stórstjörnur í kringum á sjöunda áratug síðustu aldar, Geir og Örn Hallsteinssyni, Ragnar Jónsson, Birgi Björnsson, Hjalta Einarsson, Einar Sigurðsson, Pétur Antonsson o.fl., og voru það einkum skytturnar, sem voru rómaðar. 

Karl Benediktsson lét Fram spila öðruvísi handbolta, sem treysti meira á liðsheildina og leikkerfi með öguðum varnarleik og sókn með línuspili, sem hafði mikil áhrif á hinn blómstrandi íslenska handbolta á þessum áratug þegar Íslendingar urðu allt í einu í röð efstu þjóða á HM.

Dæmi um nýja tegund af skyttum var Guðjón Jónsson, sem skoraði yfirleitt með lúmskum lágskotum í gegnum varnarveggi á svo hógværan hátt að maður tók varla eftir því.

Upp úr 1970 kom fram tvíeykið Axel Axelsson og Björgvin Björgvinsson, sem var eitt hið besta tvíeyki sinnar tegundar sem ég minnist, - Axel sem skyttan og Björgvin sem línumaðurinn.

Því miður er ekki til einstætt myndbrot sem tekið var af þeim tveimur í landsleik við Austur-Þjóðverja þar sem Axel lyftir sér upp fyrir framan þéttan varnarvegg steratröllanna og skýtur föstu skoti, ekki yfir veginn, heldur niður á við, þar sem á milli tveggja varnartrölla sjást tvær útglenntar hendur og tvö augu á milli þeirra. 

Þar var Björgvin sem greip hið fasta skot, sneri sér eldsnöggt og skoraði!

Það er ekki tilviljun að Fram vann síðast tvöfalt 1970. Þá stóð sérstakt blómaskeið félagsins sem yljar enn í minningu gamals Fram-hjarta.  


mbl.is Tvöfalt hjá Fram í þriðja sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vel gert !!!

Hjörtur Sæver Steinason (IP-tala skráð) 7.5.2013 kl. 21:25

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband