12.5.2013 | 17:15
Suðrið betur sett en Norðrið á endanum ?
Sólin sendir meiri orku frá sér til jarðar nærri miðbaugi hennar en nær heimskautunum. Nýting jarðefnaeldsneytis felst í því að eyða uppsafnaðri sólarorku frá milljónum ára, sem varðveist hefur í jarðlögunum, á innan við 0,0001% af þeim tíma sem það tók að þessi orka safnaðist þar saman.
Þessi orkunýting er einhver hrikalegasta rányrkja sem stunduð hefur verið í sögu mannkynsins þegar menn horfa á hana í stóru samhengi til lengri tíma, en menn hyllast hins vegar til að láta sér sjást yfir þá ljótu og nöpru staðreynd, af því að þeir horfa aldrei lengra fram en í mesta lagi í nokkur ár eða áratugi þegar allra best lætur.
Þótt Suðrið muni fara illa út úr því þegar jarðefnaeldsneytið verður uppurið þar um slóðir, er ekki loku fyrir það skotið að það muni samt sem áður eiga auðveldara með að finna nýja og betri leið til að nýta sólarorkuna beint en tekist hefur enn sem komið er.
Og þá standa þessi lönd betur að vígi en hin norðlægari lönd, sem hafa úr minna af sólarorkunni að spila.
Horft til sólarorku í eyðimörkinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Við höfum nú fallvöttnin og jarðhitann og svo má nú gera ráð fyrir því að nýir orkugjafar muni finnast í framtíðinni eins hröð og þróunin hefur verið núna síðan iðnbyltingin hófst!
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 12.5.2013 kl. 17:38
Ástum sólar eftir sé,
eldum hennar heitum,
logandi var Linda Pé,
á loðnum kennileitum.
Þorsteinn Briem, 12.5.2013 kl. 17:50
Þróunin síðan iðdnbyltingin hófst fyrir 240 árum hefur ekki verið hraðari en það að enn eru notuð jarðefnaeldsneyti.
Og ekki verið hraðari en það að enn er notuð vatnsorka 130 árum eftir að farið var að nota hana.
"Ný tækni mun leysa þessi vandamál í framtíðinni" er uppáhalds setning þeirra, sem vilja ana áfram af ábyrgðarleysi í rányrkjuhugsun okkar tíma.
Ómar Ragnarsson, 12.5.2013 kl. 19:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.