Munurinn á Afríku og Íslandi.

Í því Afríkulandi, sem ég þekki best til, eru þjóðartekjur á mann 300 sinnum minni en á Íslandi. Íslendingur hefur sem sé um það bil jafn miklar tekjur á degi hverjum og meðaljóninn í Eþíópíu hefur allt árið. 

Þegar flogið er yfir landið blasa við óteljandi strákofaþorp og bæir þar sem reykur stígur upp úr strákofunum þegar fólk er að elda mat eða hita á næturna.

Í landinu blasa við gríðarlegir virkjanamöguleikar í bæði vatnsfafli og jarðvarma. 

Ég hef ekki séð í neinum handbókum að í þessu landi sé að finna svæði, sem sé í flokki mestu náttúruundra heims. Hinn eldvirki hluti Íslands er hins vegar í hópi 40 mestru undranna, þar sem sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn kemst ekki á blað.

Inga fossarnir í Kongó eru ekki fossar í þeim skilningi, sem við Íslendingar notum í því orði, heldur ógnarlangar flúðir sem samanlagt gera þær að vatnsmestu flúðum heims. Að því leyti eru þær merkar, þótt ekki falli þær í sama flokk og til dæmis Viktoríufossarnir og aðrir frægustu fossar heims og komist á blað í flokki mestu náttúruundra heims. 

Þótt Íslendingar væru fátækir þegar virkjun Gullfoss og annarra fossa komst á dagskrá fyrir 100 árum, var fátæktin ekki slík sem hún er í Afríku. Við fórnuðum fossum og flúðum þegar við rafvæddum landið til að koma rafmagni inn á hvert heimili, hvern bæ og í hvert fyrirtæki.

Við þurrkuðum upp Ljósafoss, Írafoss, Tröllkonuhlaup, Þjófafoss, Hrauneyjafoss, Mjólkárfossa, Skeiðsfoss, Lagarfoss o. s. frv.

Þar með þurftum við ekki að kvíða rafmagnsleysi, kvíða þeim skorti og skerðingu grundvallar lífsgæða, sem stendur milljörðum jarðarbúa fyrir þrifum. 

Með uppþurrkun fossanna í Þjórsá og Tungnaá var hins vegar gengið lengra og virkjað fyrir erlend stóriðjufyrirtæki. Um það var þó sæmileg sátt í þjóðfélaginu og ég var í hópi þeirra sem taldi það nauðsynlegt til að minnka einhæfni útflutnings okkar. 

Einnig lagði ég trúnað á loforðin um stórfelldan innlendan iðnað við að framleiða vörur úr áli, - loforð, sem, eftir á að hyggja, voru barnaleg. 

IMG_0098

Með Kárahnjúkavirkjun  var hins vegar farið út á alveg nýja braut, þ. e. að framkvæma mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöll sem möguleg voru á Íslandi og það á svæði, sem var eitt hinna 40 merkustu á jörðinni.

Með þeirri virkjun einni voru aflífaðir margir tugir fossa, þeirra á meðal þrír af tólf stórfossum landsins, Töfrafoss, Kirkjufoss og Faxi, en þó voru þau spjöll og dráp lífrikis Lagarfljóts smámunir einir miðað við spjöllin af völdum Hálslóns. 

 

P.S. Í athugasemd hér fyrir neðan er því enn einu sinni haldið fram, að ef hleypt yrði úr Hálslóni myndi Hjalladalur og landslag hans verða eins og áður var.

Þó var vitað, áður en farið far út í virkjunina, að ofan í þennan 25 kílómetra langa og 200 metra djúpa dal steypast 10-20 milljónir tonna af jökulauri á hverju sumri og að dalurinn verði orðinn hálffullur af auri, leir og sandi, á þessari öld.  

Spáð var fyrir virkjun, að aur myndi fylla gilið Stuðlagátt, sem þveráin Kringilsá fellur um,  og hylja Töfrafoss efst í því á 100 árum. Myndin hér að ofan sýnir þetta 150 metra djúpa gil aðeins tveimur árum eftir að virkjað var og í stað þessa gils eru nú á hverju vori, þegar lægst er í lóninu, sléttar jökulleirur og stuðlabergsgilið með fossum sínum komið á 100 metra dýpi i aurnum.

Því var líka haldið fram að Töfrafoss myndi standa hálfur upp úr lóninu þegar það er fullt. Í staðinn er það svo að lónið fer meira en kílómetra upp fyrir fossinn þegar það er fullt og að allt svarta landið, sem blasir við, eru dökkar leirur framburðar Kringilsár, sem kaffært hafa land, sem áður var grænt og gróið 2ja- 3ja metra þykkum jarðvegi.  

Af hverju halda menn að fagfólk rammaáætlunar hafi úrskurðað að þessi virkjun fæli í sér mestu "óafturkræfu" umhverfisspjöll Íslands?  Bara út í loftið?  

 

 


mbl.is Heimsins stærsta vatnsaflsvirkjun í Kongó
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Teitur Haraldsson

Þú veist að landið sem er notað undir þessi lón er ekki farið.

Um leið og vísindamenn grænfriðunga finna upp endalausa orku í flösku þá verður hægt að fjarlægja þessar stíflur og vittu til, það verður ekki bara stórt svarthol þar sem lónið var, heldur landið sem var áður en lónið kom.

Okkur gengur ágætlega að galdra til okkar ferðamenn og erum ekkert að verða uppiskroppa með að sýna og sjá náttúruperlur svo ég best viti.

Teitur Haraldsson, 19.5.2013 kl. 15:20

2 identicon

Eitt magnaðasta jarðhitasvæði heims er í Eþíópíu. Það er hinsvegar aillaðgengilegt.

http://www.tumblr.com/tagged/

Sigurður Sunnanvindur (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 17:00

3 Smámynd: Sigurgeir Jónsson

Ferðamönnum tók að snarfjölga eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álvers á Reyðarfirði, og eftir að íslendingar fóru aftur að veiða hvali. Þeim mun meira sem virkjað er og þeim mun meira sem veitt er af hval því fleiri ferðamenn á Íslandi.Hálslón er náttúruperla gerð af mannavöldum,sérstaklega yfir vetrartímann.Helstu áhyggjur sem íslendingar þurfa að hafa af virkjunum og hvalveiðum er að ferðamönnum muni fjölga svo mikið að setja verði hömlur á það. 

Sigurgeir Jónsson, 19.5.2013 kl. 17:19

4 identicon

Því miður er það þannig að til að komast í þennan flokk mestu náttúruundra heims þarf baráttu pólitíkusa og annarra. Þar er því ekki endilega um mestu náttúruundur heims að ræða heldur öfluga auglýsingamennsku, oft til að auka ferðamannastraum. Matið er hvorki hlutlaust né faglegt. Til að komast í hóp 40 mestu undranna þarf aðeins öfluga auglýsingamennsku. Enda margir sem telja mikinn fjölda þeirra 40 sem eru á listanum ekki einu sinni eiga heima á lista 400 mestu undranna. Og jafnvel í Afríku er ekki erfitt að finna náttúruundur í tugatali sem öll eru merkilegri og meiri náttúruundur en það sem við höfum komið á þennan undarlega lista 40 mestu.

Espolin (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 17:38

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Ekki var innistæða fyrir gengishækkun krónunnar áður en gengi hennar hrundi haustið 2008.

Hins vegar fjölgaði erlendum ferðamönnum hér á Íslandi að meðaltali um 6,8% á ári 2000-2009 og mest (13-15% á ári) á árunum 2000, 2003, 2004, 2006 og 2007, þegar gengi íslensku krónunnar var mun hærra skráð en eftir að það hrundi haustið 2008.

Árið 2009 fækkaði hins vegar erlendum ferðamönnum hér á Íslandi um 2%.

Það er nú allur "gróðinn" sem við Íslendingar höfum haft af gengishruni íslensku krónunnar.


Ferðaþjónusta á Íslandi í tölum - Febrúar 2010, sjá bls. 9

Þorsteinn Briem, 19.5.2013 kl. 18:28

6 Smámynd: Guðjón Sigþór Jensson

Fullyrðingin sem Sigurgeir setur fram, gengur ekki upp í venjulegri rökfræði. Landssvæði þetta var ekki aðgengilegt og þurfti að fara þangað annað hvort fljúgandi eða gangandi langar leiðir. Ein aðferðin við rökstuðningin fyrir virkjuninni var „að enginn kæmi þangað hvort sem er“. Mun gáfulegra er að segja að ferðir um Miðhálendið hófust fyrst eftir að Guðmundur Jónasson fann Hófsvað og brúin yfir Tungná við Sigöldu var byggð fyrir um 40 árum.

Guðjón Sigþór Jensson, 19.5.2013 kl. 18:43

7 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hvalaskoðun er sums staðar hér á Íslandi orðin mikilvæg tekjulind í ferðamennsku, til að mynda í Reykjavík og á Húsavík, og ég veit ekki til þess að frá Húsavík séu nú stundaðar hvalveiðar.

Hvalveiðar eru hins vegar stundaðar frá höfuðborgarsvæðinu.


"Starfsfólk Norðursiglingar á Húsavík er að jafnaði um 15 manns yfir vetrartímann en talan fer allt upp í 100 manns yfir sumartímann."

"Yfir 450 þúsund farþegar hafa siglt með Norðursiglingu í um það bil tíu þúsund ferðum."

Og Norðursigling er einkafyrirtæki, eins og önnur fyrirtæki í íslenskri ferðaþjónustu.

Hvalaskoðun og ævintýraferðir frá Húsavík - Norðursigling

Þorsteinn Briem, 19.5.2013 kl. 18:59

8 identicon

B.N. tók þessa mynd í Coma Congo 3/11 (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 19:19

9 identicon

B.M. (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 19:43

10 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ofan í Hálslón steypast um 10-20 milljónir tonna af jökulauri, leir og sandi á hverju sumri.

Hjalladalur, 25 kílómetra langur og 200 metra djúpur, verður orðinn hálffullur af þessum auri á þessari öld og lónið ónýtt til miðlunar. 

Á meira en 100 metra dýpi undir þessum auri verður landslag, þar sem áður voru einstæðir sethjallar, grónar hlíðar og á botninum gljúfur með litfögru klettlandslagi, gallerí afkastamestu "myndhöggvara"ár heimsins.

Að unnt verði að fjarlægja 1000-2000 milljónir tonna af auri til að fá aftur hið einstæða landslag, þar sem áður einstætt landslag í dalnum, er viðameiri bjartsýni en ég hef lengi séð.  

Til þesst þyrfti 200 stóra sandflutningabíla allan sólarrhringinn í næstu 100 ár á eftir. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2013 kl. 20:38

11 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Krónan féll um helming 2008 og allt í einu varð ódýrt að koma til Íslands. Eldgos 2010 og 2011 voru samfara stóraukinni umfjöllun kvikmynda, fjölmiðla og frægs fólks um Ísland.

Hingað til hafa flestir haldið að þarna lægi ástæðan til þess að ferðamönnum hefur fjölgað og að ekkert sé að marka þær skoðanakannanir, sem sýna að yfir 80% ferðamanna koma til landsins til að upplifa einstæða ósnortna náttúru landsins. 

En hér að ofan er sagt að þetta sé bull og vitleysa. Ferðamenn komi til landsins til að skoða Kárahnjúkavirkjun og hvalveiðar!

Hvorugt hefur þó gerst. Sárafáir koma að Hálslóni langt fram eftir sumri, enda 40 ferkílómetrar þaktir fínum auri, sem myndar leirstorma þegar veður er hlýjast og bjartast, og þá ekki verandi þar auk þess sem það, sem blasir við, er ógeðslegt, leiri þakin 30 milljón tonn af rotnandi jarðvegi. 

Lítið fleiri koma síðustu vikur sumars þegar lónið er fullt. 

Af hverju segi ég þetta? Jú,við erum tveir, ég og Völdundur Jóhannessson, sem erum þarna oft á hverju sumri, en þeir sem best þykjast vita um þetta hafa nær allir aldrei komið þarna inn eftir síðan lónið var búið til. 

Þeir trúðu myndum Landsvirkjunar af stærstu miðstöð ferðafólks á hálendinu, sem þarna myndi rísa með fjallaklifrara eins og mý á mykjuskán utan á stíflunum og Kárahnjúki, fjölskyldufólki í hundraðavís að tjalda, siglingamönnum á lóinu og stórauknum ferðum á veturna eftir ísi lögðu vatninu á leið upp á jöikul. 

Þessar hugmyndir hafa reynst gersamlega fánýtar og sú síðasta, með vetrarferðirnar, allra fánýtust, því að sé illfært þarna langt fram eftir sumri vegna þurra og nýrra jökulleira hvert vor, er það jafnvel enn illfærara á veturna, þegar þykkir ísjakar liggja sem ófært hröngl á lónstæðinu. 

Ómar Ragnarsson, 19.5.2013 kl. 21:21

12 identicon

B.N. (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 21:49

13 identicon

B.N. (IP-tala skráð) 19.5.2013 kl. 22:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband