20.5.2013 | 10:53
Aldur er huglægur og afstæður.
Þegar ég var yngri var ég viðbúinn því að elliárin yrðu grá, guggin og leiðinleg. Það yrði dapurleg hugsun að vera á "síðasta snúningi", farinn af kröftum til sálar og likama.
En þetta er afstætt. Ég hef alltaf haft gaman af að hreyfa mig og tók þátt í íþróttum ungur, þótt ég gæfi mér ekki nema nokkrar vikur árin 1964 og 196 til að æfa frjálsar þrisvar í viku.
Þegar ég var kominn yfir fimmtugt fann ég hins vegar út að ánægjan af því að hreyfa sig væri afstæð.
Þótt tímarnir í 100 og 200 væru ekki hinir sömu og fyrr, voru þeir þó góðu lagi fyrir minn aldursflokk.
Síðast hljóp ég 100 sumarið 2006 á 15 sekúndum og huggaði mig við það að það væru ekki margir 66 ára sem það gerðu.
Það er búið að skera hnén á mér þrisvar en það er líka hægt að finna djók út úr því, sem sé nýyrði yfir það að vera aumur og með verki í hnjánum: "Að vera sárhnjáður."
Og er ánægður með það að þótt læknirinn bannaði mér að hlaupa, bannaði hann mér ekki að læðast hratt, sem þýðir að hlaupa upp stigana í Útvarpshúsinu frá kjallara upp á 5. hæð á 30 sekúndum.
Samt nauðsynlegt að vilja gera betur og oftar, ná af sér tíu kílóum og bæta tímann um nokkrar sekdúndur.
Og ég get, vegna hnjánna, ekki ætlast til að geta rennt mér á skíðum framar og verið að því fram undir tírætt eins og Stefán Þorleifsson.
Án þess að hafa búist við fæ ég heilmikið grín út úr ellinni. Til dæmis þessi djúpu sannindi, sem ég fattaði ekki fyrr en komið var á áttræðisaldurinn: "Því lengur sem maður lifir, því meiri líkur eru á því að maður drepist."
Gamla fólkið, sem söng " DAS, DAS,DAS! og aftur DAS!" 70 sinnum í röð á einum degi fyrir sjónvarpsauglýsinguna var að vonum orðið þreytt og þá fórum við að gantast með fleiri útgáfur, t. d. þessa fyrir þá sem væru í dópinu á Hrafnistu: "Gras, gras, gras og aftur gras!", - nú eða fyrir þá sem væru veikir fyrir víni: "Glas, glas, glas og aftur glas!"
Engu var líkara en að Sjómannadagsráð tæki okkur á orðinu, því ekki var liðið nema hálft ár þangað til það var kominn vínbar á Hrafnistu!
En auðvitað er ekki hægt að plata lífsklukkuna, sem er í genunum okkar og er stillt á ákveðinn árafjölda og hann mismunandi fyrir hvern og einn.
Og ekki heldur hægt að plata arfgenga veikleika fyrir ákveðnum sjúkdómum, öldrun eða kvillum nema kannski með því að haga sér í samræmi við það eða með dramatískum aðgerðum eins og leikkonan fræga greip til.
En ég held að við getum samt bætt líf okkar að einhverju marki eða eða lengt það með hegðun okkar og þó fyrst og fremst með hugsun okkar, sem má halda ferskari með því að þjálfa heilann á hverjum degi.
Fyrirmyndin okkar, þegar allt er sem erfiðast, ætti að vera hetjan, "sprengjumaðurinn", sem fótalaus og blindur, eigandi eftir aðeins fjóra lífdaga, hékk í rúminu í heimildamyndinni "Hvellur" og var spurður hvernig hann hefði það.
Svarið var í Íslendingasagnastíl: "Ég hef það eins gott og ég get ætlast til."
Flottasta tilsvar sem ég hef lengi heyrt.
Þetta er stóra hetjan, sem við ættum að hugsa til þegar alvarlega gefur á bátinn.
Skíðar og golfar á 97. aldursári | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Ómar löngu orðinn sör,
alla stiga hleypur,
hans er lífið háskaför,
hann er ansi sleipur.
Þorsteinn Briem, 20.5.2013 kl. 14:33
Takk fyrir þetta skrif. Ég á ennþá erfitt með því að vera komin á efri árin. En grinið lengi lifir!
Úrsúla Jünemann, 20.5.2013 kl. 14:52
Aldur er hvorki huglægur né afstæður. Misskilningur.
Aldur er fyrst og fremst líkamlegur, physical, og á engan hátt afstæður eða relative.
Dauðinn er absolut. Um leið og einhver fæðist eru líkurnar á því að hann drepist 100%.
Og lífið eftir dauðann er eins og lífið fyrir fæðingu, eða áður en maður kam undir, „nothing“. Gleðileg hátíð.
Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 20.5.2013 kl. 19:48
Skýrslur sýna að líkurnar á því að maður drepist á aldrinum 1-30 ára eru margfalt minni en að maður drepist á aldrinum 70-100 ára.
Ómar Ragnarsson, 21.5.2013 kl. 04:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.