21.5.2013 | 10:32
"Tapararnir" eru oftast alltof margir.
Það er út af fyrir sig gott að setja sér einhver markmið til að keppa að að ná. Hitt er verra ef markmiðin eru þess eðlis að yfirgnæfandi líkur séu fyrir því að þurfa að upplifa tap og hafa lagt svo mikið á sig og vænst svo mikils að afleiðingin verði alvarleg fráhvarfseinkenni, stórfellt andlegt áfall og þunglyndi.
20. mínútna stuttmyndin "Þú verður að líta vel út" sem frumsýnd var á Reykjavík Short Docs á dögunum dregur upp eftirminnilega mynd af þessu.
Söguhetjan fer í keppni sem krefst ofurmannlegrar áreynslu og gríðarlegs álags á löngu tímabili.
Keppnin er þannig sett upp að aðeins lítill hluti þeirra, sem taka þátt, komast áfram, og í lokin kannski aðeins einn, en yfirgnæfandi meirihluti ber ekkert úr býtum annað en djúpsár vonbrigði eftir ofurmannlegar fórnir, sem virðast ekkert hafa gefið, heldur þvert á móti kostað allt of mikið.
Umgerð svona íþrótta, andinn að baki þeim, og keppnin sjálf þarf að breytast svo að sem flestir, helst allir, sem taka þátt, fái verðskuldaða umbun fyrir að hafa lagt sig svo mikið fram að aðdáun ætti að vekja í stað vissrar "útskúfunar" .
Þegar horft var yfir allan þáttakendahópinn í myndinnni blasti við hrífandi mynd af stórkostlegum árangri og yfirgengilegum fórnum hjá stórum hópi fólks.
Það eitt hefði átt að tryggja það að hver og einn hefði getað unað vel við sinn hlut þegar upp var staðið.
Í staðinn snýst allt um þá fáu eða kannski bara þennan einn sem sigraði og hinir sitja eftir með sárt ennið og "lúsers"-stimpilinn.
Og uppleggið, sem orða mætti í orðum Snæfríðar Íslandssólar, "frekar þann versta en þann næstbesta" er augljóslega allt of algengt og innprentað hjá of mörgum.
Þú verður að tjilla meira | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
"Að sigra heiminn er eins og að spila á spil
með spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði.)
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið."
(Steinn Steinarr, Kvæðasafn og greinar.)
Þorsteinn Briem, 21.5.2013 kl. 12:43
Þetta er athyglisverð ábending hjá Ómari. Ég hef stundum velt fyrir mér hvort íþróttamenning okkar Íslendinga og vesturlandabúa, þar sem meistarinn einn er vegsamaður, geri það að verkum að með aukinni þáttöku verði einungis til fleiri „lúserar“ — allir nema meistarinn tapa.
Þar sem þeim fjölgar ekki sem verða meistarar, heldur fjölgar einungis þátttakendum, fjölgi þar með bara „lúserum“ eftir því sem fleiri taka þátt — þ.e. eins og við fjöllum um og umgögngust keppnir og íþróttir og þá sem ekki ná ýtrasta mögulegum árangri.
Helgi Jóhann Hauksson, 21.5.2013 kl. 19:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.